HRÓLFUR HITTIR BRÓÐIR JÓHANNES

Hrólfur gengur inn um dyrnar á kránni og hittir þar fyrir gómsæta steikingar- og bökunarlykt. Inni í eldhúsi, sem er beint á móti dyrunum, situr þrifaleg kona um þrítugt og hrærir í potti. Hún lítur upp þegar hún heyrir hann koma inn. Þegar hún sér að þetta er utanbæjarmaður segir hún honum að steiktar pylsur, brauð og súpa kosti eitt mark.

„Takk. Skyldi nokkuð vera hægt að gista hérna næturlangt? Ég hef því miður ekki mikið fé á mér, aðeins hálfmark eftir máltíðina.“ Hann er eins beiðandi og umkomulaus í röddinni og honum er framast unnt. Um að gera að vekja smá vorkunnsemi í brjósti konunnar (og hvílíkt brjóst! Í einu ætti að rúmast næg góðmennska fyrir allt þorpið!).

Hún virðir hann fyrir sér.

„O jæja. Lát mig þá fá hálfmarkið og ég skal láta yður fá felda og teppi, svo getið’ér sofið hjá eldstæðinu.“

Ágætt, fínt! Að sofa hjá eldstæði, það er hreinasti lúxus! Það er þó skömminni skárra en að draga að eldivið, kveikja eld og príla svo upp í tré.

Kráin sjálf er lítil, fjögur langborð sem liggja frá norðri til suðurs og bekkir. Á hverju borði kerti, á veggjum olíulampar og eitt eldstæði á norðurveggnum. Hrólfur sest við eitt borðið og sem næst eldinum. Hlýjan er dásamleg, eitthvað sem hann hafði látið sig dreyma um allan liðlangan daginn. Hann fer úr eins miklu og hægt er, og leggur nálægt eldinum svo það þorni betur.

Og áður en langt um líður kemur konan með rjúkandi súpuskál, disk með steiktum pylsum og hálfan brauðhleif. En þær krásir! Hann bíður ekki boðanna, heldur tekur strax til við að matast. Þetta er allt svo ljúffengt, og verður ennþá betra þegar þetta er fyrsta heita máltíðin um nokkurra daga skeið. Hann er svo upptekinn við að raða í sig matnum að hann hreinlega tekur ekki eftir því að annar maður hefur komið inn, og situr brosandi á móti honum.

Jæja, maður segir brosandi. ‘Munnvikin sneru upp’ er þó hæfilegri lýsing á svip mannsins, eða þau virðast að minnsta kosti gera það miðað við skeggið. Augun eru hins vegar ennþá köld, blá-grá, og óþægilega starandi, Hrólfi finnst eins og það sé verið að bora gat í sig þegar hann horfir í þau. Hárið er dökkt, en tekið að grána, og kollvikin eru farin að færa sig upp á skaftið. Andlitið kringlótt eins og tungl í fyllingu, án þess þó að vera feitt. ‘Feitur’ er lýsing sem hæfir þessum manni alls ekki.

„Sæll. Ég er bróðir Jóhannes, af reglu Brendans.“

Svo þetta er þá munkur. Já, það stemmir: Látlaus ullarkufl, gráhvítur en þó farinn að láta á sjá, lítið tré (úr silfri) í keðju um hálsinn.

„Ég heiti Hrólfur.“

Brosið færist yfir til augnanna og út yfir allt andlitið, gulleitar tennur skína í gegnum skeggið.

„Hvaðan ertu, Hrólfur?“ Engin þérun, engin formlegheit, engin tilgerð. Bara maður að tala við mann eins og jafningi við jafningja.

„Frá Ímansturnasveit.“

„Ímansturnasveit? Það er langt héðan. Hvaða sorglegi atburður flutti þig alla þessa leið?“

Hvað veit þessi förumunkur, og efalaust loddari líka, um hans sorgir?

„Þú ert sorgmæddur að sjá, þess vegna spurði ég nú.“

Munkurinn tekur upp pípu og fer að hreinsa hana. Þetta er fín pípa, listasmíð. Hausinn er útskorinn, opið er fisksmunnur, og öll pípan er eins og fiskur. Hann treður vel lyktandi jurtum í hana og kveikir í. Þykkur og ilmsterkur reykur liðast upp úr henni og út um allt. Þetta er Hrólfi ókunnug lykt, og hann lyktar af áfergju.

„Hrólfur, hvers vegna fórstu frá Ímansturnasveit? Ég var þar bara nýlega, þar virtist allt vera í sómanum, engin stríð, ekki nein vandræði.“

„Það var ekkert þar til að halda í lengur. Hefuru tíma fyrir sögu?“

„Alltaf, það er alltaf nægur tími fyrir sögu,“ segir munkurinn Jóhannes og brosir aftur.

SAGA HRÓLFS

„Jæja þá. Ég fæddist þar og ólst upp. Pabbi minn var hirðmaður furstans, og eitt af hans uppáhalds kvæðamönnum. Ég átti að taka við af honum, og var því kennt að yrkja og syngja og spila á hörpu, og ég varð bara nokkuð slyngur, ég hef oftar en ekki getað borgað reikninga og heillað dömur með söng og glensi.

„Svona eins og gerist, þá varð ég ástfanginn af einni hirðmeynni. Ég var sextán, hún var einu eða tveim árum yngri. Tinna hét hún, afar viðeigandi, hún var með tinnusvart hár. Græn augu, lítinn og fallegan nebbakút. Henni fannst ekkert athugavert við áhuga minn, og tók honum bara fagnandi. Við vorum saman, óaðskiljanleg, allt sumarið, lofuðum hvort öðru ævarandi ást, og allt hitt sem ástfangnir unglingar gera svo gjarnan.

„En auðvitað entist þetta ekki. Einn daginn, ætli það hafi ekki verið í ágúst, eða var kominn september? Ég man það ekki. Jæja, sonur furstans kom til hennar og sagði henni að hann ætlaði að giftast henni. Það var ekkert sem við gátum gert, faðir hennar samþykkti þetta og allt það. Ég veit vel að hann, sonurinn, gerði þetta bara til að klekkja á mér, hann hefur alltaf öfundað mig því ég er einfaldlega fríðari en hann og miklu betri söngvari. Ég segi þetta ekki vegna þess að ég er svo góður söngvari eða svo fallegur, þú skilur. Hann var hins vegar rammfalskur gaulari og forljótur í þokkabót. En sonur og erfingi furstans.

„Nú, það var ekkert sem við gátum gert. Hún grét og grét þegar hún sagði mér tíðindin, en ég beið þangað til ég var einn með að gráta sjálfur. Ég jafnaði mig með veiðum og að flytja faldar níðvísur um soninn við hirðina, og leyndar ástarvísur til Tinnu við brúðkaupið.

„Auðvitað varð hún ólétt skömmu síðar, slíkt er bæði eðlilegt og sjálfsagt. En þegar hún fæddi strákinn, þá lést hún, og strákurinn skömmu síðar. Syni furstans var nokk sama, hann átti hvort eð er sæg hjákvenna, og hafði, eins og ég sagði, bara gifst Tinnu til að láta mér líða illa.

„Þá var pabbi þegar látinn fyrir nokkrum árum, móðir mín löngu fyrr. Og þá var bara ekkert eftir handa mér, svo ég fór á flakk. Ég þoldi ekki að sjá þennan furstason, og hvað annað gat ég gert? Ekki gat ég drepið hann, það myndi ekki leysa neinn vanda. Um miðja nótt laumaðist ég burt og hef ákveðið að snúa aldrei aftur þangað. Og það var fyrir fimm eða sex vetrum.“

Bróðir Jóhannes horfir forviða á Hrólf. Hann sýndi engin svipbrigði á meðan hann sagði söguna, röddin alltaf róleg og stöðug.

‘Vesalings ungmenni! Annað hvort hefur þú sagt hana svo oft að hún er bara rútína, eða þá að þú ert orðinn algerlega tilfinningalaus,’ hugsar hann með sjálfum sér. En upphátt segir hann:
„Þetta er sorglegt, alltaf sorglegt þegar að á ást ungmenna er skyndilega slökkt eins og kerti af örlögunum. Ég mun muna eftir þér í bænum mínum, og biðja að þú finnir frið. Jæja, ég þarf að fara til kirkju. Við sjáumst kannski síðar, Hrólfur minn.“

Og svo er hann farinn, jafn skyndilega og hann kom.
All we need is just a little patience.