Missirinn - Mamma
- Já Viska mín
- Ég elska þig
- Ég elska þig líka
Ég horfi á dóttur mína leika sér, hún er í hvítum kjól sem sveiflast um þegar hún hleypur um í grænu grasinu á milli trjánna, ég sit í skógarlundi á gráu teppi, í fangi mínu er skyssu bók, er að teikna í hana mynd af skóginum sem við erum í.
Litla stúlkan mín hleypur til mín berfætt og faðmar mig, skilur eftir tilfinningu í hjarta mínu sem ég mun aldrei gleyma, þetta er barnið mitt.
Brúnt hár hennar sem er allt í liðum eins og á Dís systur minni, hún er með dimmbláu augun mín, hún virðist fátt hafa fengið frá föður sínum að minnsta útlitslega séð.
Við erum þarna einar, bara náttúran í kringum okkur, heiður himininn og tréin sem umljúka okkur sem móðir sem verndandi heldur um börn sín, eins og ég geri við Visku mína þegar hún stekkur í fang mitt.

Ég hrekk upp, mig hefur verið að dreyma, strýk yfir magann sem enn er ekki farinn að stækka en ég hafði komist að því nokkrum dögum áður að ég væri barnshafandi, sé fyrir mér dóttur mína eins og hún var í drauminum, minnist nafnsins sem ég hafði kallað hana þar, hversu falleg hún var.
Ég hálfpartinn skríð inn í sturtu, þarf að fara að vinna eftir tvo tíma, tvöföld vakt í dag og svo er að fara vestur á morgun í sveitina, Dís er að fara að fermast.
Heit sturtan vekur mig aftur til lífsins, nudda húðina fast með handklæðinu til að fá líf í mig, léttur morgunmaturinn stillir magann sem annars er í yndislegu uppnámi, er búin að vera með morgunflökurleika, er því fegin að vera ekki ælandi, kúgast bara.
Bíllinn er erfiður í gang, það hefur verið kalt í nótt þrátt fyrir að það sé komið sumar, það virðist ætla að standa á því að það hlýni, læt mig dreyma um það að fara erlendis á einhverja sólarströnd en það er ekki að fara að gerast á næstunni, ekki með þessar breytingar í huga.
Strákarnir taka vel á móti mér og eru sem yndislegastir, við gerum stöðina tilbúna fyrir opnun, þeir virðast vita að það sé eitthvað í gangi hjá mér þar sem ég er fremur utan við mig og er ekki alveg að gera hlutina sem hraðast, ég er venjulega afar virk.
Rétt fyrir opnun förum við þrjú út, þeir til að fá sér smók og ég til þess að anda að mér smá fersku lofti. Dagurinn er ekki erfiður síður en svo en ég er svo einstaklega klaufsk og svo rosalega þreytt.
- Kisa, hvað er að?
- Ekkert, er bara þreytt.
- Ertu alveg viss, þú ert búin að vera fremur föl í dag og já verð að segja að þú lítur ekki út fyrir að vera neitt sérlega heil… ertu vissum að þú viljir ekki fara til læknis?
- Nei engin þörf á því Árni, ég lifi þetta alveg af.
Árni getur ekki hætt að hafa áhyggjur af mér, hann er búinn að fylgjast með mér í allan dag, eins og hann viti leyndarmálið mitt, þarf víst að segja þeim frá því fyrst að ég er ekki að fara í eyðingu.
Ég heyri Árna tala við stöðvarstjórann okkar, hún virðist ekki vera neitt sérlega hress, hann kemur aftur fram, það er þvílíkur ákveðnissvipur á honum.
- Kisa, þú ferð heim núna klukkan fimm, það gengur ekki að hafa þig veika hérna á vakt.
- Það er engin þörf á því Árni, ég tók að mér aukavakt og ég get alveg unnið hana!
- Ég veit alveg að þú getur það en ég vil ekki sjá þig hérna eftir fimm!
Svanur samsinnir honum en hann hafði verið úti í mest allan morgun þar sem ég kúgaðist alltaf ef hann kom nálægt mér, olíu og bensínlyktin var algerlega að fara með mig.
Ég átti ekki að fá að vinna meira í dag, þeir voru búnir að ákveða það þó svo að Valgerður væri ekki sátt við það að völdin væru tekin af henni og kallað væri út aukavakt, þeir tóku það bara alls ekki í mál að ég myndi vinna meira.
Ég tek saman dótið mitt, fer úr vinnufötunum og set þau inn í skápinn minn, hárið á mér er hálf flatt eftir að hafa verið undir derhúfu í allan dag, ég hata derhúfur!
Mannhæðarhár spegill er við hliðina á skápunum, virði fyrir mig sjálfa mig í honum, veit að ég muni ekki sjá á mér neinar líkamlegar breytingar strax, veit að ég mun ekki sjá það hvernig dóttir mín stækkar og dafnar fyrren eftir nokkrar vikur, mánuði.
Þegar ég kem aftur fram er aukavaktin komin, hún virðist ekki beint hress með að hafa verið kölluð til vinnu, finn eiginlega til með henni, hún er samt búin að vera alltof dugleg við að koma sér undan vöktum uppá síðkastið, sífellt djamm ástand um helgar.
Kveð strákana áður en ég fer út, bíllinn er fljótur í gang mér til mikillar ánægju, kem við í búðinni áður en ég fer heim, þarf að versla hitt og þetta, ísskápurinn er að verða ansi fátæklegur.
Þegar ég kem heim sest ég inn í sófa sem Steini frændi gaf mér, vef mér inn í teppi og stilli sjónvarpið á Cartoon Network, tek upp lappann sem ég hafði nýlega keypt mér, skoða stöðu reikninga og vonast til þess að um mánaðarmótin geti ég borgað eitthvað upp, hata að vera í skuld.
Ég fer á spjallavefi og MSN, Geir er ekki inni, þarf eiginlega að segja honum að ég ætli að halda þó svo ég viti að hann vilji ekkert með barnið gera, hann trúir því ekki að ég sé ólétt, hann sagði mér að ef ég væri það þá ætti hann það ekki, það var svo sárt að fá það í andlitið þar sem hann er sá eini sem ég hef sofið hjá.
Dóttir mín var þó getin heima í sveitinni, í sumarbústaðarferð sem ég, Geir, Steini og Jóna fórum í, Jóna neyddi mig til þess að segja Geir frá því að ég væri ólétt, ég vildi ekkert segja honum, ekki fyrren ég væri búin að gera upp hug minn með hvort ég ætlaði að halda barninu eða ekki, ég er ákveðin núna.
Mér finnst það verst að Hrafna tók á sig sökina fyrir Jónu, hún leyfði Jónu að sleppa við það að þurfa að sitja undir svörum og sagði við Geir að hún hafði neytt mig til að segja honum þetta þar sem að Jóna vildi ekki láta tengja sig við að hafa gert það, aumingjaskapur í henni.
Þessi sumarbústaðarferð hafði verið áhugaverð, við höfðum bara ætlað að fara þarna til að hafa gaman, kynnast betur en við Geir höfðum verið að dúllast síðan í mars, frá því að við sváfum saman í vinnupartýinu.
Ég man lítið eftir því að hafa sofið hjá honum í vinnuparýinu, var svo rosalega drukkin, rámar í það að hafa verið að stunda kynlíf með honum og svo sögðu harðsperrurnar sitt daginn eftir, það var svo sárt.
Vinkonur mínar og ég fórum heim daginn eftir, gistum bara aðra nóttina, það var svo undarlegt að tala við Geir eftir þetta, átti svo erfitt með að vinna með honum þar til að við töluðum saman heima hjá Steina frænda, þeir voru rosalega góðir vinir.
Steini og ég höfðum ekki þolað hvort annað, það var ekki fyrren eftir að við komumst að því að við vorum fremur skyld sem við urðum vinir, þá fór hann að passa uppá litlu frænku, held það hafi verið hluti af ástæðunni fyrir því að Geir og ég byrjuðum að dúllast fyrir alvöru, því að Steini hafi ýtt á hann.
Núna tölum við Steini lítið saman, Jóna er mikið hjá mér, mér finnst eiginlega eins og hún sé að nota mig, sem hún geri það sem hún vill til að fá sínu framgengt, mér leiðist það að vera leiksskopi, er bara ekki nægilega kjörkuð til að segja henni að ég æti mér ekki að vera það.
Ég er nýlega farin að tala við strák á einum spjallvefjana sem ég get talað við, hann er rosalega skemmtilegur, gæti svo auðveldlega orðið hrifin af honum en ég ætla mér það ekki, ætla ekki að vera að flækja málin frekar.
Klukkan er orðin margt en ég er ekki nægilega þreytt til þess að fara að sofa, ég finn að andlega er ég rosalega þreytt en líkamlega er ég það alls ekki, augun hreinlega standa á stilkum og skemmtilegi strákurinn er einnig vakandi og er er að perrast við mig, fær mig til að hlægja.
Ég lít á tímastimpilinn á skilaboðunum sem við erum að senda á milli, er klukkan virkilega orðin svona margt? Hvað varð að tímanum? Ég kveð þennan netvin minn, fer í sturtu þar sem ég finn að núna er ég að verða verulega þreytt, má ekki verða það þar sem ég er að fara vestur, ég lofaði Dís að mæta í ferminguna og ég ætla ekki að brjóta gefin loforð.
Greiði hárið upp, mála mig og fer í betri fötin, slekk á sjónvarpinu og tölvunni, athuga hvort ekki sé slökkt á öllu, læsi á eftir mér og fer út í bíl sem er kaldur og hundleiðinlegur í gang.

Ég man eiginlega ekkert eftir því að koma að göngunum eða að fara ofan í þau, man eftir því að hafa borgað eldri konu fyrir ferðina í gegn, að hún óskaði mér góðs dags og góðrar ferðar, hún var brosandi.
Næsta sem ég man eftir er að ég er að fara að keyra útaf, næ að snúa stýrinu, fer aftur inn á veginn og útaf hinu meginn, skell framm á stýrið, ég er hágrátandi þegar bíll kemur að, hjónin eru með miklar áhyggjur af mér.
Maðurinn hjálpar mér við að koma bílnum aftur upp á veg, konan tekur um axlirnar á mér og spyr hvort allt sé í lagi, hún gefur mér að drekka og spyr hvort ég treysti mér til þess að halda áfram, ég segi henni að ég geti það og ég ætli mér það.
Þau spyrja mig bæði hvað hafi gerst og ég segi þeim að ég hafi sofnað undir stýri, sé áhyggjurnar sem eru í augum þeirra, þau sáu hvað hafði gerst, hefði ég farið útaf hinum megin hefðu þau þurft að hringja á sjúkrabil, þau voru hrædd við það að leyfa mér að halda áfram en gátu ekki bannað mér það, bara báðu mig um að fara varlega.
Ég sest inn í bílinn, keyri rólega af stað, kemst að næstu vegamótum þar sem ég stoppa og græt í smá tíma, ég hafði verið svo hrædd, ekki bara um sjálfa mig heldur líka dóttur mína, líf mitt er einhvers virði ég veit það og það skiptir mig máli að lifa, ég hef ástæðu til þess að lifa.
Held akstrinum áfram, finn það hvað ég er innilega þreytt, hvað ég ætti verulega að stoppa og leggja mig en ég ákveð að halda aðeins lengra áfram, enda þó með því að stoppa og loka augunum í smá stund, geri það nokkrum sinnum á leiðinni.

Dís er svo hamingjusöm að fá mig heim í sveitina í veisluna, ég sit lengi og horfði á systur mínar og bróður vera með kjánaskap og skemmta sér, það þekkir mig næstum enginn, finnst það þó engin furða, ég sem hafði alltaf verið með fallegt sítt ljóst hár er núna með næstum svart hár og orðin allt öðruvísi en ég var.
- Mamma, ég get ekki verið hér lengi, ég þarf að fara aftur suður eftir nokkra tíma
- Gerðu það vinan, er vinna í kvöld?
Ég laug að móður minni, vil ekki segja henni það að ég gæti ekki hugsað mér að vera lengur í sveitinni en ég þurfti, gat ekki verið þarna, borgin togaði í mig, hún er ávanabindandi, ég er einnig loksins farin að standa á eigin fótum, hversvegna ætti ég ekki að vera heima hjá mér?
Litla ljósið mitt, yngsta systir mín er svo ánægð að sjá mig, hún virtist ekki ætla að sleppa mér þar sem ég hafði ekki komið heim í sveitina í langan tíma og því hafði hún ekki hitt mig lengi, hún er að fara að byrja í fyrsta bekk í haust.
Lísa er yngst okkar fimm, Dís var að fermast, Rún er tveim árum eldri en Dís og Freyr er tveim árum yngri en Dís, það eru tvö ár á milli okkar allra eldri systkinana en sex á milli Freys og Lísu, frábær stærðfræði eiginlega þarna á milli.
Foreldrar okkar hafa alltaf haft hag okkar algerlega fyrir sínum þörfum, þau gera allt fyrir okkur sem þau geta, við erum alls ekki efnuð og sést það á öllu hjá okkur, sjálf finnst mér undarlegt að ég er í raun betur en foreldrar mínir, ég bý ein í íbúð sem er að svipaðri stærð og allt húsið heima!
Veislan hennar Dísar er rosalega falleg, hún lítur rosalega fallega út og er ég svo stolt af henni, hún er svo fullorðin þrátt fyrir það að vera einungis fjórtán ára, hvernig getur hún tekið öllu með svona miklu jafnaðargeði?
Hárið á Dís er tekið til hliðar og í því eru lifandi blóm, það er ekkert í fari hennar sem myndi sýna það að hún er ekki fullkomlega ánægð með þetta, hún vildi ekki fermst, hún hafði sagt mér það nokkrum vikum áður en gerði það fyrir foreldra okkar… það sama og ég hafði gert á sínum tíma.
Rún kemur til mín og biður mig um að fá að koma til mín í borgina, fá að vera hjá mér í einhvern tíma þegar ég geti tekið við henni, ég held það nú að ég gæti nú leyft systur minni að vera hjá mér.
Ég kveð fjölskylduna og þá sem mér standa næst, segi þeim að ég þurfi að mæta til vinnu í kvöld en ég ætlaði heim fyrst og ná í dót sem ég á þar, að ég myndi sjá þau fljótlega þegar þau koma nú í borgina.
Mér hefur alltaf fundist ég svolítið útundan í fjölskyldu stjúpa míns, það var eins og þau vilji mig ekki þarna, sem ég sé bara eitthvað sem hefði átt að losa sig við, þau geta ekki losnað við mig því ég er hluti af lífi þeirra hvort sem þau vilja það eða ei.
Ég fer heim, sest fyrir framan tölvuna, hringi mig inn á netið og læt vinina vita að ég sé að koma aftur í borgina, að ég geti ekki verið í sveitinni, að borgin hafi of mikið tak á mér.
Tek saman það sem ég ætla að taka með mér suður, alls kyns smádót sem gerir heimili mitt enn meira heimilislegt.

Stingandi verkur í kviðholinu vekti athygli mína, ég fer að hafa áhyggjur af því að eitthvað hafi gerst, fer á salernið en ekkert er að sjá, það er ekkert sem bendir til þess að eitthvað sé að, ég kenni hungri um þessa verki.
Legg mig í smá tíma í gamla rúminu mínu sem Freyr notar núna, hann á herbergið mitt núna, finnst það samt soldið skrýtið að sjá hlutina mína þarna innan um hans, þetta hafði verið herbergið mitt frá því að ég var tíu ára þar til að ég varð sextán og þar áður hafði ég átt það sem barn.
Eftir góðan blund keyri ég aftur á stað í borgina, hlusta á tónlist og syng með, bölva verkjunum í kviðholinu sem virðast vera að magnast fremur en að minnka þrátt fyrir að ég hafi fengið mér að borða heima áður en ég lagði á stað.
Núna er strákur sem ég borga þegar ég fer í gengum gönginn, hann blikkar mig og mér finnst það eiginlega svolítið kjánalegt af honum, hversvegna eru karlmenn svona miklir bjánar?

Opna hurðina heima og skríð inn, leggst inn í sófa, langar ekki til að gera neitt, langar bara til að hverfa, verkirnir eru enn verri en áður, ég veit að ég hef misst barnið mitt, það er engin önnur skýring, verkirnir sífellt aukast og ég get ekki annað en grátið, ég berst við sjálfa mig, mig langar ekki að fara til læknis, líkaminn hlýtur að sjá um þetta sjálfur, ég er ekki komin svo langt á leið.
Ég ligg í sófanum og held utan um teppið mitt, tárin renna yfir nefið og niður í púðann sem er undir höfðinu á mér, mér finnst eins og úr mér sé allur vindur, mig langar ekki að berjast lengur, get ég ekki gert neitt rétt? Hvernig gat ég farið að því að drepa barnið mitt? Hvernig gat ég verið svona heimsk?!
Tárin halda áfram að streyma, berst við sársaukann sem er að leggja undir sig líkama minn, veit að hann er bara að losa sig við það sem er ekki lengur hluti af honum, hann er bara að gera það sem hann á að gera, hversvegna get ég það ekki?
Síminn pípir á borðinu, Hrafna er með áhyggjur af mér, hún er hjá vinkonu okkar sem býr erlendis, hún er svo ákveðin, sendi henni skilaboð ,,Málið er dautt, ég drap það með gáleysi” veit að hún mun skilja og ekki spyrja frekar fyrren ég verð tilbúin til að tala um það.
Tónlist er í bakgrunninum, það er verið að spila Celine Dion á eftir hæðinni eins og venjulega, finn hvernig ég get ekki barist lengur við tilfinningarnar, að ég geti ekki verið bara sú sem ég er, er ekki lengur saklausa stelpan sem ég eitt sinn var.
Barnið mitt er dáið og ég drap það, fallega litla stúlkan sem ég hafði séð í draumum mínum ég hafði myrt hana, hversvegna gat ég ekki farið varlega, hversvegna hafði ég ekki hugsað svona til tilbreytingar, hví var ég alltaf svo rosalega gálaus? Gat ég ekki gert neitt rétt?

Finn hvernig líkami minn dofnar upp og finn svefninn leita á mig, loka augunum og vona að ég muni vakna og þetta hafi allt verið draumur, að ég hafi ekki gert það sem ég hafði gert, að ég myndi vakna við það að þurfa að fara vestur í sveitina í ferminguna hennar Dísar, að það sem ég hafði upplifað í dag sé ekkert nema slæmur draumur.