Katrín yggldi sig geipilega. Svakalega var þetta rammur drykkur. Hún rétt saup á honum, náði rétt svo að kyngja og ullaði svo. Nei þetta langaði henni ekki. Fólkið allt í kringum hana virtist ekki hafa álíka óbeit á sínum drykkjum. Sumir höfðu há glær glös með litríkum vökvum og augljóst var af andlitsvipnum að um unaðslega sætar veigar var að ræða. Á meðan sumir supu af áfergju löptu flestir upp seyðið sitt eins og það væri ósköp ómerkilegt. En Katrín sá að engan hryllti eins og henni við drykknum sínum.

Katrín prófaði að smakka aftur. Kannski höfðu þetta bara verið fyrstu viðbrögð. Allt kom fyrir ekki, þetta sull var ódrekkandi. Hún staldraði við og athugaði hvort henni yrði ekki fært eitthvað skárra.

Inn um bakdyrnar var sífellt að bera inn nýja drykki, en þeim var aldeilis ekki skipt jafnt. Á öskotsstundu var borðið hjá fáeinum heppnum orðið fullt af allskyns ílátum og fólkið bragðaði af hinu og þessu , hélt því sem það þótti gott en fúlsaði við öðru. Katrín var ekki svo heppin. Hún sat uppi með drykkinn sem hún hafði komið með inn í matsalinn. Þjónanir komu sjaldan í þann hluta herbergisins sem hún var í og aldrei nálægt henni.

Hún horfði ofan í könnuna sína. Það gruggugt vatnið og undarlegur litur á því. Hún prufaði að hræra í því en þá gaus upp þessi ægilega ólykt, svo hún þorði því ekki aftur. Henni datt ekki til hugar að bera ógeðisdrykkinn aftur upp að vörum sér.

Þegar fólkið hafði klárað drykkina sína var þeim hleypt út um glæsilegan gang og yfir í næsta sal. Menn voru misfljótir en brátt fór þó að fækka í hópnum.

Katrínu leiddist þófið. Henni var farið að langa að halda áfram. Með hönd undir kinn starði hún yfir salin. Þeir sem höfðu fengið eitthvað almennilegt í glösin sín voru löngu farin. Fólkið sem var eftir reyndi að pína sig til að þamba sullið sitt en gekk hálf brösulega. Þjónarnir voru að mestu hættir að koma hingað inn. Þó var einn og einn sem fékk skenkað nýjum drykk af og til. Þeir voru ekkert endilega betri.

Konan á næsta borði við Katrínu fékk skyndilega nýtt glas til sín. Katrín horfði furðu lostin og öfundssjúk á. Hún hafði aldrei séð þjón svona nálægt áður. Vantrúa smakkaði konan á drykknum og ljómaði svo öll. Þessi var sko góður. Hún naut þess að sötra hann til botns.

Þegar Katrín áttaði sig á því að þjóninn ætlaði að láta sig hverfa að svo stöddu varð hún æf og hljóp á eftir honum. Hann hélt á bakka fyrir framan sig með allskyns könnum og flöskum sem glitraði á. Hún greip í handlegginn á honum en þá færði hann bakkann yfir á hina höndina og hátt upp í loft þar sem Katrín náði ekki til. Katrín þjösnaðist á honum ósköp býsn en hann var eins og drumbur og hún fékk honum ekki haggað. Fólkið í kring fylgdist með sorgmædd á aðfarir hennar. Að lokum gafst hún upp, hún sá að þetta var ekki til neins. Sneypt sneri hún til baka til borðs síns.

Mikið var tíminn lengi að líða.

Hún prófaði að fá sér súp af og til en þetta var bragð sem aldrei vandist. Aðeins örfáar hræður voru eftir í salnum.

Menn voru farnir að grípa til ýmissa ráða. Fólk sem hafði fleiri en einn ógeðisdrykk á borðinu prófaði sig áfram með hina ýmsar blöndur, á meðan aðrir reyndu að skiptast á drykkjum og þreifuðu sig áfram með hinar ýmsu útgáfur. Katrín var afskekkt og þekkti engan til að brasa með. Hún gat ekkert gert. Skelfd leit hún á glasið sitt og sá að hún var bara búin með rétt tíunda part.Flestir hinna voru búnir með að minnsta kosti helminginn. Hún var dæmd til að dúsa þarna til eilífaðarnóns!

Hún var öll orðin svo dofin og ákvað að þetta væri hætt að skipta neinu máli, hún gæti allt eins reynt að þamba þetta bara nógu fljótt og þá myndi hún vara finna mikið bragð.
Hún gerði þetta. Hún saup og saup en ekkert gekk. Tungan dofnaði fljótlega og munnurinn allur fann varla fyrir ólgandi drykknum en það breytti engu. Sjálfur líkami hennar hafnaði þessu öli. Barkinn og maginn kipptust til og reyndi að þröngva þessu upp úr henni aftur. Loks gat hún ekki meir, henni fannst hana þurfa að æla, hætti að súpa, sleppti glasinu og það leið yfir hana. Þetta hafði verið það viðbjóðslegasta sem hún hafði upplifað.

Þegar hún rankaði við sér voru enn færri í salnum. Sér til mikillar gleði sá hún að tveir þriðju af drykknum hennar var horfinn. Verst var að hún gat ekki hugsað sér að bragða á honum aftur þó liði heil öld. Hún starði upp í loftið og reyndi að láta sér detta eitthvað í hug.

Það var liðið miklu skemur en ein öld þegar hún áttaði sig á því að hún hafði engra annarra kosta völ en að byrja að drekka aftur. Þessi kvöð var henni þungbær. Þegar hún hafði læst báðum höndum um bikarinn og hugðist lyfta honum fann hún skyndilega til máttleysis. Hún megnaði ekki að lyfta þessum bölvaða kaleik. Þetta þýddi ekkert. Hún sleppti aftur.

Uppgefin leit hún í kringum sig. Fólk var eins og í eigin heimi, hvert fyrir sig, að bjástra við það að teiga síðustu leifarnar. Katrínu var nóg boðið.

Hún lyfti upp bikarnum og þótt hún megnaði ekki að bera hann að vörum sínum þá hafði hún meira en næga krafta til þess að gera það sem löngun hennar stefndi. Smá saman hallaði hún glasinu frá sér og drykkurinn rambaði á glas brúninni. Hugfangin fylgdist hún með því þegar vökvinn ruddist loks yfir brúnina og bunaði fallega niður á gólf. En þegar fyrsti dropinn snerti gólfið var eins og hún hrykki úr leiðslu við það að skyndilega þagnarbylgja skylli á henni. Hún kippti að sér höndum og hætti að sóa drykknum.

Allir í salnum horfðu á hana. Fólk var bálreitt. Sumir bentu. Hún var svindlari. Ekki svindla! Við erum ekki að svindla. Þú skalt ekki heldur svindla. Engin hefur svindlað og enginn má svindla. Hún skyldi eins og allir aðrir teyga sinn beiska bikar til botns. Skömmustuleg hvarf Katrín frá fyrirætlunum sínum. Hún réð ekki við þvílíka magnfyrirlitningu samborga sinna.

Það tók skömmustutilfinninguna smá stund að fjara út. Þá greip hana ofsabræði. Hvað var þetta fólk, sem þekkti hana ekki neitt, að þykjast geta dæmt hana? Þessir aumingjar sem rembuðust enn við það að klára að sötra drykkina sína þótt engin þeirra hefði hálft eins vondan drykk og hún. Þetta fólk var aumingjar. Engin gat skilið hversu viðbjóðslegur hennar drykkur var.

Hún öskraði eitthvað að því og lamdi í borðið. Engin virtist hlusta. Í ofboði þusti hún borð frá borði og reyndi að ná athygli einhvers. Engin veitti henni hana. Sumir sussuðu þó á hana.

Henni langaði til að gefast upp en henni fannst eins og hún væri búin að gefast of mikið upp undanfarið. Hér skyldi hún ekki hætta fyrr en í fulla hnefana. Ef hún héldi bara áfram þá myndi hana takast að komast upp á sporið á ný.

Hún sat við stól langt frá eigin borði og dottaði. Við hliðin á henni sat gömul kona sem umlukti með vörunum rör sem lá ofan í drykkinn hennar. Vökvinn rann hægt upp úr og niður í kok. Svo hægt að ekki var hægt að sjá hreyfinguna nema sitja svo klukkustundum skipti.

Katrín vaknaði við það að ungur maður bærði við öxlina á henni. Hún leit við. Þetta var myndarlegur unglegur maður.

“Hver ert þú? Þú ert ekki með í keppninni,” sagði hún undrandi, hún hafði aldrei séð hann áður.

“Jú ég er með,” sagði hann rólegur í fasi, “Ég held að engin komist hjá því að vera með.”

“En hvar er þá drykkurinn þinn?” spurði Katrín. Hún var svolítið rugluð svona nývöknuð.

“Hann bíður á borðinu mínu. Mér liggur ekkert á.” Sagði maðurinn og benti á borðið sitt lengst hinum megin í salnum. Þessi salur var greinilega stærri en hann leit út fyrir að vera.

“Langar þig ekki til að komast út?” spurði Katrín.

“Kannski,” sagði hann hugsi. “Á hinn bóginn þá veit ég ekkert hvaða þraut bíður mín hinum meginn. Ég er ekkert að flýta mér. Mér finnst skemmtilegast að kynnast fólkinu.”

Katrín horfði hugsani í augun á honum. Hún hafði aldrei hugsað það þannig. Henni hafði aldrei langað til að kynnast fólkinu betur. Hún hafði einbeitt sér svo að því að komast í næsta herbergi.

“Hefur þér aldrei langað til að kynnast hinu fólkinu?” spurði hann hana.

Hún þagði eitt andartak. “Mig langar allavegna til að kynnast þér,” sagði hún.

Katrín færði borðið sitt upp að hans. Hún þurfti að ýta því í gegnum allan salinn og það ískraði skelfilega í því. En henni var alveg sama. Á hans borði voru tvö glös. Annað var stór kanna með drykk sem var af svipuðu tagi og hennar nema bara grænleitur. Hitt var ósköp venjulegt mjólkurglas. Drykkurinn í því var ekkert sérlega fráhrindandi.

Hann var búin með meira en hún. Af ógeðisdrykknum var aðeins u.þ.b tíundipartur eftir. Hitt glasið var ennþá hálffullt. Eða hálftómt, það fer eftir því hvernig þú lítur á það.
Þess auki var hann með stóra vatnskönnu á borðinu. Hún var tiltölulega ósnert.

Það rifjaðist þá upp fyrir Katrínu að hún hafði líka verið með vatnskönnu upphaflega en hafði verið löngu búin að gleyma. Henni hafði ekki þótt það merkilegt þá en þessi uppgötvun var henni núna stórtíðindi.

Hann leyfði henni að dreypa á báðum drykkjunum. Drykkurinn sem líktist hennar gerði það ekki af ástæðulausu. Hann bragðaðist eins og hennar. Hún gat ekki fengið nema örlítið. Hinn drykkurinn var miklu betri. Henni hefði kannski fundist hann ógeðslegur einu sinni, en núna, í samaburði við drykkinn sem hún hafði setið uppi með svo lengi, smakkaðist hann eins og dýrindis vín. Hún gat samt ekki heldur fengið sér nema örlítið af honum, henni fannst ekki viðeigandi að stela drykknum hans.

“Þessi er miklu betri,” sagði hún.
Hann kinkaði kolli. “Já það er satt.”

Hún horfði á hann. “Af hverju ertu ekki löngu búin með hann?”

“Ég veit það varla,” sagði hann. “Og þó, jú. Mér finnst eins og ég þurfi að bíða með hann. Í fyrsta lagi er alltaf gott að bíða með það besta þar til síðast. Þar að auki hef ég alltaf langað til að deila þessari gersemi með einhverjum. Það gerir dýrgripin svo miklu verðmætari…”

Katrín fannst það hljóma satt. Hún bauð honum að súpa af sínu seyði.

Hann drakk teig án þess að skipta um svip. Hann kyngdi.

“Ekki sem verst,” sagði hann svo.

Ekki sem verst?! Katrín vissi varla hvort hún ætti að vera móðguð eða ekki.

“Mér finnst hann ógeðslegur,” sagði hún lágt.

“Tja, hann er ekkert sérlega geðslegur, það er rétt,”svaraði hann. Hún vissi ekki hvort hann væri bara að reyna vera henni til geðs eða hvort hann meinti þetta.

Salurinn var orðin svo fámennur að skvaldrið sem áður hafði verið stöðugt var nú nærri þagnað. En Katrínu hefði einhvern tíman verið meira sama. Hún naut þess svo að vera nálægt þessum pilt, sem hún vissi ekki hvað héti, að hún var hætt að flýta sér.

“Hefurðu prófað að blanda saman drykkjunum þínum?” spurði Katrín.

“Nei, heldurðu að það sé gott?”

Þau byrjuðu á því að prófa að setja eins og einn dropa af af góða drykknum í þann vonda. Hann smakkaði útkomuna.

“Þetta er bara býsna gott,” sagði hann.

“Betra eða verra en áður?” spurði hún.

“Betra en báðir drykkirnir til samans,” sagði hann og brosti.

Hann tók góða drykkinn og hellti restinni út í leifarnar af vonda drykkinum. Afraksturinn tók á sig bleikan og væmin lit. Heillandi lit.

“Smakka þú nú,” sagði hann.

Hann færði ílátið upp til hennar og hún smakkaði. Drykkurinn var yndislegur. Aðra eins himnaríkissælu hafði hún aldrei upplifað. Hún svolgraði.
Fyrr en varir rann síðasti dropinn inn fyrir varir hennar. Hún iðraðist þess jafnskjótan.

“Fyrirgefðu, ég ætlaði ekki að klára,” sagði hún skelfingu lostin. Hann horfði á hana hamingjusamur.

“Þetta er allt í lagi,” sagði hann. “ Fannst þér þetta ekki gott?” spurði hann.

Hún kinkaði kolli skömmustuleg.

“Þá er þetta í lagi.”

Inn í salin birtist allt í einu vera sem hafði ekki sést í háa herrans tíð. Katrín var næstum búin að gleyma tilvist þjónanna. Virðulega kom þjóninn aðvífandi og byrjaði að færa tóm glös piltsins upp á bakkann og svo út úr salnum. Hugsanlega til uppþvottar.

“Þér verður boðið úr herberginu núna,” sagði Katrín við hann.

Hann horfði hugsi á hana.

“Það þýðir ekkert að gera við því,” sagði hann.

“Ætlarðu ekki að berjast?” sagði hún svikin.

“Til hvers?” sagði hann. “Við endum öll hinum megin á endanum. Við hljótum að sjást aftur.”

Þjóninn birtist aftur. Hann hafði opnað aðalútganginn og stóð nú og starði þennan kærasta vin Katrínu. Með semingi stóð hann upp og fylgdi þjóninum. Katrín elti.
Hún reyndi að snerta hann í síðasta sinn, en þjóninn kom alltaf á milli þeirra, úr hvað átt sem hún kom. Og þegar þjóninn fylgdi honum yfir þröskuldinn þá reyndi hún að smeygja sér með. Hún hafði séð marga reyna það áður og vissi að það var tilgangslaust. En samt reyndi hún.

Þeir voru of snöggir. Hurðin skall fyrir framan nefið á henni.

Hún settist og starði ofan í dreggjarnar af sínum drykk. Yfirmáta af sorg fannst henni að hún hlyti að geta klárað drykkinn núna, eftir allt sem hafði skeð, til þess að hitta vin sinn aftur. En hún gat það ekki.

Klökk reyndi hún, en gat ekki. Hún fór að háskæla og tárin streymdu út í drykkinn.

Í ævintýrunum væri þetta augnablikið sem töfrarnir gerast. Tárin gætu kannski lagað þennan viðbjóðslega ódrykk og sameinað þessa ungu elskendur. En þannig er það ekki í veruleikanum. Katrín smakkaði drykkinn og tárin höfðu einungis gert drykkinn saltari.
Hún frussaði. Það vantaði ekki meira saltbragð.

Hún fussaði. Bölvaði og ragnaði.

Mikið var tíminn lengi að líða.

Hún var ein eftir í salnum. Hún hafði verið jafnlengi ein í salnum eins og hún hafði áður verið í fylgd annarra. Lengur kannski. Hún hafði voða lítið skynbragð á tíma lengur.

Hún hafði prófað að blanda vatni úr vatnskönnunni hans út í drykkinn sinn. En það þynnti bara drykkinn. Hann var jafn ógeðslegur og áður. Bragðið var eins. Eina sem þetta hafði í för með sér var að það varð meira af drykknum sem þýddi að hún var lengur að drekka hann.

Einangrunin og þráhyggjan vöfðu sig utan um hana. Hún hugsaði með sér að ef einhver hefði verið með henni til samanburðar mætti kannski segja að hún væri orðin geðveik. En því var ekki að dreifa og það að tala um geðveiki var meiningarlaus í einsemdinni. Einhvern tíman hafði henni fundist eins og hún gæti ekki drukkið þennan drykk þótt hún fengi heila öld til þess. Nú hló hún að minningunni og óskaði sér þess sárt að hún hefði bara þurft að bíða í heila öld.

Minnið var farið að gefa sig. Hún var búin að gleyma því hvernig hún hafði lent í þessum sal. Hún var búin að gleyma afhverju. Hún var búin að gleyma sjálfri sér. Hún mundi bara tvennt. Sterk logandi minning um bölvaðan kaleik sem aldrei kláraðist. Hann var sem brenndur innan á augnlokin hennar ef hún lokaði augunum. Og daufgerð en falleg minning um indælan pilt sem eitt sinn var.

Nú beið hún bara eftir einhverju stórkostlegu kraftaverki. Einhverju mikilfenglegt hlyti að gerast. Hún óttaðist samt ekki andstæðuna. Hún lifði í andstæðuna. Hún kvaldist.

En þá gerðist eitthvað. Það var ekki stórkostlegt. Það var ekki mikilfenglegt. Hún hafði milljón sinnum þóst ætlað að drekka afganginn. Stundum hafði hún verið nálægt því. Oftast langt frá því. Hún mundi ekki hvort hún hafði verið nálægt því eða langt frá því í þetta skiptið. Hún hafði verið mjög nálægt því. Svo nálægt því að nær verður ekki komist.

Hún komst til meðvitundar þegar hún varð var við að stór þjónn stóð yfir henni. Þetta var eins og draumur en hún vissi að henni dreymdi aldrei neitt. Hissa leit hún á bikarinn sinn. Hann var tómur!

Fann hún til gleði? Leið henni loksins vel? Katrín var of dofin til að finna til neins nema daufrar tilfinningar sem gat allt eins verið þrá eins og von.
Of máttfarin til að standa upp studdi þjónninn hana á fætur og leiddi hana út ganginn.

Hurðin opnaðist.

Katrín fór yfir þröskuldinn.

Sagan er ekki búin.

Hinum megin var nýr salur. Hann var gjörólíkur þeim fyrri en Katrínu fannst samt eins og þetta væri sami salurinn. Í honum var ekki sála.

“Hvar eru allir?” spurði hún gráti næst.

“Þú ert farin að dragast aftur úr,” sagði þjóninn. Hann sagði ekki meir. Þetta var í fyrsta skipti og það síðasta í bili sem Katrín heyrði þjón segja eitthvað.

Henni var boðið sæti á ný. Fyrir framan hana var nýr bikar. Hann var fullur af sama drykk og áður.

Þjóninn var horfinn. Eilífðin er ung.