,,Ertutilíaðsvaramér?”
Ha? Er ég til í hvað? Þessi spurning kom eins og þruma úr heiðskýru. Ég var bara í rólegheitum að dúlla mér og klippa á mér táneglurnar og þá kemur hún askvaðandi og ræðst á mig. Eins og það væru ekki fleiri nemendur í stofunni sem fylgdust betur með námsefninu en ég. Ég skil bara ekki af hverju hún heldur alltaf áfram að spyrja mig, það hefur aldrei komið fyrir að ég viti svarið, hvað fær hana til þess að halda að það eigi einhverntíma eftir að gerast?
Ég náttúrulega svaraði bara eins og venjulega: ,,Ömm.. Ég skil ekki spurninguna.” Og þá svaraði hún á sinn einlæga en jafnframt kaldhæðnislega máta: ,,Hver er höfuðborg Þýskalands?” Vá! Ekki furða að þessi kella skuli vera kennari. Einhvernvegin fær mann til þess að langa til þess að svara, jafnframt því sem maður hatar hana. ,,Jæja, ætlarðu að svara mér?” Spurði hún þegar ég loksins ákvað að svara henni ekki. Svo að ég svaraði: ,,Ehh… Nei?”
,,Djísús kræst! ÞÚ! Svaraðu spurningunni!” hrópaði hún og sneri sér að rauðhærða gaurnum sem sat alltaf fremst og vissi alltaf réttu svörin. Og eins og alltaf, þá langaði mig til þess að berja úr honum viskuna þegar hann svaraði með smeðjulegustu röddu sem ég hef heyrt: ,,Það er Berlín.” En ég ákvað að sleppa því að berja hann og lét mér nægja að henda tánöglunum af mér í hálsmálið hjá honum. Svo naut ég þess að sjá hann engjast sundur og saman þegar neglurnar féllu niður eftir bakinu á honum og ofan í buxurnar. Hann hefði betur sleppt því að girða bolinn ofan í buxurnar.
Loksins lauk tímanum og ég gekk út í frelsið, sem eins og alltaf virtist taka mér fagnandi og með opnum örmum. Mig langaði til þess að öskra af gleði. Og ég lét það eftir mér, og hræddi með því nokkra fyrsta árs nema sem læddust meðfram veggjum eins og hundur sem sætir ofbeldi. En hverjum er ekki sama um þessa krakka? Ekki eins og þeir séu framtíðin eða eitthvað. Svo rölti ég út í bíl, tók hann úr handbremsu og lét hann svo gossa niður brekkuna sem liggur frá skólanum og niður að gömlu bryggjunni. Æ, hvað það er gaman að lifa.
,,Hvað gekk þér til ungi maður?” Þessi lögreglustjóri er ekki alveg að gera sig. Hann á að heita löggæslumaður, en samt vita allir í bænum að hann bruggar og selur landa. Og það veit það enginn betur en ég, þar sem að ég er hans helsti viðskiptavinur. Svo að ég svaraði bara fullum hálsi: ,,Mér gekk ekkert til, ég var bara að prófa hvort hann kæmist alla leið!” Og þá greinilega ákvað hann að hætta þessum leikaraskap, og ég sá hvernig þessi barnslegi glampi birtist í augunum á honum þegar hann sagði: ,,Og virkaði það?” Ég sagðist ekki vita það, því að ég hefði ekki séð niður að bryggju vegna sólarinnar. Þá ákvað hann að sleppa mér, það væri ekki hægt að refsa mér fyrir svona bernskubrek.
Svo að ég gekk í íþróttahúsið og lék mér að því að þrusa í gifsveggi búningsklefanna með nýju tennisboltunum. Hætti svo þegar ég var búinn að pikkfesta alla boltana í veggnum og húsvörðurinn búinn að hóta því þrisvar að henda mér út.
Þá gekk ég heim. Og þar lá pabbi, alveg eins og ég skildi við hann, liggjandi á sófanum í eigin ælu, gjörsamlega út úr heiminum og ég get svarið að í bolnum hans var heilt lífríki út af fyrir sig, fullt af nýjum örverum, sýklum og bakteríum sem enn er ekki búið að uppgvöta. En ég lét það ekki á mig fá frekar en vanalega, gekk inn í eldhús, opnaði ísskápinn og fann þar brauð og ost sem var ekki farinn að mygla neitt allt of mikið. Sópaði svo kóngulónum af borðinu og átti svo notalega stund, einn með blaðinu mínu og brauðinu.
Rölti mér svo inn í herbergiskompuna mína og hlammaði mér í rúmið. Þá hrundu lappirnar undan því. Mér var svo sem alveg sama, þetta hús, fjölskyldan og jafnvel allt heila bæjarfélagið var allt að hrynja í sundur hvort eð er. Svo sofnaði ég og vonaði eins og alltaf að þegar ég vaknaði myndi allt vera breytt, mamma ennþá á lífi, pabbi edrú, nýtt hús og hrein föt.
Það sem ég segi er mín skoðun. Þó skaltu ekki dæma mig of hart, og alls ekki bögga mig, ég nenni ekki svoleiðis. Fyrirfram þakkir.