Hlý sumargolan lék um andlit Ásmundar er hann steig út í litríkan garðinn sinn. Hann gekk ævinlega um baðfættur í garðinum til að geta fundið mjúkt grasið kitla sig í róandi suð flugnanna og íðilfagran söng fuglanna. Hann byrjaði alla morgna á því að breiða út faðminn og segja: ,,Góðan daginn elsku garðurinn minn!” Svo dró hann faðminn saman þar til hann að lokum faðmaði sjálfan sig með bros á vör.
Dag einn tók eftir því að í skuggahorni garðsins óx rós. Rós þessi var visin og tætt, eiginlega var það réttasta í stöðunni að slíta hana upp og henda henni í safnhauginn. ,,Það dafnar ekkert blóm í skugga.” Hugsaði hann er hann tók sig til að slíta hana. En eitthvað fékk hann til að hætta við. Er hann kom nær henni virtist sem dauf birta stafaði af rósinni sjálfri. Fyrst birtu stafaði af rósinni sjálfri, þá gæti verið að henni væri við bjargandi.
Dag eftir dag reytti hann illgresið sem sótti fast að rósinni. Og dag eftir dag strauk hann stilka rósarinnar og varlega yfir blómknúpinn sem var að myndast. Öðru hvoru stungust hvassir þyrnar rósarinnar djúpt í fingur hans. En eljan varð sársaukanum yfirsterkari, hann sleikti sárin og hélt ótrauður áfram.
Dagarnir liðu og rósin óx, hratt og örugglega í þessum skuggareit. Birtan sem bjó innra með rósinni jókst og brátt varð rósin að fegursta blóminu í garðinum. Skugginn hvarf úr horninu er hálfútsprungin rósin lýsti reitinn upp með fegurð sinni og birtu.
Út spurðist um þessa undrarós Ásmundar og fólk kom hvaðavæna að til þess eins að berja rósina augum. Rósina sem alltaf var hálfútsprungin og með stakri fegurð sinni kallaði fram bros allra, jafnvel fólks sem ekki hafði brosað svo árum skipti.
Dag einn gekk Ásmundur baðfættur að vana út í garðinn, breiddi út faðminn og sagði: ,,Góðan daginn, rósin mín fagra!” Hann dró að sér faðminn en bros hans var horfið.
Sér til mikils hryllings uppgötvaði hann að rósin hafði átt hug hans allan og garðurinn hans var allur í órækt. Fyrir utan þennan eina reit sem rósin brosti á. Suðið í flugunum og söngur fuglanna var orðið að þrúgandi þögn. Þurrt og hátt grasið stakkst í iljar hans.
Í örvæntingu hóf hann að reyna að bjarga garði sínum. Hann reytti arfa, sló grasið og nostraði eins og hann gat við fyrrum litfagran skrúðgarð sinn.
En á meðan tók rósin að visna og deyja, blöð hennar gulnuðu og hálfútsprunginn knúpurinn dökknaði og dó. Birtan sem búið hafði innra með rósinni dvínaði.
Að nokkrum dögum liðnum gekk Ásmundur út baðfættur að vanda, breiddi út faðminn og sagði: ,, Góðan daginn elsku garðurinn minn.” Hann kreisti fram bros og lauk faðmlaginu. Svo gekk hann rakleitt að rósinni og sleit hana upp.

Nú rósin er upp slitin,
Ræturnar gráta og deyja,
ef garðurinn á að dafna,
verða þær að hverfa (?)