Hrein hamingja Hvernig varð allt svona gott? Hvenær? Allt í einu gat ég hætt að hafa áhyggjur af pabba og öðrum. Bara allt í einu si sona.
Undanfarið hefur margt gott gerst í einu í lífi mínu, svo ég fór að hugsa hvort að þetta væri ekki of gott til að vera satt? Ég vona ekki, því mér líkar hvernig allt er núna. Pabbi loksins hættur að valda mér kvíða og áhyggjum. Erfiðleikar sambandsins loksins að baki, ég og mamma betri vinkonur en við höfum nokkurn tíman verið.
Ég ætla að segja ykkur frá þeim degi sem allt varð gott.
Það var sól og virkilega gott veður. Ég vaknaði með kvíða en tilhlökkun í maganum. Smá fiðrildi. Ég var að verða stúdent.. Mér tókst það. Eftir erfitt nám tókst mér þetta. Þó að mér hafi oft langað til að gefast upp og umhverfið gerði ekkert betra þá tókst mér þetta. Ég var svo stolt af mér. Ég fór með mömmu og litlu systur í kirkjuna. Og þar sá ég hann, klettinn minn. Sem var mættur eingöngu til þess að sjá mig útskrifast. Athöfnin var ákaflega falleg.
Myndatakan heppnaðist vel því að veðrið var svo gott. Ég var ekki enn að trúa þessu. Átti ég allt þetta skilið? Eftir mörg erfið ár og mörg áföll, gat ég virkilega átt þetta allt skilið.
Svo var það veislan, mikið var af fólki og allir þar til að samgleðjast mér. Mikið var ég ánægð, svo ég tali nú ekki um gjafirnar.
Þegar kvöldið kom með sitjandi sól sem lýsti upp himininn með rauðri birtu sinni hélt ég heim á leið, sátt, södd og ástfangin. Ég lagðist upp í rúm með kærastanum mínum og mér leið svo vel. Einhver friður sem ekki hafði komið yfir mig í mörg ár.
Ég elskaði hann svo mikið, og ég vissi að sú ást var endurgoldin. Ég trúði því ekki að ég gæti átt þetta allt skilið, það hlaut að vera eitthvað bogið við þetta. Eitthvað vont á eftir að gerast.
Og ég get sagt ykkur það að ég er enn að bíða eftir þessu vonda því að dagarnir eftir þetta hafa verið enn æðislegri. Mér finnst ég svo elskuð, virt og falleg. Sjálfstraustið er alveg í hámarki og það er ekkert sem getur spillt hamingju minni. Ég hafði ekki verið svona glöð síðan ég útskrifaðist úr grunnskóla.
Hjarta mitt var svo hreint og friðsælt og ég hugsaði ekki um annað en hann. Hann var allt sem ég átti á mínum erfiðu tímum og hann var minn klettur. Sá eini sem virkilega skildi mig, virkilega elskaði mig, alveg skilyrðislaust. Ekkert fær lýst þeirri hamingju sem breiðist um hjarta mitt þegar ég heyri rödd hans og tala um hann. Og þegar ég hitti hann get ég varla tekið augu mín af honum.
Ég held að það geti tengst því að ég er að skilja sjálfa mig betur. Lifðu og leyfðu öðrum að lifa er mitt mottó. Nú tek ég einn dag í einu og prísa mig sæla fyrir hvern dag sem ég fæ að vera hér í þessu með elskunni minni og besta vini.