Norður yfir Atlantshafi lækkaði Boeing MD-90 vél flugið yfir litlu, snjóþöktu skeri sem virtist að öllu leiti óbyggjanlegt.

Stúlkan í sæti 21B settist upp við dogg. Hvað hafði hún sofið lengi? Hún leit út um gluggann. Fyrir neðan sá hún hvíta snjóbreiðu rísa upp úr hafinu. Ekki var ský að sjá svo langt sem augað eygði.

Augu hennar rannsökuðu snjóbreiðuna. Hún greindi fjöll og vegi hér og þar, flugvélin var enn of hátt uppi til þess að sjá fólk enda var örugglega fátt um manninn á kreiki þarna niðri á þessum tíma. Þar sem hún sat og rannsakaði heimaland sitt fann hún til sektarkenndar, var hún að bregðast löndum sínum?

Hún leit aftur niður á kalda snjóbreiðuna og gat ekki stöðvað hlýjutilfinninguna sem streymdi yfir hana; hér átti hún heima. Hér, á þessu litla skeri norður í Atlantshafi. Hér, þar sem veðuröflin ráða ríkjum, heilar eyjur verða eldgosum að bráð, geitungastofnar deyja út á einu vori vegna kulda, kotbændur brenna skít til að halda á sér hita og víkingar gera út glæpastarfsemi sem nær yfir alla Evrópu. Eða svona næstum, allaveganna.

Já, hún gat verið stolt af því að vera Íslendingur.

Nú hafði flugvélin lækkað flugið talsvert meira. Hún greindi það sem hún gerði ráð fyrir að væri Keflavík, svo sveif vélin niður og lenti mjúklega á upphitaðri flugbrautinni.

,,Góðir farþegar flugs F1 503 frá Amsterdam, það er flugstjórinn sem talar. Velkomin heim. Úti er sjö stiga frost og heiðskýrt. Klukkan er…” Flugstjórinn hélt áfram með sína hefðbundnu ræðu og endurtók hana síðan á ensku fyrir ráðvillta túristana sem höfðu ekki skili orð af íslenskunni.

Íslenskir farþegar vélarinnar stigu fagmannlega úr sætum sínum og sóttu handfarangurinn í handfarangursgeymslurnar eins og þeir hefðu ekki gert annað allt sitt líf. Einstaka túristi sást renna dúnúlpunni upp og horfa forviða á jakkafataklædda Íslendingana sem virtust ekki hafa neinar áhyggjur af því að koma sér úr flugvélinni og inn í flugstöðina, eins og það væru einhver svona töfragöng sem lægju á milli vélarinnar og stöðvarinnar sem fólk gæti bara gengið í gegnum án þess að verða fyrir frostinu og rokinu fyrir utan.

Hún var ekki stöðvuð í tollunum.

Fyrir utan flughöfnina reif rokið í hárið á henni og élið skall á kinnum hennar. Hún hneppti kápunni, dró andann djúpt og rúllaði svo hlaðinni ferðatöskunni að bíl sem beið hennar fyrir utan. Hún kinkaði kolli til bílstjórans, opnaði skottið og setti ferðatöskuna inn. Síðan gekk hún að flugrútunni, borgaði bílstjóranum og settist sjálf inn í hana. Hún varp öndinni léttar.

Niðri á skerinu sem virtist að mestu leyti óbyggjanlegt brunaði bíll frá Keflavík í átt að Reykjavík. Nokkrum kílómetrum fyrir aftan hann sat stúlka í rútu á sömu leið. Hún horfði yfir hraunið og gat ekki stillt sig. Gott að vera komin heim.