Hún labbaði burt en hún hafði ekki hugmynd um hvert. Með tárin í augunum og rigninguna sem blönduðust við tárin sem láku niður kinnarnar. Bragðið varð þar af leiðandi ekki alveg jafn salt og það hefði verið ef hann hefði haldist þurr.

Með hverju skrefinu sem hún tók var hún að stroka út þá framtíð sem þau hefðu byggt í öll þessi ár, í raun framtíð sem var ekki til í raunvöruleikanum en var þó svo skýr í huganum. Eina skjólið sem hún átti.

Utanlandsferðir, barneignir, ferðalög, fleiri börn og meiri hamingja var það sem þau voru búin að hugsa sér og öll framtið og allt sem gert var, var gert í þeim tilgangi að það yrði þannig alltaf. Hvert einasta skref, hver einustu kaup og plön voru miðuð út frá framtíðinni, framtíðinni þeirra. Eða svo héldu þau.

Hún hafði komið heim og þar sat hann, fallegri sem aldrei fyrr. Hún leit i augu hans og sá einungis ást , en það var eitthvað meira. Glampin í þeim var svo bjartur en augun samt svo dauð. Hann stóð upp, tók utan um hana og sagði orðin sem drápu hana samstundis. “Ég er að fara”.
Tíminn getur læknað sár en hann getur einnig skorið djúpt og myndað enn stærri sár , jafnvel svo djúp að hann getur ekki grætt þau aftur.

Vonleysið var það eina sem hún sá en samt sá hún ekki neitt í allri rigningunni. Himnarnir svo sannarlega grétu með. Hann sagðist ætla burt en vissi ekki hvert, alveg eins og hún.

Hún ráfaði um göturnar og velti fyrir sér næsta skrefi, hvað hún ætlaði að gera en hún vissi það ekki. Hann var farinn án þess að gefa neina ástæðu og hún stóð ein eftir með framtíð þeirra á bakinu.

Hún gat ekki hugsað sér að fara heim þar sem allt þar inni var framtíðin.
Hún kom að stóru tré sem stóð svona stolt upp úr moldinni og teigði anga sína í allar áttir. Hún hugsaði sér að þetta væri hennar klettur í augnablikinu. Hún settist undir tréð, skipti engu máli þótt grasið væri blautt, hún var hvort sem er orðin blaut í gegn og það var hennar vitleysa að taka ekkert með sér til að hafa utan yfir sig.

Þarna gat hún ekki grátið lengur, hún var komin í marga hringi í huganum og því meira sem tímanum leið, því sannfærðari var hún um að hann kæmi ekki aftur.

Hún sofnaði loksins undir trénu þar sem hugsanirnar voru orðnar yfirþyrmandi og höfuðið orðið þungt. Hana langaði ekki til að sofna því hún vissi að þegar hún vaknaði aftur þá yrði hún ringluð, blaut og alveg eins ráðalaus og hún var. Myndi ekki skipta neinu hvort hún sofnaði eða ekki.

Hún hafði ekki sofið lengi þegar hún fann einhvern halda sér fastar en nokkru sinni fyrr. Það ringdi enn og myrkrið var næstum því alveg jafn svart og það var þegar hún sofnaði. Aðeins nokkrir ljósastaurar sem börðust við að lýsa það upp.

Hann sat með hana í fanginu, og lét ekkann kafna við háls hennar.

“Fyrirgefðu mér, fyrirgefðu mér, fyrirgefðu mér. Ég elska þig, ég var bara svo anskoti vitlaus að gleyma því um stund”.