I.

Það er örlítil snjóföl fyrir utan. Snjórinn sest við gangstéttarkanta í skítuga skafla eftir að hafa dansað niður götuna í litlum hvirfilbyljum. Langleitir og gráir ljósastaurar varpa daufri birtu inn í þennan langa og kalda eftirmiðdag í janúar. Í ljósu múrsteinshúsi innst í götunni stend ég við fjórskiptan stofuglugga.
,, Jæja, Skuggi. Eigum við að fara út á leikvöll?”
Skuggi sem liggur á mjúku teppi og leikur sér, lítur upp. Hann horfir á mig stórum brúnum augum og eftirvænting leynir sér ekki. Þrátt fyrir veðrið vill hann ólmur fara út.
Skuggi stendur upp, brosir til mín og hleypur fram í forstofu.

II.

Marglitir sólargeislar læðast inn um kvistgluggann. Léttfættir stíga þeir inn á milli blárra gluggatjalda, endurkastast af spegli beint í augun á mér þar sem ég ligg upp í nýja, tvíbreiða rúminu mínu. Það er sunnudagur.
Neðan úr eldhúsi heyri ég í mömmu. Hún kallar á Skugga og biður hann um að fara upp að vekja mig. Hún vill að við förum saman út í garð að taka til eftir veturinn.
Skuggi hleypur af stað upp tréstigann. Ég reyni að fela mig undir þykku dúnsænginni minni en á erfitt með að halda niður í mér hlátrinum. Loks er hurðin rifin upp með látum og Skuggi kemur inn á fleygiferð. Hann stekkur upp í rúm til mín, tekur sængina af mér og hendir henni á gólfið. Stendur svo hlæjandi yfir mér með stríðnisglampa í augunum.

III.

Sumarblómin í görðunum keppast við að heilla til sín hunangsflugur, sem gert hafa sér bú í trjánum. Birki- og grenitrén bærast eilítið í heitri sumargolunni. Það er varla hægt að segja að það sé ský á himni og hitinn er óbærilegur. Ég geng inn götuna, ber að ofan og með vatnsflösku í hægri hönd. Bráðum er ég komin í sjónfæri við ljósa múrsteinshúsið.
Þegar ég sé loks húsið er ljóst að ég er einnig séður þaðan. Eins og alltaf bíður Skuggi eftir mér út í garði. Þegar hann tekur eftir mér þýtur hann að hvíta tréhliðinu á girðingunni, opnar það og hleypur eins hratt og fætur toga niður götuna. Svo stekkur hann beint í fangið á mér og bíður mig velkominn á sinn einstaka hátt. Svart hárið rennandi blautt, líklega eftir vatnsúðarann í garðinum.
Við göngum saman síðasta spölinn heim að húsinu og ég segi Skugga frá vinnudeginum. Hann fylgist með af athygli.


IV.

Blómin í görðunum drúpa höfði sínu minnug sælla daga sumarsins, sem nú er að líða inn í veturinn. Hunangsflugurnar hafa fyrir löngu hætt framleiðslu sinni og sagt skilið við búin í trjánum. Gul og rauð laufblöðin minna á fiðrildi sem flögruðu milli garða í sumar, þar sem þau fjúka til í hinstu andardráttum haustsins. Ég renni alveg upp í háls á svörtu úlpunni meðvitaður um þykka og gráa skýjabakka sem bylta sér fyrir ofan mig. Ég er viss um að það á eftir að rigna í dag. Bráðum kemst ég í sjónfæri við húsið.
Þegar ég sé loks húsið er ljóst að ég er einnig séður þaðan. Eins og svo oft áður þá leikur Skuggi sér út í garði og bíður eftir að ég komi heim úr skólanum. Svartur kollurinn á honum stingur óneitanlega í stúf við skæru haustlitina í garðinum. Þegar hann tekur eftir mér hleypur hann út í gegnum opið hliðið.
Þegar ég sé hvað verða vill er eins og heimurinn sé í hægri endursýningu í sjónvarpinu. Upp götuna keyrir blágrár fólksbíll. Ég hendi frá mér svarta bakpokanum og kalla nafnið hans en heyri samt ekki í sjálfum mér. Hjólbarðarnir undir bílnum öskra og væla undan álaginu en reyna samt af öllum lífs og sálarkröftum að ná fótfestu á nýlögðu malbikinu.
En allt kemur fyrir ekki.
Skuggi liggur hreyfingarlaus á götunni og blóð vætlar út um munninn á honum í rauðan poll. Hálsinn úr lið og hægri framlöppin mölbrotin.
Í sömu mund falla fyrstu regndroparnir.
Lengi heyrði ég bergmál þessara regndropa.


V.

Stundum þegar ég kem heim þá finnst mér að ég heyri í þér hlaupa niður götuna til að taka á móti mér. Þá finnst mér alveg eins og þú sért hjá mér.
Það kemur jafnvel fyrir að mér finnist ég sjá þig út undan mér. En þegar ég sný mér við þá tek ég eftir að þetta er bara skuggi.