Ég vakna við hávært píp. Ekki er klukkan orðin 7 strax. Ég teygi mig í símann en átta mig á því að hljóðið kemur ekki frá honum. Klukkan er líka bara 4:23. Ég stend upp og teygi mig og finn þá fyrst fyrir reyknum. Það er kviknað í. Pípið kemur frá reykskynjaranum frammi í stofu sem hangir í loftinu yfir sjónvarpinu, virðist svo tilgangslaus í hversdagsleikanum. Hann hefur sannað að hann gerir gagn. Og nú er komið að mér. Ég held fyrir munninn og hleyp inn til mömmu og öskra að henni; Eldur! Eldur! Ég heyri hana óljóst segja; Guð, minn góður, eða eitthvað þvíumlíkt. Ég er hetja. Snati er lokaður inni í þvottahúsi, ég verð að ná í hann. Ég hrindi upp hurðinni en sé ekkert í myrkrinu. Þá fyrst fatta ég að kveikja ljós en það hjálpar ekki. Reykurinn er svo þéttur. Hann kæfir sjónina og myndar tár í augunum á mér. Snati er hræddur og hreyfir sig ekki þannig að ég lyfti honum upp þó að hann sé þungur. Ég verð að bíta á jaxlinn, ég er nefnilega hetja. Ég hleyp út með erfiðleikum, enda með lokuð augun, og klessi á einn eða tvo veggi á leiðinni. Loftið úti er ferskt og ég finn lungun í mér syngja af gleði. Ég heyri sírenuvæl og mömmu yfir sig glaða að sjá mig. Ég hrasa í tröppunum, missi Snata og lendi harkalega á gangstéttinni. Ég finn húðina opnast á hnénu og þegar ég tek um það finn ég blóði seytla um fingurna. Mamma tekur í handlegginn á mér, lyftir mér upp en sleppir mér svo, horfir í kringum sig. Snorri! kallar hún. Snorri, litli bróðir, er ennþá inni. Ég tek eitt skref í átt að húsinu en finn mömmu toga mig til sín. Ég slít mig lausa og hleyp aftur inn á móti reyknum og hitanum. Ég er hetjan hennar mömmu. Ég er ringlaður. Reykurinn hefur magnast. Ég skríð eftir gólfinu þar sem minnst er af reyknum þannig að ég geti andað. Ég skríð eftir gólfinu og finn ákafan sársauka í hnénu. Allt í einu hitnar mér ógurlega í andlitinu. Það er eins og kviknað er í því. Það er sama hvert ég lít, ég get ekki skýlt því. Ég finn fyrir hræðilegum sársauka í öllum líkamanum en allt í einu mest á höndunum. Ég bít í vörina á mér og opna augun. Mér er sama þó að mér svíði, ég er enginn aumingi. Ég er hetjan. Tár renna niður á kinnarnar á mér og ég sé eld. Eld á gólfinu. Ég er kominn inn í stofu og skríð á persneska teppinu sem er alelda og hendurnar á mér brenna. Ég get ekki meir. Ég gefst upp. Ég er ekki hetja. Ég gat ekki bjargað Snorra og ég tók sjálfan mig líka frá mömmu. Hún hlýtur að eiga eftir að hata mig fyrir það. Ég finn þungt tak um magann og missi meðvitund.

Ég vakna. Ég get ekki opnað augun eða munninn. Ég finn samt ekki mikið til. Ég heyri raddir; mamma og… slökkviliðsmaður. Hann hafði bjargað mér úr eldinum og Snorra líka. Mamma var að þakka honum. Hún kallaði hann hetju. Ég er ekki hetja. Allt í einu finn ég aftur til. En ekki í líkamanum heldur í sálinni. Ég er ekki hetjan hennar mömmu. Það er slökkviliðsmaðurinn.