Bærinn er heillandi í myrkrinu. Það eru engir bílar á ferð og næstum heldur enginn gangandi. Það er líka kalt úti. Fyrsta frost vetrarins. Ég hef alltaf verið hrifnari af nóttunni en deginum og af vetrinum en sumrinu (af því að þá eru næturnar lengi). Maður getur nefnilega gert hvað sem er þegar enginn sér mann.

Ég trúi því varla að það hafi bara verið fyrir tveimur mánuðum sem ég sagði pabba að ég væri ólétt. Hann varð alveg brjálaður. Ég er líka bara 15 ára. Allt líf mitt er ónýtt af því að hann er svo þrjóskur og leyfir mér ekki að eyða því. Að eyða því bara og gleyma að það hafi nokkurn tímann verið til.

Ég geng um göturnar eins og að ég sé villt. Kannski er það af því að ég er algjörlega villt. Ég er með heimilisfangið á miðanum í hendinni en ég finn ekki götuna. Ég er stödd í miðbænum hjá íbúðarblokkum sem ég hef aldrei áður séð. Fyrir framan útidyrahurðinni að húsi númer 12 stendur hálfdrukkinn bjór. Ég veit ekki af hverju en mér finnst það merkilegt þannig að ég stoppa í smástund og virði fyrir mér umhverfið þar til dyrnar opnast að húsinu og maður rúllar út á götuna. Hann tekur bjórflöskuna og stútar henni þannig að ég skokka hljóðlega burt.

Ég gríp um brjóstið á mér og finn hjartsláttinn. Mér til mikillar furðu er hann rólegur. Ég gríp svo um magann. Ég er bara komin með svolitla bumbu. Allt í einu átta ég mig á því að ég stend við götuna. Götuna sem ég var að leita að. Skiltið er beint fyrir framan mig en samt hafði ég ekki séð það. Þá fyrst verður mér kalt. Mest í eyrunum… og á höndunum. Ég geng niður götuna og passa að hafa alltaf augun á gangstéttina fyrir framan mig. Ég þori nefnilega ekki að líta upp. Ég er á vitlausum enda götunnar og þarf að labba alla leiðina í hinn endann að húsi 2.

Ég fer að hugsa um framtíðina. Fer framhjá húsi 38. Hvaða möguleika hef ég. Framhjá húsi 32. Með eða án barnsins. Hús 30. Hugsanirnar fljúga á leifturhraða um hugann á mér. Ég er ekki viss. Hús 18. Ég verð að taka ákvörðun. Þeir bíða eftir mér, ég er þegar orðin of sein. Og þá er ég komin. Ég stend fyrir utan hús númer 2 og dyrnar opnast áður en ég næ að banka. Ég geng inn, tek ákvörðunina á þeirri stundu, án þess að hugsa.

Þeir eru bara tveir. Mér finnst það betra, að hafa þá sem fæsta. Þeir segja ekki mikið heldur bara nóg til að vera viss um að ég sé kúnninn og svo biðja þeir um peningana. Ég róta í veskinu og í smástund finnst mér eins og að ég hafi gleymt peningunum en svo finn ég þá. Ég rétti minni gaurnum þá og hann yfirgefur herbergið, fer lengra inn í húsið. Sá stærri kemur með sprautu. Hann útskýrir fyrir mér að hún sé bara svo að ég finni ekki til. Ég treysti honum ekki en leyfi honum að sprauta mig. Sprautan er óþægileg en ég finn strax fyrir skrýtnum dofa. Ég finn ekki fyrir neinu og það er eins og öll hin skilningarvitin magnist við það. Er ég að gera mistök? Ég næ ekki að svara sjálfri mér því ég dett á gólfið. Ég get ekki hreyft mig en hann tekur mig upp og leggur mig á borðið. Já. Já, er svarið. Ég er að gera mistök en ég get ekkert í því gert núna. Ég get ekki opnað munninn. Eða annars er hann örugglega opinn en bara alveg dofinn. Ég sé samt ennþá. Ég sé hann ná í aðra sprautu og stinga henni í mig líka. Ég finn fyrir því, þó að ég sé alveg dofin, þegar vökvinn rennur inn í mig. Vökvinn sem mun drepa barnið mitt.