Ládauður fjörður. Og fjöll speglast á haffletinum, undrandi yfir hvíta kollinum sem þau fengu í nótt. Í nótt frysti en þó ekki svo, því lækir skoppa léttlyndir niður hlíðarnar. Á himni er hvergi ský að sjá og ekkert getur rofið þá kyrrð sem ríkir. Alger þögn,- allt að því himnesk ró.
Og þarna fyrir botni fjarðarins sefur lítið þorp. Smávaxin hús virðast hjúfra sig hvort að öðru, til að halda á sér hita í frostinu. Yfir þorpinu vakir kirkjuturn og síldarbræðslustrompur. Hvítur reykur liðast letilega beint upp í loftið og peningalykt leggst yfir bæinn. Letilega rís sólin upp yfir sjóndeildarhringinn.
Ég átti heima í einu af þessum litlu húsum. Víðimýri 12, Neskaupstaður við Norðfjörð. Við mamma… bara ég og mamma. Mamma var með stór brún augu og svart hár og amma sagði að hún væri fallegasta konan í bænum. Yfir henni var alltaf kyrrð og ró og það smitaði út frá sér á heimilið. Það var lykt af jarðarberjatei og reykkelsi inni. Í garðinum blómstruðu rauðar og bleikar rósir á sumrin. Hún klippti þær og hengdi upp á vegg inn í stofu.
Á vetrarkvöldum vorum við vanar að sitja inn í stofu og hlusta á Leonard Cohen syngja ,,Suzanne” og ,,So long, Marianne”. Ég var Suzanne og mamma Marianne. Hún sagði alltaf að hann minnti hana á hvernig það var að vera ung. Stundum las hún ljóð eftir Stein Steinarr, Jóhann Sigurjónsson og Rimbaud. Ef það var kalt og vont veður þá kúrðum við undir teppi og sögðum draugasögur.
Á náttborðinu hennar var mynd af pabba. Pabbi var héðan af Norðfirði en hann fór í sjóinn áður en ég náði að kynnast honum. Alla sunnudaga fórum við upp í kirkjugarð og lögðum blóm að leiði hans. Stundum lögðum við kerti. Mamma bar sorg sína í hljóði en alltaf þegar talið barst að honum þurfti hún að þurrka eitt tár sem annars hefði lekið niður kinn hennar.
Heima var aldrei mikill gestagangur og ég held að mamma hafi verið svolítið einmana. Hún hafði nær engan til að tala við, nema kannski mig. Stundum heyrði ég hana tala við sjálfan sig eða við pabba þrátt fyrir að hann væri ekki þarna. Þegar ég var yngri og ekki enn farin að skilja, þótti mér þetta skrýtið.
Ég veit að við áttum erfitt en ég fann aldrei fyrir því. Mamma vann í frystihúsinu en launin hennar dugðu skammt. Mamma var samt alltaf glöð. En það kom fyrir að yfir andlit hennar kæmi skuggi og í augun vonleysi og hún spurði, meira sjálfan sig heldur en mig, hvers vegna við værum enn á Neskaupstað. Hvers vegna værum við ekki fyrir löngu farnar?
Ég held að ég hafi aldrei skilið hve erfitt þetta líf var henni. Hún hafði alist upp í suðurhluta Frakklands en hafði sagt skilið við allt til að koma og búa hér með pabba. Hérna var ekki vel tekið á móti henni þar sem það þótti ekki við hæfi að giftast útlendingum. Hún lærði því aldrei nógu vel að tala málið, þrátt fyrir að vera læs og skrifandi á íslensku, og aldrei eignaðist hún vinkonur hér. Stundum held ég að eina ástæðan fyrir því að hún var hér eftir að pabbi dó var til að vera nálægt leiði hans.
Það var loks að hjarta hennar brast og hún ákvað að halda á vit elskhuga síns. Ég var nýorðin tvítug. Ég var þá ein eftir og hef verið það síðan. Húsið lyktar enn af jarðarberja tei og reykkelsi. Leonard Cohen plötur hljóma af og til á dimmum vetrarkvöldum. Á sunnudögum fer ég í kirkjugarðinn og legg blóm og kerti á leiði þeirra.
Núna er það ég sem spyr mig hvers vegna ég sé ekki farin. Hvers vegna er ég hér? Ég gæti verið farin fyrir löngu suður en ég bara get ekki rifið mig lausa héðan. Ég er eins og fugl í búri. Ég þrái frelsið en get samt ekki lifað án búrsins.
Ég horfi á sjálfa mig speglast í firðinum. Með stór brún augu og tinnusvart hár. Suzanne. Einhvers staðar inn í mér rýfur már kyrrðina og ég finn hvernig það er kallað á mig úr djúpinu…og hjarta mitt brestur. Ég læt mig falla í djúpið og rennisléttur fjörðurinn gárast.

Í eitt augnablik er endalaus kyrrð í firðinum. Lækirnir hætta að renna og fjöllum standa þögul sem aldrei fyrr. Mávarnir synda rólegir og þögnin er alger. Fyrir botninum sefur þorpið enn. Húsið stendur autt, jarðarberjalyktin farin og reykkelsið slokknað. Í veggjunum hljóma lög Leonards Cohen um Suzanne og Marianne, lög sem enginn kannast við lengur…