Þetta byrjaði allt í partýinu hjá Bigga sem við Rósa fórum saman í. Biggi hafði alltaf verið hrifinn af Rósu og ég vissi það. Hann átti heima í frekar lítilli íbúð á 5. hæð í blokk í Kópavoginum. Íbúðin var kannski ekki svo lítil, mér fannst það bara af því að hún var full af fólki. Full af fullu fólki. Músíkin var alltof hávær og ég var orðinn alltof drukkinn til að vita hvað væri upp og hvað niður. Ég varð að fara út á svalir. Að fá mér frískt loft. Og sígó. Ég renndi svalahurðinni til hliðar og sá Bigga halda utan um Rósu, með hendurnar á rassinum á henni. Og viðbjóðslegu tunguna sína ofaní henni. Þau tóku strax eftir mér og hættu. Rósa gekk framhjá mér inn og lokaði svalahurðinni. Hún leit ekki einu sinni á mig. Það var þá sem ég missti stjórn á mér. „Hvað í andskotanum voru þið að gera?“ öskraði ég. En ég vissi svarið. Og Biggi vissi að ég vissi það. Ég gaf honum ekki tækifæri til að svara en kýldi hann. Eins fast og ég gat. Í andlitið. Hann fór í hring og lenti með hausinn hangandi yfir svölunum og svo ældi hann niður á götuna. Þetta var eiginlega ekki morð, ég rétt ýtti honum og hann datt niður af svölunum og lenti á harðri, kaldri götunni. Með hausinn fyrst. Hann lenti í ælunni sinni. Gott á hann. Biggi yrði aldrei fullorðinn, hann fengi aldrei stúdentspróf og allir aðrir draumar hans og foreldra hans voru, með smá hjálp frá mér, horfnir. Ég vissi samt að það sem ég gerði var rangt. Ég varð eiginlega eins og tvískipt persóna, þar sem annar helmingnum leið illa yfir því sem ég hafði gert en hinum vel. Mjög vel, ég var máttugur. Ég hafði tekið líf hans, rænt því frá honum. Enginn tók eftir því að Biggi var horfinn en ég fór snemma úr partýinu. Rósu sá ég aldrei aftur.
Það var í fréttunum daginn eftir. Ég las það samt fyrst á mbl.is þegar ég lá í þynkunni og vorkenndi sjálfum mér. En ég gat ekki hætt að hugsa um morðið. Ég náði í hníf inni í eldhús og fór að skera mig í hendina, lærið, magann og loks andlitið. Ég skar mig í kinnina og hallaði hausnum þannig að blóðið lak inn í munninn á mér. „Jæja“ hugsaði ég, „þá er kominn tími til að drepa aftur.“ Ég skalf af tilhlökkun og spennu þegar ég valdi næsta fórnarlamb mitt. Sindri Guðmundsson. Hann hafði strítt mér svo mikið þegar við vorum í 8.bekk. Og nú fengi hann það sem hann átti skilið. Í þetta skipti var þetta án efa morð. Kaldrifjað. Ég dinglaði bjöllunni heima hjá honum og byrjaði á smá slúðri. Hann var einn heima þannig að ég greip tækifærið. Ég byrjaði á því að kýla hann þangað til að hann datt á gólfið og skýldi andlitinu með höndunum. Þá sparkaði ég í maganum á honum nokkrum sinnum og batt hann svo við stól. Ég náði mér í hníf og í þetta sinn byrjaði ég að skera í andlitið. Á honum. Blóðið lak niður kinnarnar og niður á hálsinn þar sem ég sleikti það af. Ég skar hann svo á háls og sleikti hnífinn hreinan og gekk frá honum í skúffuna í eldhúsi foreldra hans. Þar sem ég hafði fundið hann. Svo fann ég vínsafn pabba hans og byrjaði að drekka. Ég drakk allan daginn við hlið líksins og foreldrar Sindra komu aldrei heim. Þegar ég lagði af stað heim var orðið dimmt. Ég mætti manni á götunni. Hann var úti að labba með hundinn sinn í bandi.. Mig langaði svo og finna máttartilfinninguna aftur. Ég reyndi að hemja mig en gat það ekki. Ég var stjórnlaus, óður. Ég kýldi hann, reif bandið af hundinum og vafði um hálsinn á honum. Hann engdist um og barði mig höndunum út í loftið en ég hélt fast í bandið þar til hann varð alveg hreyfingalaus. Hundurinn hafði strax hlupið í burtu. En tilfinningin var horfinn. Góða tilfinningin sem ég hafði fengið áður. „Kannski þurfti ég að smakka blóðið hans“ hugsaði ég og gerði það svo. Skar hann upp og drakk. En það virkaði ekki.
Samviskan var að drepa mig. Næstum eins hrottalega og ég hafði drepið Bigga. Og Sindra. Og ókunnuga manninn sem hafði verið úti að labba með hundinn sinn. Ég hafði verið stjórnlaus, óður. Án tilfinninga fyrir því sem ég var að gera. Ég hafði lokað mig inni. Í lítið box vitfirringar og ég kæmist aldrei út. Ég var fangi huga míns. Ég greip um rimlanna að fangaklefanum sem mér hafði verið hent í og öskraði.