Hrólfur gengur rösklega. Sunnu systur er farið að blæða, og litar skýin fallega bleik og fjólublá. Um að gera að komast í hús áður en hún deyr, enginn tími er til þess að dást að snjó í fjöllum, sléttum sjó eða lituðum skýjum. Ef hann kemst ekki í hús, þá verður þessi nótt bæði löng og köld, og jafnvel vafaatriði hvort að hann muni lifa nóttina.
Það er ekki algengt að menn séu mikið að ferðast á þessum slóðum, á þessum árstíma. Það er að vísu ekki hávetur, en dagurinn styttist og styttist, aðeins tvær vikur til jóla. Hann er klæddur eftir veðri, í þykkan ullarmöttul, með trefil og húfu og vettlinga. Eins og förumanna er siður gengur hann við mannhæðarháan staf, bæði til stuðnings og varnar. Ekki svo að skilja að hann hafi mikið að óttast frá stigamönnum, þar sem þeir ráðast helst á ríkmannlegri ferðamenn, og ef úlfastóð ræðst á hann hefur hann litla von um að sleppa heill, jafnvel á lífi, frá slíku stefnumóti. En það er eitthvað svo traustvekjandi við að hafa sinn eigin staf. Svo er líka hægt að festa pokann sinn við hann – ekki svo að skilja að hann eigi mikið til að setja í hann, bara litla pípu, ekki einusinni neitt til að setja í hana, og leirflösku sem er næstum því tóm. Í sérstakri tösku geymir hann svo sinn mesta dýrgrip, hörpu sem pabbi hans gaf honum, og kenndi á, þegar hann var sjö ára gamall. Oftar en ekki hefur hann getað borgað fyrir mat og gistingu með kvæðaflutningi. Hann er bærilega góður, og kann ágætlega mikið af kvæðum, hann skortir bara reynslu til að semja sín eigin.
Hann gerir lítið annað en að ganga upp og niður hæðir. Það er alltaf dálítið ánægjulegt að komast upp hæð og fá yfirsýn yfir landið framundan, þótt stundum geti verið dálítið púl að komast upp. En uppi á þessari hæð sér Hrólfur það fallegasta sem að hann hefur séð í allan dag: Lítið þorp við árbakka. Skíðgarður umkringir það og nokkur fjöldi reykjarstróka stendur upp úr húsunum. Þetta er nú ekki neitt sérlega stórt þorp, en einhvers staðar hlýtur hann að geta fengið gistingu og matarbita. Hann hraðar för sinni eins og hann getur. Hann verkjar í fæturna eftir að hafa gengið allan daginn, hann er svangur og þreyttur. Því fyrr sem að hann kemst til bæjarins, því betra.
Næstum því algert myrkur er skollið á þegar hann loksins kemst að hliðinu, það er eiginlega meiri birta af næstum því algleyptum mánanum en sólarröndinni sem er ennþá sjáanleg. Við hliðið eru samt tveir verðir sem standa þétt saman við lítinn varðeld. Annar heldur á lítilli flösku – fljótandi hiti – og hinn reykir pípu. Þeir hafa spjót, báðir tveir, en sjá enga ástæðu til þess að ná í þau þegar þeir sjá Hrólf. Hverslags hættu stafar af einum flakkara?
„Hver ferðast á þessum árstíma?“ spyr sá með pípuna þegar Hrólfur er kominn nógu nálægt.
„Ég heiti Hrólfur, frá Ímansturnasveit, á leið suður.“
„Velkominn til Brjánsvirkis, Hrólfur. Það er ekkert gistihús hérna, en ég efast ekki um að þér getið fengið gistingu fengið gistingu á kránni okkar. Það er húsið þarna,“ segir hinn vörðurinn og bendir á eitt húsið.
„Þakka yður fyrir,“ segir Hrólfur er gengur eins hratt og hann getur, án þess að hlaupa, að húsinu. Matur! Eitthvað heitt og eitthvað áfengt til að hrekja kuldann úr beinunum, og mat til að kveðja sultinn. Hann gáir í pyngju sína, eitt og hálft mark. Hvað ætli fáist fyrir það? Jæja, hann getur ef til vill sungið og spilað, ef það eru nægilega margir gestir þar. Og annars … það er alltaf hægt að finna leiðir.
All we need is just a little patience.