Ömurlegur titill, ég veit það, en sagan kemur sólblómum ekkert við. Ég heyrði hana frá konu sem vinnur á Sólblóminu sem er svona frístundarheimili fyrir krakka. Ég mundi ekki nákvæmlega hvernig hún var enda heyrði ég hana fyrir 10 árum þannig að ég skáldaði í eyðurnar…

Við lágum öll í sama rúminu. Eftir að pabbi missti vinnuna og við þurftum að selja húsið höfðu við búið í þessari litlu tveggja svefnherbergja íbúð. Mamma var löngu sofnuð inni hjá sér en ég lá andvaka við hlið Siggu og Telmu, systra minna. Pabbi var ekki ennþá kominn heim. Ég var alltaf hræddur við að fara að sofa núna eftir að við fluttum. Við fluttum nefnilega í slæma hluta borgarinnar og lásinn á útidyrahurðinni var brotinn. Í hvert sinn sem ég lokaði augunum sá ég fyrir mér allt það hræðilega sem gæti gerst í myrkrinu og varð að opna þau aftur.
Allt í einu heyrði ég bílhurð lokast með skelli. Ég stökk upp og leit út um gluggann í von um að sjá pabba. Úti var rigning og dimmt þannig að ég sá næstum ekkert. Samt sá ég skuggalegan mann í regnfrakka sparka upp hurðinni að íbúðarblokkinni okkar. Ég fylltist skelfingu og læddist fram á ganginn og að útidyrahurðinni. Á því var gægjugat sem ég leit út um. Ég stóð grafkyrr og horfði út á ganginn þangað til að einhver þar út i kveikti ljós. Ég læddist inn í eldhús, settist undir borðið, hélt um fæturna og beit í vinstra hnéð á mér. Svo gerðist það sem ég hafði óttast, hurðin að íbúðinni opnaðist. Það ískraði í henni eins og venjulega og drungalegi maðurinn gekk inn, hægum skrefum.
Hann gekk beint inn í eldhúsið en kveikti ekki ljós, heldur nýtti sér ljósið frá jólaseríunum í glugganum. Hann opnaði ískápinn eins og í leit að einhverju en lokaði honum svo aftur og tók stærsta hnífinn í hnífastandinu. Hann var ennþá í regnfrakkanum, það draup af honum og bleytti gólfið. Hann smeygði sér úr skónum en þá varð fótatak hans næstum því hljóðlaust. Hann læddist síðan inn með ganginum og ég safnaði kjarki til að standa upp og elta. Ég þorði ekki að standa upp en skreið eftir gólfinu út úr eldhúsinu og sá manninn fara inn í svefnherbergi til mömmu.
Þá ákvað ég að ég þyrfti að gera eitthvað, stökk hljóðlega inn í herbergi að ná í hafnarboltakylfuna mína. Ég læddist svo aftur fram á ganginn eins hratt og ég gat en maðurinn að horfinn. Ég fór að herbergi mömmu of leit varlega inn. Þarna stóð hann yfir henni ennþá með hnífinn í hendinni. Ég fann að hjartað í mér sló hraðar enn nokkru sinni fyrr. Ég var einmitt að fara að hlaupa í hann þegar hann sagði: „Hæ, elskan. Hvað finnst þér um nýja regnfrakkann minn? Og gleymdirðu að kaupa spægipylsu?“