Upp á hvern einasta dag seinustu viku hef ég verið í stöðugri baráttu við sjálfa mig. Ég hef verið föst við gólfið í húsinu mínu.

Aðal vandamálið mitt, fyrir utan allt þetta föstu á gólfinu dæmi, að ná í hjálp. Ég er núna nokkuð viss um að ég kemst ekki sjálf upp, ég þarf einhverja hjálp, en ég get ómögulega fengið hana. Helsta ástæðan er sú að ég á ekki síma, ég hef aldrei talið mig þurfa hann. Týpísk ég. Ég þarf alltaf að gera allt sem ég get til að vera öðruvísi en venjulegt fólk, en því miður virðist það aldrei gera mér neitt gott. Ég verð að fá mér síma þegar ég losna héðan, svona til öryggis ef ég myndi lenda í þessari aðstöðu aftur.

Annað sérvisku vandamál sem gerir mér erfitt fyrir í augnablikinu er sú ákvörðun mín að flytja fjarri þéttbýlinu. Samt ekki alveg út í sveit, bara burt frá öllu fólkinu sem reynir að hjálpa mér og tala við mig. Ég þoli það ekki, en núna gerir þessi staðsetning á heimili mínu það að verkum að það er tilgangslaust að hrópa á hjálp. Ég dey samt ekki ráðalaus. Ég hef náð að búa til skutlu úr gömul dagblaði og skrifa á hana skilaboð, því miður náði ég ekki að henda henni út um gluggann svo að hún gæti fokið til hjálpar.

Ég hef ekki fengið náð að sofa mikið undanfarna daga, gólfið er hart og enginn koddi innan seilingar. Heilinn minn er hættur að virka eins og hann á að gera vegna þreytu, þar af leiðandi eru hugmyndirnar sem ég fæ til að bjarga mér ekki góðar og engin þeirra hefur virkað.

Bara ef einhver kæmi nú að heimsækja mig örðu hvoru, þá væri ég ekki enn föst hérna. En enginn kemur, nema það séu jól. Þá kemur bróðir minn með ömmu. Hún gefur mér alltaf ullarsokka sem hún hefur prjónað. Hún er indæl greyið, get ekki sagt það sama um bróðir minn. Hann kemur aldrei inn, bíður bara úti í bil. Ég hef ekki talað við hann í mörg ár, hvað þá einhvern annan í fjölskyldunni, að ömmu undanskilinni náttúrlega. Reyndar hef ég ekki mikið talað við hana. Það er bara hún sem talar. Alltaf það sama, hvert einasta ár, hún segir: „gjörðu svo vel barnið mitt, gleðileg jól.“

Fjölskyldan mín gat aldrei fyrirgefið mér fyrir eiturlyfjafíkn mína. Jafnvel eftir að ég hætti, jafnvel eftir að hafa verið án þeirra í fimm ár. Ekki einu sinni amma, sem er að mínu mati besta og ljúfasta manneskja í heimi, gat það ekki. Það er það erfiðasta í við líf mitt, að geta ekki talað við fjölskylduna mína, leitað til mömmu með vandamálin mín, fengið ráðleggingar frá pabba við fjármálin og allt sem því fylgir að eiga fjölskyldu. Ég fékk ekki einu sinni að fara í jarðaförina hjá afa. Ég hef verið algjörlega afskrifuð, nema í þennan eina dag einu sinni á ári þegar ég hitti ömmu. Ég á ekki lengur fjölskyldu.

Þegar ég virkilega hugsa út í það, af hverju ætti ég að hafa fyrir því að standa upp?