Mig langaði til að sjóða saman smá Beat-tilraun. Þetta er afraksturinn. Segið mér hvað ykkur finnst.

Nafnlaust

Núna þegar ég sest niður og hef ætlað mér að tíunda það sem gerðist, svífa alls kyns spurningar á mig. Mig óar við að hugsa til þess hvernig megi á hlaupum setja saman frásögn sem gæti leitt ókunnugum fyrir sjónir hvað gerðist þetta kvöld. Ætli fari nú ekki samt fyrir þessum skrifum mínum sem öðrum, að þau verði logunum að bráð og svífi upp í himingeimana og gleymist þar öllum, sér í lagi þeim er ritaði. Skyldu þessi blöð mín komast í hendur aðrar en mínar, bið ég þann að sýna umburðarlyndi og umgangast blöðin af varkárni, - það er mín einasta ósk.
Vandinn að vinsa úr og festa á blað jafn fáranlega atburði og í þessu tilfelli, segja þá eins og þeir gerðust, eða öllu heldur eins og ég tel að þeir hafi gerst, er margvíslegur. Fyrsta vandamálið sem ég stend frammi fyrir er: Hvar skal byrja?
Hvernig get ég leitt öðrum fyrir sjónir á skilmerkilegan hátt upphaf og endi án þess að gera lítið úr aðalatriðum, atburðina eins og þeir komu mér fyrir sjónir, - sem sennilega má rekja til augnabliksbilunnar í lögmáli lífsins eða rifu á raunveruleikanum, hömlulaust frá einni stundu til annarrar? Er hægt að klæða slíka atburði skrúði orða og vefja um þá taugar algilds og jarðbundins veruleika?
Ég mun í það minnsta reyna.

Dag einn, ekki all fyrir löngu, þegar sól skein enn meirihluta sólarhrings, hélt ég afmælisveislu. Ég bauð öllum mínum vinum og kunningjum til að allt yrði sem veglegast. Allir skemmtu sér vel og er líða tók á seinni helming flasknanna rankaði ég við mér inn í herbergi, af ástæðum mér ókunnum, um miðja nótt og þar með hefst frásögnin.

Á gluggasyllu stendur einmana kaktus. Vís og voldugur, með útsýni yfir sléttuna sem þetta herbergi er. Út á miðri sléttunni ligg ég á marglitu teppi. Ligg á gólfinu, umvafinn svo þykku myrkri að það er næstum áþreifanlegt.
Allt í einu sprettur rafmagnssól á fætur og skín beint fyrir ofan mig. Ég stend upp og geng fram.

Þegar ég kem fram tek ég eftir því að hjörð mín hefur dreift úr sér um beitarhagann. Litlir svartir deplar á risasórum hvítum fleti. Ég á að heita fjárhirðir þessara orða en einhvern veginn á ég erfitt með að sjá fyrir mér heildarskipulag og draga í dilka eftir því.
En hvað er orðið af mér?

(Djöfullinn hafi það, er ég horfinn sjálfum mér?)

Þarna í iðagrænni náttúrunni, hérna inni, er ég týndur. Húsbóndinn, meistari völundarhússins, fjárhirðirinn og konungurinn, ekki með sjálfum sér heldur fór út með sjálfið sitt og hvarf.
Nei, ég held að ég sé hér enn. Svona að mestu leyti, hérna einhver staðar á reiki en þó ekki týndur….góður öllu heldur….!

Ég held til leitar.

Austarlega í haganum er nakið tré. Í því hangir Virgilnár, vinur minn. Ég sleiki fingur og risti litla rún á þvalt enni. Rís hann þá upp og mælir:
,,Fífl! Lífið er eins og skáldsaga sem enginn nennir að lesa og enginn veit hvernig endar. Þú ert og verður hluti af fortíð sem þú þarft að þekkja. Annars veistu ekki sjálfur hvernig þú átt að enda.”
Með því sama dó hann aftur.

Ég hristi höfuðið og furða mig á þvættingnum. Bull og vitleysa.

Eða er þetta kannski ekkert rugl? Getur verið að ég, skáldsagan, einstaklingurinn og höfundurinn, ætti mér enga sögu ef ekki væri fyrir fortíðina? Hvað ef Hómer og Plató hefðu aldrei verið til? Væri ég hér ef Njála hefði ekki verið skrifuð? Já, eða Egla? Hvað með Shakespeare og Biblíuna, Ljóðaljóðin og dæmisögur Esóps? Ég er kannski bara afsprengi nýrra tíma, nýrra samfélagsmynda og nýrra hugmynda um heiminn. Spegill þess sem er í kringum mig… spéspegill kannski. Hvað skildi Cervantes hafa hugsað þegar hann skapaði Don Kíkóta? Eða Poe, Dickens og Dostojevski?

Ég horfi í kringum mig og hvað sé ég. Það er engin svör að finna hér og nú. Í gegnum tíðina hef ég þurft að skipta út hetjum mínum fyrir drauga, orð sem ekki hefur verið hægt að taka tilbaka. Allt sem áður var ritað orðið að ösku sem fauk með nýjum straumum og stefnum. Útlínur mínar daufar og rofna jafnvel og mér hefur aldrei tekist að skilgreina sjálfan mig. Hver er ég eða þú, ef að því er að skipta? Ef við mætumst á götu, hvor er ég og hvor ert þú?

En samt held ég áfram.

Frá trénu fór ég til norðurs og kom að þar sem hirðfífl sat á bekk með kórónu. Var hann orðinn ég og ég hann, eða var hann bara húsbóndinn en ekki ég? Hvers skemmtan var þetta? Mín eða hans?
,, Hæ, hefurðu séð mig einhver staðar?” spurði ég.
,, Hei,hei og hó, hver á svona ljóta skó?”
,, Haltu kjafti! Hefurðu séð mig einhver staðar?
,,Hó, hó og hí, en svaraðu fyrst því…hver var það sem fór út með sjálfum sér en ekki mér, til að losa sig við hjarta, lifur, lungu og kolsvarta tungu, lítið það bætti hans líðan, hann hefur ekkert sést síðan!?”
,,Djöfuls rugl!”
,,Ha,hí og ha, þú getur ekki svarað mér,það munu allir hlæja að þér!”
,,Allt í lagi….en ef þú sérð mig ertu til í að láta mig vita að ég er að leita að mér?”
,,(Hálfviti)"
,,Ha,ha, hí og trallalí, ég skal segja þér frá því.”
,,Takk.”

Tungumál er eitthvað sem allir verða að virða af því að það er tæki sem þeir nota til að koma upplýsingum á framfæri. En af því að hugmyndin um sannleikann er kúgunartæki og reyndar tungumálið einnig, hvernig getur texti þá frelsað lesanda sinn ef sagður er sannleikurinn? Og hvernig getur texti komið til skila í gegnum tungumálið, sem inniheldur mjög strangar málfræði- og setningarfræðireglur, jafnmikinn glundroða og ríkti þetta kvöld? Á að stafsetja vitlaust? Á að segja frá því með orðum? Hvernig getur lesandi fundið fyrir óreiðunni en samt hefur honum ekki verið sagt frá henni? Hvernig er hægt að koma fyrir stemningu í texta? Hvar er frelsið í textanum? Hvar er frelsið? Hvar er ÉG, fjandinn hafi það!?!

Áfram á ný.

Ég, enn hálfruglaður eftir samskiptin við (hirð)fíflið, ákvað að halda upp á við , í leit að fjárhirðinum, sjálfum mér. Í leit að fjárhirðinum í sjálfum mér.

Endalaus brún og græn hásléttan tók á móti mér og þar rakst ég á nokkur lítil lömb. Ég faðmaði þau. Útsýnið ofan af heiðinni yfir stjörnumprýdda borgina var magnað. Ljómandi fjarlægðin…eins og draumur, fyrir löngu gleymdur en bíður í felum í einhverju myrku bakherbergi minnis míns. Eins og litir sem renna saman og mynda einskonar skugga af dimmum degi. Í þeim skugga væri draumur þessi geymdur. Draumur sem rennur saman við minningar og ekki er lengur hægt að greina þar á milli. Hvort man ég eða dreymir mig? Hverjum er ekki sama, þetta er allt sama helvítis martröðin!

Svo þurfti ég að pissa og fór á klósettið.

Eins og óviti laugaðist lamb eitt í hvítu baðkarinu. Allt atferli þess svo átakanlegt að ég leit undan jarðneskum sjónum mínum en komst þó ekki hjá því að sjá myndina margfaldast spegil úr spegli. Undrun og Hræðsla störðu á mig, hvor úr sínu auga og hönd var lögð yfir lítil en stinn brjóst.
Að mér lagðist ljóðrænn þungi og löngun til að tjá mig. (Öllu heldur gredda!)

Hér gríp ég aftur inn í. Enn eitt vandamál sem ég stend frammi fyrir, á að lýsa öllu því sem fyrir augu ber? Hvernig get ég gert það? Hvernig er góð lýsing? Er öllu lýst út í hörgul eða á bara að nostra við smáatriði? Segja frá því allra minnsta eða því allra stærsta? Á hverju á að byrja? Hvernig er hægt að velja eitt atriði umfram annað? Hvað ber að segja og hvað á að skilja eftir? Hvenær á úrdráttur við og hvenær eiga ýkjur við?

Áður en ég held áfram með söguna tel ég mig knúinn til að skilgreina spegilmyndir. Ástæðan er ekki merkilegri en sú að mig langar til þess.
Spegilmynd – einstakt listaverk, einskonar lifandi málverk sem hreyfir sig í annarri vídd, meistaraverk gert af dirfsku og þrjósku, jafnframt við sjálf en þó ekki, allt í öfugum hlutföllum og það gerir spegilmynd hættulega, aðdráttarafl fjarlægrar víddar sem heltekur hugsun okkar og sjálf, óreiðukennd tilvera okkar innrömmuð, eins og skáldsaga.

Ég stóð þarna, ríghélt í mér og horfði í spegilinn.

Hvar var ég niðurkominn?
Neðan úr hyldýpi veggspeglanna ásótti mig ný hugsun, ný hugleiðing og ný hrelling. Svo ný að ég gleymdi lambinu,- hvað var orðið af sjálfum mér, djöfuls líkaminn gufaður upp?
Á svipstundu fylltust speglasalirnir af fólki og líkamshlutum. Höfuð, hendur og kynfæri á kafi í speglinum, en á mér bólaði hvergi. Var ég gufaður upp? Sjálfur týndur og horfinn sjálfum mér? Gat verið að ég væri þarna hvergi nærri heldur stæði enn niðri í beitarhaganum að líta til hjarðarinnar? Hvar í andskotanum var ég?

…Nema?(Hvernig geta svona innskot átt sér stað?)

Að unglingurinn í kroppaskóginum, dökkhærður, ber að ofan í gallabuxum, með bjórdós í hendi….hver var það? Átti það að vera ég?
,,Hvor ertu: Horatio eða Claudius?spurði ég unglinginn.

Enn og aftur stoppa ég frásögnina. Hvernig er hægt að vita hvort spurningar sem þessar, spurningar sem vísa til annarra rita skiljist? Þarf ég að þýða, svo ekki sé notað betra orð, spurninguna? Þetta er vandamál sem oft er erfitt að leysa. Hvað vita lesendur?Hvað veit ég?

Enn af stað.

Reikull í spori og huga nálgaðist ég næsta spegilflöt – skildi fyrst er ég og drengurinn rákum saman enni.
Höfuðverkurinn sem fylgdi fékk mig til að hugsa. Spegilmynd mín endurkastaðist langt inn í mig og ég starði á sjálfan mig innan frá. Með lokuð augu þurfti ég ekki að sjá. Bara myrkur,-niðdimmt myrkur og ég.

Er ég ekki að sökkva, hægt og bítandi inn í einhvers konar eftirtíð? Hvorki nútíð né framtíð en samt svo beggja blands að ekki er hægt að gleyma hvoru tveggja. Hvar er ég í dag?

Ég vildi óska þess að þú værir staddur í mínum sporum, týnd sál í alltof stóru hafi. Án skilgreiningar, án hugmyndar um það hver þú ert.

Það er eins og að ég standi úti á stoppistöð, með skiptimiða í annarri hendi og hef ekki hugmynd um það hvaða vagn stoppar hér eða hvenær hann kemur. Hvert vagninn fer eða hvar hann stoppar.
Ég vona bara að það rigni ekki.
Ég hata rigningu.