Þetta áhugamál hefur alltaf heillað mig nokkuð, ég vona að þetta innlegg fái ágæta dóma þó svart sé það…



Í góðum draumi

Í dag er dagurinn. Mig hefur oft dreymt atburði þessa dags, atburði sem gerðust þennan dag einu sinni. Það er eins og þessi dagur sé að ofækja mig. Á hverju ári þá kvíði ég honum og get ekki beðið eftir að hann líði hjá en þegar hann er loksins liðinn þá veit ég að það eru bara 364 dagar í næsta.

En mig dreymdi atburði dagsins í nótt. Mig dreymdi að ég hefði bakkað bílnum yfir Kát, hundinn okkar, Kát sem sat í fanginu á mér fyrir framan sjónvarpið í gær, Kátur sem er eini vinur minn í veröldinni. Hvernig getur það verið góður draumur?

Af því að, þá bakkaði ég ekki bílnum yfir barnið mitt.

Í þessum góða draumi fylgdi sorg, sorg fyrir fjölskylduna mína, fjölskylduna sem ég átti þá en á ekki lengur. Konan mín ásakaði mig aldrei með orðum. Hún elskaði mig stjórnlaust fyrir þennan dag, í lok dagsins var ég búinn að slökkva á henni sem manneskju. Hún hafði ávalt haft eld í augunum, eld og ákafa, vilja og von. En morguninn eftir voru þau dauð, augun. Ég fann það í hjartanu að ég hefði drepið marga þennan dag.

Mamma sem hafði stutt mig sem barn í hvert sinn sem gæludýr dó á heimilinu, pabbi sem hafði sýnt stuðning með þegjandi samþykki á sorginni og þulið setningar á borð við „svona endar lífið hjá öllu og öllum“, konan mín þegar amma hennar dó, hafði grátið og grátið og leyft mér að hugga sig og ég sem hafði tekið mér hlutverk sálusorgara, hlustað á alla og huggað mig seinna. Ég hafði drepið þetta fólk, það leit á mig sem ókunnugan, einhvern sem það þekkir ekki. En af hverju ætti það að koma á óvart, ef ég væri þau, þá mundi ég ekki vilja þekkja mig heldur.

Ein vika leið og ég óskaði þess að einhver mundi skjóta mig í hnakkann, hratt og sársaukalaust.

Önnur vika leið, mánuður og ár frá slysinu og ég óskaði þess enn að einhver mundi skjóta mig í hnakkann, hratt og sársaukalaust.

En þennan dag, ári eftir að ég bakkaði yfir barnið mitt, hengdi mamma sig. Hún vissi að ég mundi koma að henni. Ég veit ekki hvað kom yfir mig, en á sekúndubroti hugsaði ég um allt sem hún var að reyna segja mér með þessu. Það var ekkert sem ég hafði ekki hugsað um sjálfur.

Konan mín tók þessu illa og sagði mér að ég þyrfti að eiga meiri samskipti við fólkið í kringum mig. Það fannst mér ekki vera þegjandi ásökun og ég svaraði henni því, að við gætum eignast fleiri börn, að við þyrftum að vinna okkur í gegnum sorgina en ekki dvelja í henni, það væri ekkert líf.

Þennan sama dag blæddi henni út í baðkarinu.

Pabbi hefur ekki talað við mig síðan, reyndar enginn í fjölskyldunni minni, né hennar. Ekki einu sinni í jarðarförinni.

En Kátur erfði þetta ekki við mig, það má alveg keyra eftir einn.

Ég hef alltaf trúað því, ef ég hætti að trúa því núna, þá, nei, ég verð að trúa því áfram, það er eina afsökunin sem ég hef.

Hvar ætli Kátur sé…?