Ég slekk ljósið en ljósastaurinn fyrir utan gluggann gefur herberginu skuggalega ásýnd. Ég leggst svo í rúmið á loka augunum. Hún nálgast herbergið, ég finn sígarettulyktina. Hún tekur í hurðarhúninn og opnar þannig að það ískrar. Eitthvað sem ég ætlaði alltaf að laga.
„Ég er búin að pakka,“ segir hún. Ég svara ekki en orð hennar hringsnúast um heilann á mér. Það er ekki vottur af tilfinningum í rödd hennar. „Pappírarnir eru frammi í eldhúsi. Ég er búin að skrifa undir. Gvendur er á leiðinni að sækja mig.“
Setningarnar eru stuttar og snobbóttar. Helvítis tíkin. Mér finnst ég tómur. Svolítið eins og vatnsglas sem hún drakk og ætlar svo bara að míga því út yfir mig áður en hún hendir mér í gólfið þannig að ég brotna í milljón brot. Nokkrir dropar voru kannski eftir í þessu glasi, nokkrir dropar af reiði. Ég ræð ekki við mig, ég verð að gera eitthvað, særa hana. Hún er ekki alveg tilfinningalaus, hún finnur vel fyrir sársauka.
Ég stend upp í flýti en hún er farin úr herberginu, ég tók ekki einu sinni eftir því. Mig svimar af því að standa svona hratt upp og stend því aðeins kyrr til að jafna mig. Svo storma ég fram í eldhús og skelli hurðinni á eftir mér. Hún situr við eldhúsbekkinn og er að setja á sig naglalakk. Hún lítur ekki einu sinni upp. „Hvað í andskotanum er að þér?“ öskra ég. Þá fyrst virðist hún taka eftir mér. Hún brosir gerviborsinu sínu og spyr rólega; „Hvað meinarðu? Er eitthvað að?“
„Er eitthvað að?“ ég verð þurr í munninum og röddin skræk og máttlaus, „þú ert að fara frá mér eftir þriggja ára hjónaband og lætur bara eins og ekkert sé. Eins og það hafi ekki skipt neinu máli.“
„En Atli, það skipti mig engu máli,“ hún brosir ennþá, „ég giftist þér bara vegna peninganna. Eina ástæðan fyrir því að þetta svokallaða hjónaband entist var af því að ég fór í aðgerðirnar.“
Ég hef ekkert að segja. Það er bara ein leið til að særa hana og það er með því að meiða hana. Líkamlega. Ég tek upp stól og hendi í áttina að henni. Hann lendir á eldhúsbekknum og einn fóturinn brotnar. Hún leggur frá sér naglalakkapensilinn.
„Atli!“ segir hún hvassri röddu, „ertu búinn að missa vitið?“
„Ef ég er búinn að missa vitið þá er það þér að kenna kerlingarandskoti,“ ég geng nær eldhúsbekknum og reyni að vera ógnandi. Mig langar til að hræða hana.
„Þú hafðir nú ekki það mikið vit fyrir fyrst þú giftist mér, “ svarar hún. Röddin er ennþá hvöss en samt róleg. „Ekki vera að reyna svona á þig, við vitum bæði hvernig þetta endar. Þú hefur aldrei þorað neinu, litli, aumkunarverði strákurinn þinn. Þú hefðir átt að vita að enginn myndi nokkurn tímann vilja þig fyrir neitt nema aurana.“
Ég finn tár kreistast fram úr augunum. Ég reyni að halda því inni en það lekur niður kinnina á mér. „Já, farðu að skæla,“ segir hún og hlær. Ég get engu svarað. „Hver heldurðu að vilji grátandi smástelpu að kærasta. Ef ég væri þú þá myndi ég fela mig því Gvendur er að koma og hann mun lúberja þig þegar hann heyrir hvernig þú ert búinn að vera að hóta mér.“
Þarna. Nákvæmlega á þessu augnabliki er eitthvað sem gerist í heilanum á mér. Eitthvað svona eins og þegar öryggi springur og ég missi alla stjórn. Það er eins og ég horfi út um augu annars líkama. Ég geng hratt og örugglega að henni og kýli hana í kinnina. Hún skellur á gólfið og ég sé óttann í augunum á henni. Ég tek fast um hálsinn og held. Ég held þangað til hún verður máttlítil og finn að lífið er að fjara úr henni. Ef hún hefði sál væri hún að yfirgefa líkamann á þessum tíma. Þá opnast hurðin að íbúðinni og mér bregður svo að ég sleppi takinu og hrekk upp.
Gvendur gengur inn í íbúðina og sér Andreu liggja máttlausa á gólfinu. Hann stekkur að mér og ég bakka þar til ég klessi á eldhúsvegginn. Ég er aftur kominn með stjórn á sjálfum mér. „Hún er ekki dáin. Ég ætlaði ekki að gera þetta. Hún er ekki dáin. Ekki meiða mig. Fyrirgefðu. Fyrirgefðu. Fyrirgefðu.“ Tárin renna nú mörg niður kinnarnar á mér og leka niður á gólf. Gvendur svarar ekki en grípur um hausinn á mér. Ég reyni að hreyfi mig en er stjarfur af hræðslu. Hann setur þumlanna yfir augunum á mér og ýtir. Sársaukinn er ærandi og blóðið spýtist út og blandast tárunum. Hann hendur mér á gólfið, tekur Andreu og gengur rólega úr íbúðinni. Ég síg niður á gólf og held um augun á mér. Eða um það sem eftir er af þeim.