Hann var ást við fyrstu sýn. Hann var sá eini rétti fyrir mig. Ég var handviss! Ég gat ekki hugsað um neitt annað en hann. Ég lyfti upp símtólinu og hringdi í hann. Hjartað í mér hamaðist. Hann svaraði með sinni sérkennilegri röddu: “Halló!”
“Hæ,” sagði ég. “Hvað segiru?”
“Allt fínt bara.”
“Hvað er verið að gera?”
“Bara eitthvað að keyra með vini mínum”. Eftir það varð smá þögn. Ég varð að þora.
“Ertu að gera eitthvað sérstakt í kvöld?”
“Nei, ég þarf bara að læra eitthvað smá.”
“Ég var þarna að spá hvort þú nenntir í bíó með mér,” tókst mér að stynja út úr mér. Mér leið eins og geðveikum aula.
“Jájá, ég ætti nú alveg að geta það,” svaraði hann. Ég varð himinlifandi. Við ákváðum að fara í tíu bíó. Hann myndi ná í mig klukkan svona tuttugu mínútur í og ég var svo spennt! Ég gat hreinlega ekki beðið.
Hann hringdi og lét vita að hann væri alveg að koma. Ég hljóp niður stigaganginn og þarna var hann. Fyrir utan blokkina mína var frekar gamall lítill hvítur Bimmi og þarna sat hann bara og var að bíða eftir mér. Ég gekk til hans og settist inn í bílinn og hann keyrði af stað. Þegar við vorum mætt í bíó komumst við af því að myndin byrjaði ekki fyrr en korter yfir tíu og við þurftum að bíða. Hann borgaði. Aldrei hafði strákur borgað fyrir mig í bíó áður. Mér fannst þetta svo mikill óþarfi. Ég hefði alveg getað borgað sjálf en svona á þetta víst að vera. Strákurinn splæsir. Ég sagði “takk”. Ekki var enn byrjað að hleypa inn í salinn og við þurftum að bíða frammi. Hann spurði hvort mig langaði í eitthvað. Ég sagði “nei takk” en fór samt að kaupa mér frostpinna með mínum pening. Hann keypti sér bara sódavatn. Það kom mér mjög á óvart. Ég hélt að hann myndi kaupa sér popp og kók eins og allir aðrir en nei, hann keypti sér sódavatn. Ég kom þá strax með þá ályktun að hann hugsaði mjög vel um heilsuna. Það fannst mér flott.
Biðin var löng. Ég reyndi að borða frostpinnann á eins kurteisislegan hátt og ég gat. Það var erfitt. Af hverju í ósköpunum keypti ég mér frostpinna! Ég sá alveg geðveikt eftir því. Við vorum bæði mjög feimin. Sérstaklega hann. Hann sagði næstum ekkert af fyrra bragði. Það var alltaf ég sem þurfti að hefja samræður. Ég spurði hvernig honum gengi í skólanum. Honum fannst þetta voða skrýtin spurning og brosti bara en hann sagði mér frá einhverjum markaðsfyrirlestri sem hann átti að flytja í skólanum. Enn þann dag í dag veit ég ekki hvað markaðsfyrirlestur er. Mér fannst þetta hljóma mjög gáfulega og mér fannst hann frekar klár enda var hann líka í Versló og eru ekki yfirleitt klárir krakkar þar? Svo sagði hann mér líka frá því að næsta kvöld ætlaði hann að skemmta sér á Tres Locos. Það fannst mér hljóma mjög spennandi. Aldrei hafði ég farið inn á nokkurn skemmtistað.
Fullt af öðru fólki var að bíða eftir því að hleypt yrði inn í salinn. Fleira og fleira fólk bættist við og það var frekar troðið. Þetta var víst frumsýning. Við biðum og biðum og biðum. Biðin var löng og við þorðum ekki að segja neitt við hvort annað. Við vorum svo feimin en loks var hleypt inn og við nældum okkur í ágætis sæti í miðjunni. Við einbeittum okkur að myndinni og sögðum ekki neitt. Ekki man ég eftir neinu hléi en ég man eftir því þegar hann lagði höndina á lærið á mér. Ég varð spólgröð. Ég þori að viðurkenna það. Já, og hann hafði höndina þarna í dálítinn tíma og svo man ég ekki meira. Kannski leiddumst við eða eitthvað. Æi, það var svo langt síðan. Það var í apríl held ég. Á þessu ári. Eftir myndina þá man ég að við leiddumst ekki. Það fannst mér frekar leiðinlegt. Við fórum að bílnum og ég dauðskammaðist mín því þetta er svo hræðilegur bíll. Ég horfði á annað fólk vera að fara að sportbílunum sínum og ég bara skammaðist mín en maður má ekki hugsa svona. Það er ljótt! Ég fór inn í bílinn. Það var frost og hann þurfti að skafa smá af bílnum og ég horfði á hann. Mér fannst hann svo sætur. Svo settist hann inn í bílinn og keyrði af stað heim til mín. Þegar við vorum fyrir utan hjá mér á bílastæðinu og komið var að því að kveðja hann þá var ekki um neitt annað að ræða enn koss. Ég hafði verið að hugsa um kossinn alla leiðina frá bíóinu og heim. Ég varð að þora því og ég þorði því líka. Hann var ekki að þora en ég færði mig nær honum og þetta átti bara að vera lítill saklaus koss en varð í staðinn koss sem ætlaði engan endi að taka. Ég fann yndislegan straum um allann líkamann og ég hefði getað kysst hann endalaust. Ég varð aldrei þreytt. Ég bara kyssti og kyssti og vildi kyssa meira og meira. Þetta var lengsti og yndislegasti koss sem ég man eftir og ég var svo hrifin af honum og það var svo mikið sem ég vildi gefa honum en ég neyddist til að hætta því að klukkan var orðin svo margt. Þegar ég sleit kossinum og horfði á hann þá var hann eldrauður. Hann var í alvöru eldrauður í framan. Ég hafði aldrei áður séð neitt rauðara og ég sagði bless og við ætluðum að vera í bandi. En svo urðum við ekkert í bandi og ég lenti í mikilli ástarsorg en það er önnur saga.