Smá hryllingsrómantík….í anda Lovecraft



Það er alltaf gaman að fá fallega gjöf…eða hvað? Eru allar gjafir til góðs? Hver er sú hugsun sem liggur að baki og er alltaf hægt að gefa sér að það sé góður vilji?


Að mínu mati er mesta miskunn sem manninum hefur verið sýnd, sú vangeta mannshugans að setja vitneskju hans í rökrétt samhengi. Öll búum við á friðsælli eyju einhvers staðar langt útí ballarhafi óendanleikans og okkur var ekki ætlað að leggja í langferðir á þann sjó. Vísindin, sem öll halda hvert í sína átt, hafa hingað til skaðað okkur lítið en dag einn munum við raða saman brotunum sem þau hafa lagt til. Sú vitneskja mun gefa okkur sýn inní svo hræðilegan veruleika og kenna okkur hve lítilfjörlegt hlutverk okkar er, að annað hvort munum við ganga af göflunum sökum opinberunarinnar eða við munum flýja þetta ægilega ljós sannleikans. Flýja inní friðinn og öryggið sem myrkur óvissunnar veitir okkur.
Guðspekingar hafa rætt um gríðarlegan mikilfengleika alheimsins þar sem heimur okkar og tilvera mannkynsins eru skammvinnar tilviljanir. Þeir hafa gefið í skyn að eitthvað undarlegt sé enn til síðan alheimurinn var ungur. Gefið í skyn á þann hátt að ef ekki væri fyrir mikla bjartsýni þeirra myndi blóðið í æðum okkar frjósa. En hún er ekki frá þeim runnin sú örstutta sýn sem ég hlaut af hinum forboðnu árþúsundum. Sýn sem sendir hroll niður hrygg minn þegar ég hugsa um hana og gerir mig brjálaðan á nóttunni þegar mig dreymir um hana. Þetta augnablik, rétt eins og öll ömurleg augnablik sannleikans, birtist mér óvart vegna þess að ég lagði saman tvo ólíka hluti og fékk ótrúlega útkomu,-í þessu tilfelli póstkort og litla upphleypta mynd á leirkassa. Ég vona að enginn geti og muni í framtíðinni fá sömu niðurstöðu og ég. Ef ég lifi mun ég aldrei verða hlekkur í svo hræðilegri keðju.
Frásögn mín hefst veturinn ´98 í febrúar. Þennan vetur leigði ég lítið herbergi á Grundarstíg 17. Herbergið var í kjallaranum og það var svo lítið að þar rúmaðist rétt beddinn minn við norðurvegginn og lítið skrifborð í einu horninu. Veggurinn sem snéri að garðinum hafði að geyma gluggaómynd, sem gaf litla birtu. Í loftinu hékk pera en á borðinu var standlampi sem ég nýtti frekar en peruna. Ég hafði sérinngang og klósett, sem var líkara útihúsi en baðherbergi sökum þess að þar rétt rúmaðist vaskur og klósett, en mat varð ég að elda annars staðar. Beint á móti þessu tveggja hæða steinhúsi, hinum megin við götuna, var Borgarbókasafnið, hvítt tignarlegt og gamalt hús. Það stóð reyndar við Þingholtsstræti en það var einnig innangengt í safnið frá Grundarstíg. Ég eyddi mörgum dögum inni á safninu og unni mér vel við lestur hinna ýmsu bóka og fræðirita. Þennan vetur átti ég að heita námsmaður. Lítið varð úr náminu og eyddi ég flestum mínum stundum á rölti um bæinn, inná bókasafninu eða liggjandi sofandi á beddanum mínum. Ég var mjög eirðarlaus og hafði lítið fyrir stafni og námið vakti hjá mér alls engan áhuga.
Dag einn, þegar ég kom heim úr einni af mínum löngu gönguferðum um bæinn, lá rauður og hvítur póstmiði á litla púltinu. Ég tók upp miðann og samkvæmt honum hafði ég fengið sendingu frá vini mínum Jacob Laursen. Jacob er maður sem ég kynntist á ferðalögum mínum um Evrópu. Um sumarið hafði ég farið í bakpoka ferðalag og ég hitti hann í Rínar-dalnum. Jacob var þó nokkuð eldri en ég. Með okkur tókust samt ágæt kynni og það varð úr að við ferðuðumst saman. Hann var einstaklega vel að sér um gamla minjar og þá sérstaklega staði tengda gömlum trúarbrögðum. Fyrir vikið varð mjög áhugavert að ferðast með honum þar sem hann fræddi mig um hin og þessi trúarbrögð og gamla siði. Ég held að hann hafi verið einhvers konar fræðimaður án þess þó að hann hafi nokkurn tímann talað eitthvað sérstaklega um það. Ég hafði ekki heyrt í Jacob frá því fyrir jól og þá hafði hann verið að rannsaka einhvern stað í Grikklandi.
Ég rölti sem leið lá niður á pósthús og sótti pakkann. Það var auðfengið og ég flýtti mér aftur heim, dauðspenntur að sjá hvað hann væri að senda mér. Þegar ég kom heim lagði ég kassann á borðið og opnaði hann. Efst í kassanum sem annars var af venjulegri gerð var lítið póstkort. Á því var mynd af Pantheon í Aþenu. Aftan á kortið var skrifað með lélegum blýanti, skriftin var öll bjöguð og torlæs. Á því stóð að í pakkanum væri gjöf til mín.
Það var allt og sumt. Mér sárnaði að bréfið skyldi ekki vera lengra, í því var engin kveðja og ekki einu sinni sagt gleðilegt nýtt ár. Mér þótti þetta ákaflega einkennilegt. Sérstaklega þar sem Jacob hafði mjög gaman af bréfaskrifum. Í maga mínum var furðuleg tilfinning. Hvorki spenna né ótti en samt einhvern veginn blanda hvoru tveggja. Í huga mér spruttu upp margar spurningar, hvort eitthvað hefði komið fyrir, hvers vegna hann hefði ekki skrifað lengra bréf og hvers vegna var hann að senda mér þennan pakka?
Í pakkanum var annar kassi, skrýtinn harðlæstur leirkassi, skreyttur táknum, útskurði, punktum og einhvers konar upphleyptri mynd. Hvað þýddi upphleypta myndin, sundurlausu táknin, punktarnir og útskurðurinn? Hafði Jacob fallið fyrir yfirborðskenndu prettunum og svikurunum sem hann hafði alltaf varað mig við? Upphleypta myndin var rétthyrningur, u.þ.b. 2,5 cm á þykkt og hver hlið var um 12-15 cm á lengd, augljóslega nútímahandverk. Mynstur og efni myndarinnar var langt frá því að vera nútímalegt í anda eða gerð, þó svo að diktúrur og duttlungar kúbisma og fútúrisma eru margir og mismunandi, þá endurgera þeir ekki þann reglubundna leyndardóm sem fellst í forsögulegum skrifum. Og einhvers konar skrift virtist stærsti hluti þessara tákna vera, þó svo að ég, þrátt fyrir að hafa lesið mér nokkuð vel til um og þekkt vel gamlar leturgerðir, hafði ég ekki minnstu hugmynd hvað þessi tákn þýddu eða hvaðan þau voru upprunnin.
Fyrir ofan þessar dularfullu híróglífur var mynd af fígúru sem sýnilega þjónaði einhverjum myndrænum tilgangi, en impressjonísk gerð hennar kom í veg fyrir að ég kæmist að hver hann væri. Þetta virtist vera mynd af skrímsli, eða af einhverju tákni fyrir skrímsli, þeirrar gerðar að aðeins einhver með verulega sjúkt ímyndunarafl gæti hafa gert. Ef ég myndi segja að annars óhóflegt ímyndunarafl mitt hefði búið til og skeytt saman myndum af kolkrabba, dreka og afbakaðri mynd af manni væri ég ekki fjarri þeirri mynd sem var á leirkassanum. Kjötmikið andlitið, hlaðið gripörmum í stað munns, skagaði upp úr viðbjóðslegum og hreisturkenndum líkamanum sem var með litla og vanþróaða vængi á bakinu, en það var aðallega útlitið í heild sem var hvað mest ógnvænlegast. Fyrir aftan fígúruna glitti í einhvers konar fornan akritektúr, sem minnti einna helst á mynd úr sögunni um Ódiseif.
Sama hvernig ég reyndi þá gat ég engan veginn opnað kassann sem mér hafði verið gefinn. Það var samt eitthvað sem hélt aftur af mér við að brjóta hann upp. Ég skoðaði betur oní sendingarkassann en fann hvergi lykil eða neitt áhald sem líktist einhvers konar lykli á nokkurn hátt. Að lokum gafst ég upp á því að reyna að opna hann og ákvað að skoða táknin og útskurðinn betur. Kassinn var úr brenndum leir og var dökkbrúnn á litinn, með rauðum flekkum hér og þar en táknin og myndin voru kolsvört. Ég skoðaði vel táknin sem virtust vera einhvers konar myndletur, eins og híróglífur eða kínverska en tengsl við þær leturgerðir voru þó ekki sýnileg. Táknin voru öll slöngulaga og láku einhvern veginn yfir flötinn og ef ég horfði lengi fannst mér eins og að stafirnir færu á hreyfingu og mig sundlaði.
Um nóttina dreymdi mig ógurlegan draum. Ég lá í rúminu og sá kassann opnast. Upp úr kassanum reis viðbjóðlegst skrímslið og það tók mig í aðra lúkuna. Lamaður af ótta kom ég engum vörnum við. Hreistruð, slímkennd húðin lagðist að líkama mínum og nálykt fyllti vit mín svo að mér lá við köfnun. Skrímslið reis upp fyrir húsin, reis svo hátt að mér þótti ógerningur að sjá einstök hús. Borgin, eins og hún lagði sig og allt umhverfi hennar var langt fyrir neðan mig. Ég horfði upp eftir líkama skrímslisins, í átt að afmynduðu andliti þess. Munnvatn, sem líktist einna helst grænu slími, lak af gripörmunum og fýlan var mér um megn. Ég greip fyrir nefið og reyndi að anda með munninum en loftið umhverfis þennan óhugnað brann í lungunum og mig sveið svo í augun að ég táraðist. Ég reyndi aftur að líta upp og leit þá í fyrsta sinn augu viðbjóðsins. Pínulítil miðað við stærð þess, en samt voru þau það geigvænlegasta við það. Kolsvört og full af hatri, brunnu þau af þrá til að drepa og myrða og mér fannst eins og andardrætti mínum hefði verið kippt í burtu og hjartað rifið úr brjósti mér. Óendanlegur sársauki greip líkama minn sem kipptist allur til og skalf en ég gat ekkert annað gert en þjást.
Öskrandi vaknaði ég á beddanum. Eftir að hafa náð áttum teygði ég mig í lampann á borðinu og kveikti á honum. Ég leit á leirkassann. Skrímslið á myndinni virtist hafa breytt sér og myndin í bakgrunni einnig. Ég reis upp úr rúminu til að skoða þetta betur. Á myndinni var enn skrímslið en í stað þess að standa eins og áður, með hendur meðfram hliðum hafði það rétt fram aðra hendina. Í bakgrunni voru ekki lengur hinar fornu myndir heldur var komin mynd sem ég þekkti, -sem ég þekkti of vel og skelfing greip mig. Kalt vatn rann mér milli skins og hörunds og svitinn spratt fram á enninu. Andardrátturinn varð hægur og þungur og ég átti erfitt með að hugsa. Óttinn varð að tærandi, sem blóðsuga á hálsi mér og saug úr mér allan mátt. Ég leit gaumgæfilega á hendi skrímslins og þótti kenna þar örsmáa mannveru, -mig.