Ef þér líður illa á morgun þá skaltu hringja í mig, það er ekki gott að vera einn eftir svona dæmi.“

Setning félaga minna bergmálaði í hausnum á mér þar sem ég stóð úti í kuldanum. Rosalega var ég vitlaus að hugsa ekki aðeins meira út í afleiðingar gjörða minna. Ég er hvort sem er svo heimsk að ég á pottþétt eftir að enda dauð einhvers staðar. Þetta er bara spurning um tíma. Ég finn beittar tennur næturinnar kaldar við húð mína, lognið veitir ekkert skjól fyrir hrollinum sem hríslast niður með hryggjarliðunum. Ég er ein. Alein. Hugurinn reikar til baka þegar ég reyni að hrista af mér þessar hrikalegu hugsanir sem gefa mér þó einfalda lausn við öllum mínum vanda. Ég vil ekki horfa framan í foreldra mína, ekki eftir þetta.



Skæru litir umbúðanna blinduðu nánast í mér augun. Gjafir af öllum stærðum og gerðum, þessi fína veisla sem er haldin mér til heiðurs. Skyldmennin renna framhjá mér eins og í móðu, hamingjuóskir frá þeim og þakkir frá mér er það eina sem heyrist. Hvert sem ég lít eru tennur fólks í aðalhlutverki, brosandi, hlæjandi og smjattandi. Ég finn hvernig tilhlökkunin magnast innan í mér og ég get ekki beðið þar til seinna í kvöld en þá er stefnan tekin á miðbæinn í fylgd með félögunum. Þeir komu með þær góðu fréttir að allt væri til reiðu, við þyrftum bara að koma okkur fyrir hjá einum þeirra.

Ég lít á vekjaraklukkuna, stóri vísirinn bendir á átta og sá litli nálgast óðum tólf. Ég er farin að ókyrrast og vil endilega koma mér í burtu, ég þarf að blanda smá alkóhóli við blóðið sem rennur hratt um æðar mínar. Ég kveð og sting af.

Fjörið í bílunum á leiðinni niður í bæ er rosalegt. Tveir bílar keyrandi hlið við hlið, rúðurnar niðri svo öskrin berist vonandi yfir í næsta bíl. Spyrnur eru teknar á hverjum einustu ljósum á Sæbrautinni. Við erum ein í heiminum. Ég bið um bjór þegar sígarettunni hefur verið hent út um gluggann. Ég fæ hann möglunarlaust því nú er afmælið mitt. Engir lögreglubílar verða á vegi okkar svo ég hef engar áhyggjur af því að missa prófið. Við ákveðum hvert á að fara. Íbúð Hilmirs verður fyrir valinu. Ég stíg fastar á bensíngjöfina og brátt erum við komin. Við pössum upp á að ganga vel frá bílnum, tökum öll partýefni með okkur svo ekkert fari til spillis.

Við röðum okkur niður í ódýru sófana hans Hilmirs, rass við rass. „Þröngt mega sáttir sitja,“ segir einhver og við skálum fyrir fyrsta djamminu okkar saman þar sem enginn er driver og flestir á sama leveli. Bjórinn er þambaður, tekílastaupin látin ganga á milli og sígarettur reyktar. Hilmir opnar skáp og dregur fram í stofuljósið sex poka af amfetamíni. Einhver býr til línur handa öllum og ég sýg fast feitu línuna sem mér er gefin í tilefni afmælisins. Fatan bíður í einu horninu, svo gott sem ónotuð en tilbúin til að kynnast marijúanaplöntunni sem vex rólega gegnt henni í keramik blómapotti sem enginn þarf að skammast sín fyrir.

Ég lít á klukkuna og uppgötva að tíminn líður allt of hratt, brátt verður kominn tími til að fara niður í bæ. Þessi tilkynning kemur hinum ekki á óvart og nú eru dregnar fram e-töflur. Þetta er ekki hluti af afmælisgjöfinni minni, allir fá sinn skammt og nú ræður hver og einn sinni ferð um heiminn. Við erum þó sammála um að fara saman niður í bæ. Nelly’s verður fyrir valinu. Við dönsum, ég drekk bjór og reyni að svala því sem eftir varir af þorsta mínum í kossum ókunnugs manns. Klósettið er næsti áfangastaður. Önnur pilla gleypt, fjörið er sko rétt að byrja. Snertingarnar verða að alsælu, hvert sem ég horfi sé ég hamingju. Fólk geislar frá sér fullnægingu og tónlistin hvetur fólkið áfram í óskiljanlegri þörf fyrir að fylgja taktinum, svitna og…

Hilmir grípur í mig, eyðileggur hugsanir mínar og tilkynnir mér að við séum að fara. Ég er ekki alveg til í það, segist ætla að vera lengur. Við knúsumst og brátt stend ég ein eftir. Úti á götu. Fæturnir hreyfast eins og af tilviljun, stefnan er tekin á eitt af þeim húsum sem ég vil ekki heimsækja. Innst inni veit ég þó að þetta er rétt ákvörðun, rétta ákvörðunin er að hætta þessu öllu saman áður en það verður um seinan. Einhverra hluta vegna geng ég framhjá húsi bjargvættarins.

Á dimmum kvöldum dreymdi mig um að eiga einhvern að, einhvern sem ég gæti treyst og myndi elska mig skilyrðislaust þrátt fyrir að persóna mín sé hlaðin göllum. En nú, undir stjörnum prýddum himninum, virðist engin ást geta hjálpað. Tunglið beinir sviðsljósinu að mér og klettarnir mynda eins konar svið. Ég pæli í því hvort eitthvað sé þess virði að lifa fyrir. Ský ákveður að sviðsljósinu skuli beint annað og skyggir þannig á minn hinsta andardrátt.

- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -