Fiðrildi “Þarna er það aftur! Sjáðu bara!” - sagði ég og benti áköf á bláa fiðrildið sem flaug fyrir aftan hausinn á Tomma.
“Æji Kata, ég missi alltaf af því,” svaraði Tommi með þjósti.
“Nei, það er fyrir bakvið þig núna, líttu bara við.”
Hann leit við og sá það. Þetta dökkbláa fiðrildi sem flögraði þarna um ósköp sakleysislega í rökkrinu. Viðbrögðin í andliti hans voru ótrúleg. Augun lýstust upp og hann brosti með öllu andlitinu. Ég sá vel hvað honum fannst það fallegt. Enda var það virkilega fallegt, bláu litirnir í vængjunum voru endalausir og kristölluðust hver um annan eins og séð í gegnum demant.
“Kata, það er svo fallegt,” hvíslaði hann og horfði hugfanginn á það.
“Ég veit.” Ég færði mig ósköp rólega nær og nær, teygði fram háfinn og steypti honum loks yfir fiðrildið. Tommi tók fram krukkuna og ég setti fiðrildið ofan í. Hann horfði dolfallinn á það flögra um í stóru pastakrukkunni sem við höfðum stolið af mömmu minni. Við lögðumst niður í skógarbotninn og horfðum á fiðrildið svífa þarna eins og það hefði aldrei gert annað.
“Kata, heldurðu að fiðrildi hugsi um eitthvað?” spurði Tommi mig þar sem hann lá við hliðina á mér í öllum mosanum.
“Það hlýtur að vera. Annars væru þau ekki svona…” ég stoppaði aðeins þarna til að finna rétta orðið, “…frjálsleg.”
“Kannski. Ætli maður þurfi ekki líka að hugsa til að fljúga svona eins og maður eigi allan heiminn,” sagði hann lágt, fanginn af litabrigðunum sem léku sér í vængjum fiðrildisins ásamt tunglsljósinu.
“Verðum við að fara með það, Tommi? Má það ekki vera í skóginum?” sagði ég og vorkenndi allt í einu fiðrildinu svo óskaplega að mig verkjaði í hjartað.
“Nei, en við skulum vera hérna fram á morgun og bara horfa á það í tunglsskininu, sérðu hvað þetta er ótrúlegt Kata?”
“Já, það er eins og það sé ekkert til nema við, skógurinn og þetta eina fiðrildi,” sagði ég og leit beint í augun á honum.
“Já,” svaraði hann og kyssti mig.
Þarna var allt svo fullkomið. Ég vildi óska þess að þetta hefði aldrei endað. En það þurfti víst að koma að því. Þar sem við lágum þarna og töluðum saman, þá steinsofnuðum við undir stóra rauða teppinu sem Tommi hafði komið með svona til öryggis.
*
Við vöknuðum daginn eftir við það að sólin skein á okkur í gegnum trén. Við lágum í faðmlögum upp við risastórt tré í mosahrúgu með krukkuna við hliðina á okkur. Fiðrildið var ennþá þar, flögrandi um og nú sáum við grænu litbrigðin í vængjum þess, gott ef ekki leyndist smá rautt neðan á vængjunum.
“Eigum við að leyfa því að fara núna, Kata?” spurði Tommi mig og nuddaði stírurnar úr augunum.
“Ætli það ekki,” sagði ég og teygði úr mér. “Við ættum að sofa oftar í skóginum.”
“Já, ég svaf ótrúlega vel í nótt,” sagði Tommi og tók utan um mig. Ég teygði mig í krukkuna og tók lokið af. Fiðrildið virtist frelsinu fegið og flögraði með tilþrifum upp úr krukkunni. Nú sáum við loksins alla litina á því. Það var í öllum regnbogans litum. Gulur, rauður, grænn og blár. Allt þetta hvirflaðist saman og varð að einni litadýrð sem skein svo skært í sólarljósinu sem barst í gegnum trjágreinarnar. Þarna sátum við og horfðum á þetta fallega fiðrildi hverfa inn á milli trjánna. Þarna sátum við í dágóða stund enn.
“Eigum við að fara að koma heim?” spurði Tommi.
“Já, gerum það,” svaraði ég með semingi. Við stóðum upp og dustuðum mosann af hvort öðru og tíndum hann úr hárinu.
“Þú ert næstum með grænt hár, þú ert með svo mikinn mosa í því!” sagði ég hlæjandi.
“Segir þú! Þú sem varst í blárri peysu þegar við komum,” svaraði hann stríðinn.
“Þetta var yndisleg nótt,” dæsti ég og settist niður aftur.
“Já, hún var nokkuð mögnuð,” svaraði Tommi og settist við hliðina á mér.
“Við verðum að gera þetta aftur einhverntímann. Veiða fiðrildi um miðja nótt,” sagði ég og horfði á biðjandi á hann.
“Auðvitað! Þetta var svo ótrúlega gaman,” sagði Tommi og brosti sínu stóra brosi. Hann stóð upp og náði í háfinn minn, pastakrukkuna og vafði saman teppinu sem við höfðum sofið með. “Ertu að koma?”
“Já,” svaraði ég og tók háfinn svo ég gæti leitt hann. Við vorum komin upp á malarveginn sem lá fyrir utan skóginn og til bæjarins.
“Kata veistu hvað?” sagði hann glettinn.
“Hvað?” svaraði ég og bjóst við einhverjum brandara um fiðrildi.
“Ég elska þig.”
Á sama andartaki sá ég koma risastóran trukk fyrir aftan okkur. Ég vissi ekki meira.
Allir hlutir eru haldnir heimþrá til jarðarinnar og þess vegna falla þeir þangað þegar tækifæri gefst.