Þegar að ég opna enn eina kommóðuskúffuna finn ég enn á ný einmannaleikann hellast yfir mig. Það er erfiðara en ég hélt að fara í gegnum gamalt dót og henda. Ég tími ekki að henda neinu, það er tómur ruslapoki á gólfinu jafnvel þótt að ég sé búin að fara í gegnum eiginlega allar skúffurnar með öllum gömlu bréfunum, myndunum og smádótinu sem hafa tilfinningalegt gildi.

Ég verð að herða mig, ég verð að henda einhverju. Ég get ekki flutt með þetta allt og þar að auki hjálpar það mér að halda áfram ef að ég losa mig við gamalt dót sem að minnir mig á gamla tíma á hverjum eina og einasta degi.

Ég opna eitt afmæliskortið. Það er frá pabba síðan ég varð 12ára. Núna er pabbi farinn. Kortið endar í ruslinu.
Ég rifja upp skilnað mömmu og pabba, ég var ekki nema 10 ára, en eldri bróðir minn var 12. Pabbi hélt einu sinni framhjá mömmu…þá fékk mamma nóg eftir 18 ár af barsmíðum og lygum og hún flúði með okkur systkinin heim til ömmu og afa.
Þótt að pabbi hafi aldrei lagt hendur á mig eða bróðir minn, hataði bróðir minn hann meira en allt annað. Ég var alltaf hændari að honum, litla pabbastelpan.

Við bjuggum heima hjá ömmu og afa í hálft ár áður en mamma sótti um skilnað, sem hún fékk semog fullt forræði yfir mér og bróðir mínum. Það leið þó ekki á löngu áður en bróðir minn fór í heimavistarskóla útá landi, og kom aldrei heim nema á jólum og páskum. Hann sagði mér seinna að hann hafði einfaldlega fengið nóg af mömmu og ekki viljað vera hjá henni lengur, en hann saknaði mín sárt á hverjum degi.

Ég skildi aldrei hvað bróðir mínum var svona illa við mömmu, en þegar að ég hugsa til þess í dag skil ég hann. Henni var sama. Hún var ekki eins og þessar mömmur sem að setja útivistarreglur eða þannig, nei, henni var alveg drullusama um hann bróðir minn. Hann hefði mátt rotna í helvíti, henni var sama. Ég held að það hafi verið vegna þess að hann líktist pabba meira og meira með hverjum deginum, utan við barsmíðarnar og lygarnar. Hann var sami fjörkálfurinn, langoftast brosandi og með skemmtilegar sögur og brandara. Hann var ætíð hrókur alls fagnaðar og allir dýrkuðu hann. Mamma gat ekki gengið í gegnum það aftur. Þá var ég 14 ára.
Svo dó pabbi í bílslysi og mamma fyrirfór sér 2 árum síðar. Núna eru liðin 8 ár síðan pabbi dó.

Ég helli öllu innihaldinu úr þessari skúffu í ruslið, þetta eru allt saman bréf eða kort frá pabba. Ég finn núna hvað ég hataði hann mikið, en elskaði á sama tíma.

Í næstu skúffu eru fermingarkort, þau geymi ég.

Ég lít upp og andvarpa, þetta er erfitt. Þá rek ég augun í gamla ljósmynd af okkur mömmu, pabba og bróðir mínum saman skælbrosandi. Ég hugsa með mér að þessa verði að ramma inn.

Þrátt fyrir allt eru þau mín eina og sanna fjölskylda og fjölskyldan skiptir öllu máli. Ég ákveð að finna fallegan ramma utan um þessa mynd, og hengja hana við hliðina á myndinni af mér, manninum mínum og litlu dóttur minni fyrir ofan rúmið.

Ég stend upp því dyrabjallan var að hringja. Bróðir minn er komin með konuna sína og litla guttann í mat.
Ég opna hurðina og það fyrsta sem að ég sé er risastór marblettur á kinninni á konunni hans. Ég finn hatrið gagnvart bróður mínum myndast og reiðin sýður innan í mér.
Hann er eins og pabbi.
Ég spyr hvað gerðist og svarið sem að ég fæ er “Ó, þetta. Þetta er ekkert, ég datt í stiganum heima.”

Það er ekki stigi heima hjá þeim.
———–

endilega segja hvað ykkur finnst og hvað má gera betur :)