Örlög örlaganna

Helmut stóð berfættur í grasinu og hlustaði á flugu suða í eyranu á sér. Það heyrir enginn annar í smádýrinu. Þegar honum datt í hug að ganga smáspöl var flugunni ekki lengur til setunnar boðið og sveif burt. Helmut var í raun skítsama og lagði sig varlega á jörðina.
„Hvar eru öll skýin? Himininn er svo asnalegur og berbrjósta án hvítu klettana sinna. Hvað er ég að gera hérna? Skiptir ekki máli, hvað er svosem betra þarna.”
Nú var Helmut kominn í stuð og byrjaður að nudda naflann sinn með bendifingri vinstri handar. Kemur þá ekki gleðispillirinn, tjaldsvæðisvörðurinn, og spyr hann hversvegna í andskotanum hann sé ekki í neinum fötum.
„Ég hef verið rændur! Þú ættir að sinna skyldu þinni og hringja í löggumann.”
Vörðurinn sem var óvanur og ekki reynsluríkur í þesslegu drasli varð hvumsa og hljóp að næsta síma án þess að slaka á kjálkanum. Á meðan gekk Helmut af vettvangi, rólegur og með bros á kinn. Hann ákvað að rölta milli tjalda og sjá hvort eitthvað áhugavert væri á könnunum. Það fyrsta sem skar hann í augun var agnarsmátt tjald. Þessi er bróðir minn, hann er í félagi við sjálfan sig, hugsaði hann með sér, hugsandi. Þegar að svefnstæðinu var komið sá hann miðaldra mann, hann var í alltof stórum fötum og með alla vasa fulla af 3ja mínútna bollasúpubréfum.
„Það er blessuð blíðan”. Svona var Helmut vanur að mölva ísinn
„Ha?”
„Góða veðrið!”
„Ha?”
Í þessu rann það ljós fyrir Helmuti að hann fengi engu tjónkað við karlpunginn. Hann var augljóslega blindur og á góðri leið með að verða heyrnalaus. Helmut vorkenndi honum og vildi gera eitthvað fyrir hann. En hvað? Hann ákvað að setjast bara við hlið mannsins uns hann fyndi uppá einhverju. En í stað þess að brjóta heilann í bleytu fór Helmut að virða manninn fyrir sér.
„Undarlegt kvikindi, skepna öllu heldur. Hvað ætli hann sé að tauta fyrir munni sér? Hann hefur ekki hætt síðan ég settist. Af lyktinni að dæma hefur hann ekki enn heyrt orðið „bað” eða „sápa”. Lýsingarorðin hans myndu vera eitthvað á þessa leið: sterklegur, gráhærður, lítill, hugsandi, andfélagslegur.”
Maðurinn rauk upp alltíeinu og truflaði hugsanir Helmuts. Hann stökk inní tjald og lokaði. Svo heyrðist hann bjóða góða nótt stuttu seinna. Helmut var ekki viss hvort þetta hafi verið honum ætlað eður engum.
„Það skiptir engu, ég fer bara líka að sofa” sagði hann lágt við sjálfan sig og sofnaði fyrir utan tjaldið. Algjört fataleysi.

„Da!”
Nú var Helmut eyrljóslega vaknaður af værum nætursvefni. Eitt mjög furðulegt sem hefur hrjáð hann frá því hann man eftir sér er að hann man ekki neitt um eitt né neitt fyrsta hálftíman eftir að hann vaknar. Í hvert sinn sem hann man eftir sjálfum sér og umhverfi sínu hvern morgun og hvernig hann álpaðist þangað kom þetta einkennilega hljóð úr honum nokkrum sinnum.
„Da!”
Helmut var kominn til vitundar eftir meðvitundarleysislegan svefninn. Hann horfði í allar áttir og virti allt fyrir sér. Athugull. Rannsóknin hófst á því að Helmut þreifaði á öllum líkama sínum til að vera viss um allt væri sem var.
„Mmm… allt er hér, en því er hárið á mér svona blautt? Hlýtur að vera rigning úti. En þá væri líkaminn einnig votur og mér væri ekki svona heitt á höfðinu.”
Þá sá Helmut hvernig var í bollann búið. Gamli maður var að renna upp buxnaklaufinni fyrir aftan hann. Helmut stóð upp í snarheitum og þakkaði manninum fyrir að hlýja sér en spurði svo hvort hann hefði ekki getað gert það á einhvern annann hátt. Þá loks losnar um málbein mannsins:
„Það þykir mér augljóst að hægt sé að koma atómum á hreyfingu með öðrum hætti en að skvetta á þau úr húðsokknum. En þessi aðferð lá svo vel fyrir mér þessa stundina, en um staðinn efast ég. Vergilías heiti ég annars en er oftast kallaður Þrándur, því ég er oft þrándur í götum mannanna. Ég hef verið friðlýstur af félagi fuglaskoðara á Íslandi og skaltu því ekki við mig eiga. Ég er hættur að ganga í skóm og því mun ég eigi kvarta ef þú traðkar á mér, sá sem gerir úr sjálfum sér orm skal ekki kveina há- né lágstöfum er troðið er á honum. En nú skammast ég mín, þú ert ekki í neinum fötum. Hefur þú rétt á því að kvarta í einhverju tilfelli? Varðstu viðskila við rétt þinn til að hugsa sjálfstætt? Hvar og hverjar eru þínar ær og kýr? Fjandans ólukka nú sé ég þig ekki fyrir spurningamerkjum.”
Þegar hér var komið voru augun í Helmuti orðin á stærð við melónur. Hann var hættur að heyra í Þrándi vegna óhljóðanna inní hausnum á sér. Sprungin öryggi, brotnar skrúfur og dauði. En maðurinn hélt áfram að láta ganga, tveimur klukkustundum síðar var hann kominn hingað:
„Ég hekla í hausnum á guði, örlaganornirnar skaffa þræði. Verki mínu er ólokið og ástæðurnar eru ókunnar, tímaskortur. Nei skortur á þræði, já þræði. Efnið kláraðist þegar einhver hálviti sagði: amor fati. Nú elska allir örlög sín. Ekki þýðir að gráta Magnús. Magnús. Ég er þreyttur. Ég ber allar skólatöskur heims á baki mér og nú eru þær fullar af tölvum. Ég á mér ekki von, vonleysið er vonlaust, vonandi. Ég vona að ég eignist einhverntíman von að nýju.”
Í sömu andrá og þessi orð féllu af vörum örlagavaldsins féll heimurinn inní sjálfan sig og sprakk, allir dóu, en guð lifir og skemmtir skrattanum.