Inngangur: Leiðin til Suður Ameríku

Þetta ferðabrölt hófst árið 2000. Þá þegar ég og félagi minn Guðmundur Þór fórum tveir um Austur Evrópu í þrjá mánuði með ekkert nema litlar skólatöskur í eftirdragi. Með fátt klæða til skiptanna og litla peninga keyptum við okkur Interrail miða og þvældumst um með lestum niður eftir álfu frá Tékklandi, Búlgaríu, Rúmeníu, Slóveníu og suður til Ítalíu og Grikklands. Þá þegar við vorum nær rændir aleigunni, gasaðir í lest til Póllands, þá þegar við sváfum hríðskjálfandi á ströndum Ítalíu, þá þegar við þrifum okkur ekki nema til þess eins að setja aftur utan á okkur sömu skítuga larfana, þá uppgötvuðum við hið stórkostlega frelsi þess að ferðast um heiminn. Því erfiðara, því meir sem blés á móti, því meir virtumst við njóta ferðarinnar. Þá þegar við hlupum undan Rúmönskum steraboltum sem þóttust vera lögreglumenn, þá þegar við gengum í sólarhring frá Slóveníu yfir landamærin til Ítalíu, þá þegar við horfðum agndofa upp á Rómverskar rústir, þá skyldist okkur að túristaferð yrði aldrei nema hálfdrættingur slíkra ævintýra. Þar höfðum við fundið ferðaháttinn, æsispennandi og kvikan, og höfum ekki skilið við hann síðan.
Ég fór síðan um gjörvalla Evrópu í tvígang með ólíklegustu ferðafélögum en för sú næsta er við Guðmundur fórum saman var til Mið-Austurlanda. Þar fórum við á puttanum suður með Egyptalandi, í gegnum eyðimörkina fótgangandi og sátum að veigum með Bedúum, klæddumst arabískum síðkuflum og riðum um á kameldýrum. Hluta ferðar fórum við aftan í asnakerru, hluta ferðar sigldum við á seglskútu upp eftir Níl, hluta ferðar tröðkuðum við á tveimur jafnfljótum um Jórdaníu og Sýrland. Vitaskuld eru þetta aðeins brot til að bregða ljósi á þennan ferðaháttinn, þann sama og hafði kveikt í mér útþrá þegar hér er komið við sögu.
Í ferð minni til Færeyja með norrænu árið 2002 hitti ég fyrir ævintýramanninn Raphael frá Sviss. Hann hafði verið á farandsfæti í tólf ár og nýverið starfað við bústörf á Íslandi. Þegar við sigldum saman yfir Atlantshafið var hann á leið heim til að vera viðstaddur brúðkaup æskuvinar síns. Eftir stutt stopp í Sviss var hann svo á leið í næsta ævintýr. Fleiri slíka hef ég rekist á þó auðvitað marki þessir menn öfga ferðamennskunnar, þeir hafa löngum misst rætur við heimahagana og eru orðnir farandverkamenn á sífelldu flakki. Þeir vinna á milli ferðalaganna einungis til að safna nógu fé til að geta lagst í næstu ferð. Raphael starfaði yfirleitt við bústörf, á meðan aðrir vinna á börum, gistiheimilum eða öðrum þeim starfa er reynist auðvelt að sinna til skamms tíma. Það sem flestir ferðalangar eiga sammerkt er að þeir óska sér einskis meir en að snúa aftur til ævintýranna. Þó þeir fari af og til aftur til heimahaganna, til vinnu, skóla eða annarra skylduverka, blundar þráin í þeim, vex með tímanum þar til óbærilegt er að sitja lengur á sér. Raphael hafði farið ferð um Argentínu. Keypt sér hest og riðið um sveitir og lifað af landinu. Sögur af ævintýrum hans kveiktu í mér draumsýn um álfuna, frelsisins að vera einn með sjálfum sér og hrossi, fara hvert þangað sem hugurinn æskir og ríða inn á ósnerta staði lausa við túrisma.
Undanfari þess er ég fór til Suður-Ameríku var hinsvegar flakk mitt um Norður-Ameríku. Þar hafði ég ferðast á puttanum þvert yfir Kanada, næst stærsta lands í heimi, og lent í ótal ævintýrum. Er ég hafði farið frá Atlantshafi til Kyrrahafs, húkkað far með yfir sjötíu farskjótum og hitt fyrir fullt af furðulegu fólki, hélt ég niður vesturströnd Bandaríkjanna og inn í Mexíkó. Þegar ég heimsótti í ferð þessari indíánabyggðir uppi við landamæri Alaska var menning frumbyggja löngum horfin, vestræn gildi búin að lærast þeim og blóðið það útþynnt að ég gat ekki betur séð en að þeir væru hvítir margir hverjir á hörund. Það vissi ég þá að ég yrði að heimsækja Suður-Ameríku til að sjá og upplifa arfleifð indíána. Þar í álfu væri að finna ógrynni af áhugaverðustu rústum, náttúruundrum og einhverjum litríkustu kúlturum þessa heims. Machu Picchu, Amazon, Andezfjöllin, Iquazu fossarnir og ekki síst eldheitur suðrænn Salsa.
Það var þannig sem ég ákvað að halda út í Víking, með 60 lítra bakpoka og íslenskt Brennivín. Engar áætlanir né ferðaplön lágu fyrir, bara óljósar hugmyndir. Ég ákvað að spila þetta dag frá degi líkt og sannur flakkari. Þá þegar ég rís úr rekkju á hverjum stað, þá læt ég lappirnar leiða mig að næsta áfangastað.
Um heiminn fer heil kynslóð af ferðalöngum, hún hefur risið upp í kjölfar brautryðjenda ævintýramennskunnar á borð við Jack Kerouc, Erneste “Che” Guivara og fleiri er ég þekki ekki með nafni. Með bakpoka og takmarkaða aura, vegabréf og ævintýraþrá hefur orðið til ný tegund af massa túrisma. Það hafa risið upp farfuglaheimili, samkunduhús flakkara, þar sem fólk deilir rými, eldhúsaðstöðu og sögum af förnum vegi. Það erum við er þrömmum um heiminn í hópi tugþúsunda á ári hverju, jafnvel milljóna ef allt er með talið, í viðleitni til að sjá og heyra óm ólíkra menningarheima, ganga upp hæðirnar þar sem mannkynssagan varð til, skoða staðina er ólguðu með fornu lífi og glæstar byggingar og rústir sem enn standa, eða heyra af þeim sögur sem horfnar eru af ágangi tímans, okkur fýsir í að fá upplifað undur þessa heims.
Ekki nýt ég þess að fljúga og alls ekki að húka í rútum svo klukkustundum skiptir, að ganga upp eftir fjalli másandi eða bíða á stoppistöð svo mér drepleiðist. Það er áfangastaðurinn sem helgar meðalið, það er grasið handan árinnar, gatan fyrir hornið, gullið í kistunni, það er þessi sífellda þörf á að opna dyrnar og sjá þann heim er leynist á bakvið löndin, kúlturinn og mannfólkið. Þetta er lífsstíll, list að lifa á veginum. Listin að fara um lönd í marga mánuði og eyða ekki miklu meiru en tveggja vikna Spánarferð kostar.
En illa stjórnar maður framvindu ferðar, best er að hafa lausan tauminn á fáknum og þeytast áfram eftir engi ævintýranna, fara þar um sem slóðin liggur í stað þess að berja hrossið áfram upp grjót og eyðilendi. Það nýtur sín enginn við það að hamast við að komast yfir óraunhæf skylduverkin. Regin málið er að njóta ferðarinnar, upplifa nýja staði og kynnast skemmtilegu fólki. Til hvers væri maður að þessu annars? Í leit að sjálfum sér? Að hlaupast undan veruleikanum? Eða kannski til þess að rasa út? Ég hef löngu gleymt því afhverju ég er enn á veginum. Þetta hefur meira þróast út í þrautsegju, líkt og mér finnist ég þurfa að sigra allan heiminn.
Út vil ek á ný og nú er bara að bíða átakanna. Húka heima í dösuðu kæruleysi þar til seglin eru upp dregin og skipin sigla suður.


Með viðkomu í Bandaríkjunum

Allar sögur verða að byrja einhverstaðar. Þessi hefst í sporunum er ég stend á flugvelli í Orlando og veifa fjölskyldunni. Tvær sólríkar vikur á sundlaugarbökkum Flórída eru á enda og kominn tími til að kveðja og óska þeim góðrar ferðar aftur heim til Íslands. Á meðan ég horfi á fjölskylduna fjarlægjast út eftir flugvellinum í hlykkjóttum ormagöngum að öryggisleit stend ég eftir einn með bakpokann. Aleiguna, fáein klæði og pungbelti spennt um mig miðjan undir vegabréf og peninga. Það hellist yfir mig sú staðreynd að héðan í frá þýðir enga linkind, framundan eru mánuðir óvissu, strits og flökkulífernis. Það fer um mig kitlandi spenningur, hríslast upp eftir mér svo ég fæ ekki varist gæsahúð, og upp rennur yfir mig sú vakning að ég er að halda út í ævintýr. Þegar þessum staðreyndum hefur verið ausið yfir mig stend ég enn í sporunum þó fjölskyldan sé löngu horfin úr augnsýn. Anda ofan í mig hugrekki og leita uppi rútufyrirtæki til að aka mér suður til South Beach, vinsællar ferðamannastrandar rétt út fyrir Miami borg. Þaðan flýg ég eftir tvær nætur til Suður-Ameríku.
Á leiðinni suður eftir því fylki sem kennt er við glóaldin (Orange county) kemst ég ekki hjá því að spyrja mig kaldhæðinn “Er ég í réttu landi?” því bæði farþegar og bílstjóri tala einvörðungu spænsku. Hér í Flórída er ég kominn hálfa leið til Suður-Ameríku, eða líkt og einn Kaninn orðar það “I don´t like Florida anymore, it´s becoming South America”. Hver einn og einasti í rútunni talar framandi tungu og ég fæ forsmekkinn af því að ég skil ekkert í málinu þó mér takist með herkjum að svara rútubílstjóranum þegar ég rétti honum töskuna “Sie, uno maleta”. Sofna með hangandi höfuð í klukkutíma í rútunni. Hina þrjá horfi ég á mínúturnar líða löturhægt á klukkunni. Maður gerir mikið af því að bíða í svona ferð þó sjaldan rati slíkar stundir á blað. Enga bók hef ég með mér til að stytta stundirnar svo ég fylgist með fólkinu í kring og landinu er þýtur hjá við rúðugluggann.
Við strendur South Beach í Miami eru háhýsi í hrúgum til að hýsa sólglaða túrista. Lúxuslífernið leynir sér ekki en hér er líka að finna ódýrt niðurnítt hostel. En það er hátt gjald sem greitt er fyrir sparsemina. Hostelið er pöddubæli, það er á svona stöðum sem nýir sjúkdómar verða til og ég er étinn af rúmpöddum eða moskítóflugum fyrstu nóttina. Eldhúsið morar í kakkalökkum og skít og er einnig notað sem hjólageymsla og ruslakompa. Hér búa heimilislausir í bland við ferðalanga, svo ég hrósa happi að vera með túristum í herbergi. Þeim getur maður yfirleitt treyst fyrir því að láta dótið manns í friði. Með mér í herbergi eru þrír Ástralir, vinir sem eru að hittast á hostelinu komandi úr sitthvorri áttinni. Einn þeirra er mættur til Miami, hann er af Indverskum uppruna og við ákveðum að fá okkur bjór á Írskum bar fyrir háttinn. Þar sitjum við rólegir og spjöllum og skoðum stelpurnar en þegar við snúum aftur upp á hostel eru tveir vinir hans komnir og farnir að sofa. Annar þeirra liggur nakinn í kojunni með tippið standandi út úr nærbuxunum, tattóveraður í bak og fyrir. Þannig er oft kúltið, menn eru frjálslegir á hostelunum og ekki síður konurnar sem oft stripla um berbrjósta í kynblönduðum vistarverum. Það er svo mikil molla fram eftir nóttu að enginn okkar sefur með neitt ofan á sér, en um miðja nótt kólnar lítillega og þá dugir þunnt lak til að verma kroppinn.
Það er varla hægt að afreka nokkurn skapaðan hlut í þessum hita, og ég hef fátt annað að gera daginn þann næsta en að bíða. Ét myglaða eplið mitt í viðleitni til að spara og sóa engum mat. En hörðnuðu brauðinu, smjörinu og restinni af vinberunum þarf ég að henda. Það væri fyrra að bera þetta með sér út í flugvél. Ég neyðist líka til að panta fimmtán dollara skutlu til að fara með mig á flugvöllinn eldsnemma næsta morgun. Sit á verönd hostelsins og dreymi um svalandi bjór. Það er heila planið, sitja hér og drekka og skrifa. Rabba við ferðalanga og fara svo snemma í kojuna, þaðan er fallið hátt og ekkert á hliðunum til að varna mér frá því að hrynja framaf og skella á gólfinu, eða töskunum, eða borðinu, allt eftir því hvar nákvæmlega ég rúlla fram af dýnunni. Það er mikið af skrautlegu útigangsfólki á götum úti. Einn er að hlera vatnsflösku, heldur henni upp að eyranu tómri og hlustar. Þegar ég kem til baka úr bankanum þar sem ég sótti mér dollara fyrir Suður Ameríku er hann kominn með svartan plastpoka um hausinn eins og arabaslæðu talandi við sjálfan sig í spegilmynd búðarglugga. Ég get ekki annað en tekið upp klingjandi silfrið mitt og gefið manninum. Það er mikið um blámenn sem hafa tapað vitinu ráfandi um, talandi um “Black Power” og “Brother” hitt og þetta. Tveir gamlir Ítalar ræða á leikrænan hátt lífið með pizzu í lúkunum en hér hefur mér fundist um helmingur tala spænsku eða aðrar tungur en þá ensku.
Ég hef sötrað bjór allan daginn í steikjandi sólinni bara til að halda vökva í líkamanum. Sit á verönd fyrir framan hostelið á hvítum garðstólum og fylgist með umhverfinu. Djöfull er bjórinn góður, Warsteiner bregst manni ekki á ögurstundu. Svartur maður kafar ofan í ræsið á götuhorninu og hvítir menn hlæja af honum. Ég get ekki varist að glotta yfir bláköldum húmornum.
Hjá mér sest Joey, góðhjartaður en greindarskertur strákur á svipuðum aldri og ég. Hann er að blaða í atvinnuauglýsingarnar á milli þess sem hann gefur mér heilræði um hvernig sé best að komast af á sem ódýrastan háttinn á götum Miami. Hann sat í þrjú og hálft ár í fangelsi fyrir dópsölu og flúði svo New York útaf kellingunni sinni, “hún var svo erfið” segir hann mér. Hann er einn af þessum heimilislausu sem hangir í kringum skítugt hostelið en sefur á ströndinni því það er víst leikur einn. Tveggja dollara hrísgrjónamáltíð með kjúkling og baunum er lýst fyrir mér í smáatriðum. Hann á víst ekki krónu og ég gef honum tvo dollara svo hann hætti að ræða matarbakkann við mig. Fínasti piltur, að vilja gerður, röddin eilítið þvoglumælt og varla veldur hann hvaða starfi sem er, spyr mig til að mynda með aðdáun hvort ég kunni að vera barþjónn. Amma hans er frá Napólí, Ítalíu. Hann segir að hún fussi á svertingja. Hann kom með svarta konu heim og hún sagði “What are you doing with that munjana in my house!”. Hvað sem munjana nú þýðir og svo bara talaði hún ítölsku og sagði honum að skila henni á þá ruslahauga sem hann fann hana á. “I am writing a book” svara ég þegar hann spyr mig hvað ég sé að gera. “You know, munjana is razism, my grandma is crazy”. Ég sé rasistann ömmuna fyrir mér og get ekki varist það a hlæja af þessum fúkyrðum.
“Everyone is spanish here, do you speak spanish?” spyr ég Joey
“I understand more japanese then spanish” segir hann og hlær. Kannski að þessi þrjú ár í jailinu fyrir dópsölu hafi skemmt hann svona en nú snertir hann ekki viðbjóðinn. Kellingin hans snappaði í New York og hann flúði frá “that fool” eins og hann kallar hana. Það sem kemur mér mest á óvart er nýja kærastan. Myndarstúlka, framagjörn með vinnu og íbúð. Þá finnst henni kannski gott að ráða ferðinni. Joey má móta eins og leir, og það er lítil hætta á því að hann yfirgefi hana, hann á ekki einu sinni fyrir rútufargjaldinu í burtu. Hann fær víst að búa af og til inni hjá henni, allt eftir því hvort hann hagi sér eða ekki. Hann er leiddur í burtu eins og hundur í bandi þegar hún kemur að sækja piltinn og ég kveð hann ánægður með samskiptin.
Stuttu síðar sit ég með gömlum jálki, sextíu og eins árs að aldri og hann iðar í skinninu að komast á strípibúllu. Ég bendi yfir götuna og segi honum að þar standi tvær dömur, líkast til gleðikonur, og hann ætlar á hliðina af spenningi. Hann er fyrrverandi lögga með spæjarakompaní, á nokkrar fasteignir í útleigu og heldur reglulega framhjá konunni sinni. Nú með 35 ára hjúkku sem annast níræða frænku hans. Hún er frá Latino og með mikið samviskubit að halda framhjá eiginmanninum í fyrsta sinn en það er víst eitthvað farið að kólna í því hjónabandi. Hann segist hættulega hrifinn af henni Latino, hvað sem það nú þýðir.
Örkum saman en sá gamli er ekki klæddur við hæfi og er meinuð innganga inn á diskótek svo hann snýr aftur upp á hostel en furðulegur Þjóðverji sem ég spjallaði við fyrr um daginn fylgir mér á bar við annað gistiheimili. Þar eru herbergisfélagarnir mínir Ástralarnir en fátt annað fólk. Þjóðverjinn nýkominn frá fjögurra mánaða dvöl í Rio De Janeiro lofar land og þjóð í hástafi litaður af ánægju þess að hafa loksins hlotið athygli kvenna. “Rio is the best!” með greddusvip í smettinu hálf öskrar hann það uppi.
Tvær fallegar stúlkur á barnum og ég er fljótlega farinn að spjalla við þær. Þær eru frá Suður Afríku og vinna tímabundið í Bandaríkjunum, og af einskærri tilviljun situr svartur frá sama landi við hlið þeirra, þá blökkumenn frá Suður Afríku hef ég ekki séð á ferðalagi áður. Önnur stúlkan virðist sína mér áhuga en hin er nær svo ég er farinn að klappa henni. Það veldur togstreitu og þær þykjast þá vera lesbískar og úr verður langt þref um réttmæti þess. Þá finnst þeim gaman að fíflast í mér. Eftir umtalsverða áframhaldandi drykkju er ég loks kominn í háttinn rétt yfir þrjú að nóttu en þarf að vakna klukkan sjö til að ná skutlunni upp á flugvöll.
Ég er svo þreyttur og ruglaður nývaknaður morguninn eftir að ég skágeng utan í veggi á leiðinni út af hostelinu. Átján bjórar runnu niður og nú er ég ónýtur að morgni á leið upp á flugvöll. Dagurinn verður hressilega tuskulegur. Það er kominn sá merki dagur, 30 mars, og ég flýg á vit ævintýranna, burtu frá Bandaríkjunum og yfir til Venezuvela. Þar á ég þriggja tíma stopp.


Ferðin til Ekvador

Ekki lofar það góðu fyrir verðlag í álfunni að ég greiði fimm dollara fyrir hamborgara á flugstöðinni í Venezuvela. Guð veit að ef þetta er verðlagið þá ét ég pasta og hrísgrjón út ferðina. Ég fer um stöðina áttavilltur og vitlaus í leit að tengiflugi, reyni að spyrja flugfreyju til vegar en kemst ekkert áfram á spænskunni, enda tala ég varla meira en tíu stök orð. “Donde?” og þar á fyrsta orði lýkur setningunni. Ég verð að glugga aðeins í orðabókina ef ég ætla að komast af í álfunni, ef ég ætla ekki að drepast úti á vergangi hungraður og týndur einhverstaðar. Mér tekst með aðstoð enskumælandi stúlku frá Ekvador að koma mér að réttu hliði og hlunka mér niður í flugvélina. Allt annað líf í þessari vél með rúmu fótaplássi, en í fyrra flugi var ég klemmdur inni og gat mig hvergi hreyft. Það er stundum ókostur að vera hávaxinn á flakkinu, þá sérstaklega í löndum þar sem meðalhæðin er ekki í takt við langleggja norður víkinga. Sitjandi í vélinni umkringdur útlendingum, mállaus og framandi í augum alþýðu, er fátt annað að gera en að vera útaf fyrir sjálfan mig. Vélin lendir og ég er kominn hálfa leið út úr flugvélinni þegar verndari minn, tvítug Ekvadorísk stúlka sem hafði aðstoðað mig áður, hleypur að mér og segir “You don´t need to go out here! This is not Quito!”. Millilending! Sheize! Lukka að ég steig ekki út, ellegar hefði ég verið týndur og bakpokinn tröllum gefinn. Þegar ég er að troða mér til baka inn í flugvélina á móti umferð fræðir karl nokkur á útleið mig um veðrið “This hot, Quito cold” og bendir á þunna adidas bolinn sem ég klæðist. Ef ég væri ekki með bakpokann fastan undir vélinni myndi ég alvarlega íhuga að stökkva hér út. Trylltar hugdettur um að gefa skít í pokann fara um höfuðið, ævintýraþráin ber mér í brjósti, en ég sit fastur enn sem áður í flugvélinni.
Svakaleg niðurkoman þegar ég loksins skila mér til Quito, ég rígheld í sætisarmana og mér þykir ljóst eitt andartak að dagar mínir séu upptaldir. Flugvélin skellur harkalega niður á jörðina með dynkum stökkvandi á milli hjólanna.
Það er kolsvart myrkur í nýju landi og ég sit hálf smeykur í leigubíl þræðandi ókunnug stræti. Kinka kolli, stama einhverja vafasama spænsku og síendurtek nafnið á hostelinu þegar leigubílstjórinn reynir að ræða við mig.
Þessa fyrstu nótt í Suður-Ameríku sef ég hryllilega. Vakna títt upp við hávaða að utan þar sem hundar gelta og bílstjórar liggja á flautunum. Kannski er það líka fjallaloftið, að ég sé að venjast því. Hostelið er drulluskítugt en ég er með herbergi útaf fyrir mig og sjónvarp. Moskítóflugur kramdar upp eftir öllum veggjum og rúmið er óhreint svo ég ákveð að sofa í fötum til að verjast blóðsugunum og óhreinindunum, það hefur sýnilega ekki verið skipt á beddanum um langt skeið. Ég er eini gesturinn á gistiheimilinu en túristinn fer víst ekki að koma fyrr en um miðjan maí. Fyrir utan húsið standa skuggamenn í röðum og þegar ég bið eiganda hostelsins að benda mér á Internetkaffi þorir hann ekki að stíga út. Hristir bara hausinn og blaðar fyrir sig höndunum. Varar mig við því að vera með mucho dinero á mér og segir að ég skuli hafa augun opin, táknrænt, með því að benda á sín og svo í kring. Hér fara víst fáir út eftir myrkur.
Af slökum svefni er ég jafnvel enn þreyttari og tuskulegri í morgunsárið. Þjáist af kverkaskít og nefrennsli í kaupbæti við allt annað. Það er enginn klósettpappír á sjúskuðu baðherberginu svo ég snýti mér í handklæðið sem þeir lánuðu mér. Tek pokann minn og arka af stað árla morguns yfir á önnur hús en það er varla hræða á ferðinni frekar en um kvöldið áður.


Quito, höfuðborg í háfjöllum Ekvador

Þrátt fyrir að ég sé ekki nema tuttugu og fimm kílómetra suður af miðbaug og sólin stendur sterk á lofti gustar svölu í þessum dal í miðjum Andes fjöllunum. Þá metrana er ég stend yfir sjávarmáli má telja upp í tvöþúsund átta hundruð og tuttugu. Það finnurðu á líkamanum fyrstu dagana að loftið er útþynnt og lungun hamast við að sækja í súrefni. Höfuðpína og dasaður hugsanagangur, ekki ólíkt áhrifum steikjandi hitabeltissólar við ströndina. Höfuðborgin Quito skiptist sem svart og hvítt upp í gamlan og nýjan hluta er liggja í göngufæri hvor frá öðrum. Hafandi komið bakpokanum fyrir á nýju bæli geng ég frjáls ferða minna í átt að gamla hverfinu. Staðnæmist á leiðinni og skoða mikilfenglega Basilíku, en markaðsvæðingin hefur hafið innreið sína í kristindóminn og það er búið að koma fyrir litlum sjoppum og handverksbásum milli stólpa við jarðhæð byggingarinnar. Það minnir mig á þá kirkju sem ég sá til sölu í Kanada og mér þótti furðulegt. Eitthvað er í höfuðborginni af Indíánakonum í þjóðlegum klæðum en langtum flestir klæðast nútímalegum lörfum, krakkarnir klæðast skólabúningum og herramenn jakkafötum, allt á vestrænu vísuna. Fetandi mig í átt að miðbænum sé ég áhugaverða gamla byggingu. Skreytt að utan með formum og styttum sem venja var í þá tíð. Fyrir innan er telpnaskóli til húsa og kennararnir lofa mér að gægjast inn. Það er eins og að liggja í skotgröf með sprengjuregn yfir sér í aðgirtum skólagarðinum. Garg margfaldast úr litlum munnum og algjört stjórnleysi lýsir ástandinu vel svo mér er umhugað um að komast þaðan sem fyrst. Uppfræðendur á fróni myndu nú segja eitthvað ef nemendur færu svo villt um skólalóðina. Þá væri sú nýlunda og allra meina bót brúkuð að skammta þeim róandi lyf til að spara sér ómakið við að hafa stjórn á krökkunum.
Ég rétti ölmusu títt til betlara svo það kostar mig meira en allt annað þennan dag. Ég geng eftir kristilegri styttu er stendur hátt yfir borginni, vakir yfir börnum sínum en varað er við að ganga leiðina því þar sitji fyrir túristum ræningjar. Þannig flækist ég inn á svæði er mér sýnist púddur standa við götuhorn að degi til og fátækir sleppa ekki af mér augunum. Þar léttist af mér klinkið sem ég gef hungruðum er sitja rænulausir á köntum gangstétta og húsaþrepa, í skugga fyrir sólinni er stendur hátt á loftið. Það er liðið fram yfir hádegi og ég búinn að ganga allan morguninn að drepast úr hungri. Hef einhvernvegin gleymt mér við það að þræða gamla bæinn sem enn stendur heill í sjarmerandi spænskum nýlendustíl. Mest fer þar fyrir kirkjunum sem eru á hverju horni. Hér líða ekki mörg skref á milli Drottinskota og hvergi hefur verið til sparað í þessu fátæka landi að gera þær kirkjurnar hvað glæsilegastar.
En aftur að regin vandamálinu, ég er banhungraður. Hér er ekkert að hafa ofan í tóman maga nema eintóm bakkelsi og bakarí sem ég bragða á tilneyddur. Hungur og háfjallaveiki dregur úr mér þrótt á meðan ég marsera um allar trissur. Ég sest inn í lítið skot til að hvíla mig á sólinni og snæði með lókalnum. Þar fæ ég fyrir 100 íslenskar krónur steik og franskar eftir töluvert puð við að panta. Það virðist enginn skilja bendingar og táknmál í þessu landi. Ketið bragðast vel þó það sé eymingjalegt þynnelsi. Samt fæ ég renniskitu. Maginn óvanur slæmu hreinlætinu og ég þarf að labba rösklega samanhertur frá gamla bænum yfir í þann nýja á hostelið, og á klósettið. Þá hefur mig rekið aftur inn í nýja hlutann, inn í heim nútímalegra skrifstofubygginga og alþjóðlegra hótelkeðja sem bera dýr amerísk heiti. Hér rís Eden þeirra framsýnni upp úr eyðimörk fætæktarinnar.
Upp að mér ganga þrjár miðaldra konur, tolla vel í nýtískunni og áhuginn skín úr augum þeirra. Þær benda á hárið ljóst og segja eitthvað á spænsku sem ég vitaskuld skil ekki. Síðar standa yfir mér tveir strákar og ræða við mig á sömu tungu. Skóburstarar að mennt. Þeir fá tíu íslenskar krónur til að skipta á milli sín og lengi stendur sá yngri og horfir rannsakandi á aðkomumanninn. Konurnar furðuðu sig á hárlitnum en “blondie” og “islandia” var það eina sem ég átti mér til varnar. Það kemur að mér niðurlútúr maður og betlar. Í fyrstu hristi ég hausinn en vorkenni honum svo af hungrinu og gef stakan dollara. Hann ljómar allur upp, blessar mig og hefur við nafn Jesús Christus og síðar í fjarska snýr hann sér við og veifar brosandi til mín og heldur áfram að blessa mig. Þetta bjargar deginum hans, fyrir einn dollara má kaupa ódýrt ofan í soðið svo dugar allri fjölskyldunni.
Ég get ekki meir í sólinni í dag, sit á bekk í skugga og fylgist með mannlífinu. Ramba inn á ölhús og skemmtanahverfi við það að reyna að rata heim, það er ekki í nema tveggja húsaraða fjarlægð frá gistiheimilinu mínu. Hættulega nálægt. Samt er mér ráðlagt að taka taxa á milli húsa út af mýmörgum þjófunum. Sest við átu en maginn á mér tekur dauðakippi, herpist sundur og saman, en róast þó undir svalandi bjór. Fer inn á diskótek og þar er tælandi kvenfólk í eldheitum Salsa dönsum á meðan sól stendur enn á lofti. Furðulegt. Kannski á ég að dvelja hér fram yfir helgi? Er allavegana á leið heim að sturta mig og út á lífið.


Næturlífið í Quito

Ég er að stíga undir sturtu nýkominn upp á gistiheimili en vatnið er jökulkalt. Tek víkinginn á þetta og hoppa undir og skelf á meðan ég skrúbba mig hátt og lágt. Ég er við það að stökkva grátandi út úr sturtunni þegar ísköld bunan loks hitnar aðeins og verður volg og þolanleg. Þannig kemst maður fljótt af því að heitt vatn er lúxus sem menn fá sjaldan notið í álfunni. Þó ég hafi sturtað mig er ég ennþá sjúskaður, með tætingslegt rautt skegg og sólbrunninn í framan. Er aumur á hálsinum af bruna því ég stend of nærri sólu hér á öxlum Andes fjallanna. Sest niður í sjónvarpsherbergi, stari á Indíána Jones og drekk bjóra í félagsskap við tvo Breta. “Yesterday we met some local girls” tilkynna piltarnir mér samviskusamlega með breskum Manchester hreim. “It took us half an hour to get to theyr house with a taxi” og þar skiptust menn niður á herbergi með þessum blómarósum. “Are they easy here in Ecuador?” spyr ég glottandi og þeir jánka því. Í dag kíktu þeir svo í heimsókn til fjölskyldu annarrar stelpunnar en ætla sér ekkert meir. Tala þá meira um Kókaín og hvar í álfu sé best að kaupa það púður en hugur minn dvelur enn hjá ímynd innfæddra kvenna. Mig dagdreymir um slíka ævidaga, að kynnast fallegri indíánastúlku og lifiháttum fjölskyldu hér syðra.
Það er farið að rökkva þegar ég fer einn út á barhverfi, Bretarnir tuskulegir farnir í háttinn en þeir vilja kíkja út á lífið með mér annað kvöld. Ég fer inn á funheitan Salsa stað er ég hafði gægst inn á fyrr um kvöldið, enda freistingar tælandi kvenna vart lofað mér hugarró síðan. Fjórir unglingspiltar kalla á mig en menn um alla álfu sína framandi hvítnefjum mikinn áhuga. Hvort sem það sé af þeim sökum að þeir vilji spjalla eða vonin sú að fá ókeypis öl. Einn þeirra getur túlkað brot og brot yfir á ensku. Hann er með sterk en óvenjuleg svipbrigði, með hangandi þreytuleg augu, sítt bikarsvart hár og sterklegt bogið arnarnef. Það hefur mér þótt prýða fáeina hér og líkast því að sé úr teiknimynd. Falleg en ung stúlka er að gefa mér auga á sama tíma og hún er að reyna að slá frá sér ágengan Inka. Því sinni ég lítið en þá þegar ég er á förum með nýju vinunum á annað diskótek kemur kunningi stúlkunnar til mín og biður mig um að spjalla við hana. Það er varla hægt að loka augunum fyrir svo augljósum áhuga og ég ákveð að reyna spænskuna en það gengur lítið. Hún reynir þá ensku og það gengur eitthvað betur. Átján ára í lögfræði og heitir María. Ég er búinn að reka Inkann í burtu og taka utan um hana þegar þær vinkonurnar ákveða að fara að dansa. Lendi þá á spjalli við Bandaríkjamann sem er giftur Ekvadorískri konu og býr í Quito. Ósætti þetta kvöldið og hann er á leiðinni á hóruhús. Segir það kosta sjö dollara en hér í túristalandi eða eins og lókallinn kallar það “Gringolandia” séu það tuttugu dollarar. “The blacks, they are the thieves!” og hann ítrekar að hér gangi enginn út fyrir bargötuna eftir myrkur. Það hefur ekki farið fram hjá mér að það eru blökkumenn er húka á götunum í ljósleysu, en þeir sjást svo varla á daginn.
“One came behind me, two in front, then I knew right away what was gonna happen..” Byrjar kaninn að segja mér sögu.
“They took my cellphone, my wallet and my wedding ring” segir hann sár
“How much money was in the wallet?”
“300 dollars, the wedding ring was worth 1.500”
“When I tryed to keep it” og hann sýnir mér hvernig hann reyndi að fara undan með höndina
“They all held guns to my head and triggered it” og hann gefur frá sér gikkshljóð.
Hún er komin aftur telpan og vill dansa. Hvað gerir maður ekki fyrir fallegar konur? Ég er kominn á dansgólfið að stíga Salsa spor og fæ lof fyrir, sem er líklegast bara til að særa mig ekki. Við sitjum svo saman og spjöllum en henni finnst hún vera of ung fyrir mig. “You need a woman, I am just a child”. Það nær þá ekki lengra en ég sit með vinahópnum og ræði nokkurn tíma við þau á hinum ýmsu tungum. Síðar á sama bar sit ég með lókal körlum og við skálum og ræðum saman þó enginn skilji orð af því sem fer á milli. Þar hjálpar ölvun til. Barþjónninn splæsir á mig Tequila og við skálum kokhraustir “Salut!”. Málleysið leiðist um síðir og ég fer á diskótekið “No bar”. Þar dansa ég við fallega Indíánastelpu og við kyssumst á dansgólfinu. Hún dregur mig út af gólfinu og biður mig um að bíða eftir sér á meðan hún fer á klósettið. Stráki sem leiðist við samskonar bið fyrir utan salernið spyr mig “Where are you from?”
“Iceland” svara ég
“Ha?” “Þú ert að grínast?” “Í alvöru?” spyr hann mig þrásinnis vantrúaður. “Ertu íslendingur?” því jánka ég þó mér þyki nú fullmikið að rekast strax á landa minn hér á fyrstu dögunum í suðrinu. Við kynnum okkur en nafninu gleymi ég samstundis. Hann er líka með konu undir arminum og við báðir uppteknir við slíkar farir. Segist ætla að heimsækja mig á hostelið daginn eftir en hann sá ég ekki aftur, hvort sem við höfum farið á mis eða hann aldrei komið. Mér er farið að leiðast dans og eins og stelpan er nú falleg missir það sig þegar hún segist vera þrjátíu og sjö ára. Ég er alveg útúr kortinu með að geta mér til um aldur, hún hefði allt eins getað sagst vera átján. Kveð hana en kemst ekki út af staðnum án þess að vera kominn með aðra undir arminn. Sú hleypur upp að mér og spyr vonandi í bland við undrun þegar ég jánka spurningunni “You want to be with me?”. Ekkert augnayndi ef satt skal frá segja, en íturvaxinn hálfberaður barmurinn heldur mér við efnið. Förum á annað lítið athvarf og þar spyr hún mig sem ég þurfi að gera upp líf mitt þar og þá “You just want to fuck me one night?” Léttruglaður hlæjandi svara ég henni og klúðra hlutunum “No, I want to fuck you many nights” og flissa svo eins og vangefinn maður nýkominn út af kleppi. Ég reyni að bæta fyrir syndirnar með því að segja sem satt er “I was just kidding” en hún er flogin á vit annarra gringóa. Það er alveg ágætt og ég ramba inn á fjölskyldupartí í öðrum húsum, allt frá krökkunum upp í ömmuna, og dansa dauðþreyttur vals við allar konurnar. Þau ætla að skutla mér heim svo ég geng með þeim að bílnum sem er lagt langt frá barsvæðinu, en bíllinn er útroðinn, stútfullur, svo ég kveð þau standandi einn einhverstaðar úti í víðavangi. Finn barhverfið aftur fótgangandi en villist eftir það. Ég hugsa með mér, “þetta eru bara tvær húsaraðir að hostelinu”, en einhvernvegin tekst mér að yfirsjást það. Öll hús líta ásvipuð út að næturlagi, lokuð og myrk. Á hverju horni standa múlattar og bíða manna eins og mín, ráfandi um drukknir og hlaðnir seðlum, flestir láta mig þó í friði en einn ákveður um síðir að reyna sína lukku. Þarna eru líka púddur og kynskiptingar.
Upp að mér kemur kynvillingur í pilsi og kvenkyns klæðum, svört á hörund, “Do you want me to suck you?” spyr læðan. Sýnir þetta allt saman myndrænt og bendir svo á klofið á mér. “No” segi ég ákveðinn “but do you know where the youth hostel is?” spyr ég eins og flón fyrst þetta talar nú sæmilega ensku. “Can I suck you?” “I will do it free” segir mér manneskjan ýtin sem er komin alveg upp að mér. Það er eitthvað í kóðanum, í genunum, sem er ekki að virka rétt á mig. Ég horfi á andlitið og gretti mig vantrúaður “Are you a man??” rumsa ég útúr mér með uppábrett andlit en létt glott fylgir yfir því að hann skuli vera í kvenmannsfötum. “Yes” svarar hann. Án þess að ég nái að koma vörnum við dregur hann niður bolinn og berar á sér brjóstin. Þetta eru kvenmannsbrjóst. Að því er virðast náttúruleg, en þetta hefur hann látið setja á sig. Stoltur sýnir hann mér svo klofið á sér, dregur upp pilsið og þar eru kvensköp. “Transexual”. “So you had your thing cut off?” fíflast ég í honum og sýni skæri með höndunum. “Yes” svarast eins og það sé eðlilegasti hlutur í heimi “I suck you for free” segir hann en ég hristi höfuðið og fer að hlæja. “Show me those breasts again” segi ég vantrúaður í fíflalátum, enn að melta þessa furðulegu veröld sem við lifum í. Ansi er þetta vel gert, maður sér ekkert þeim til ósóma. Ég þakka pent fyrir mig og geng á brott með kveðjum en hann, hún eða hvað skal kalla, eltir mig á röndum um myrkur strætin svo úr bakgrunni bergmálar “Can I suck you, can I suck you..”. Lifir eflaust í þeirri sannfæringu að ég gefi undan að lokum, að ég leiði það hjá mér að hún hafi verið karlmaður í fyrra lífi. “It´s free!” heyrist svo stöku sinnum til að fullvissa mig um að það megi klára þetta hér og nú án greiðslna.
Þegar ég sagði að flestir létu mig í friði á götum úti, átti það ekki við alla þjófana sem hanga á hverju horni. Það kemur upp að mér múlatti sem ákveður að reyna sína lukku. Ég hristi bara höfuðið, djöfulsins vandræði. “Is this a thief?” spyr ég kynskiptinginn sem hefur nú gengið i hringi með mér um nokkurn tíma. “Yes” svarar hann. Ég er blindfullur og þar sem þetta er bara einn meðalvaxinn karlmaður bendi ég á hann og fer að hlæja af honum “Solo uno persona?” og geri gys að því að hann ætli að ræna mig einn. Ég hef lokið við líters flösku af bjór sem ég tók í nesti, skelli henni í gangstéttarkantinn og brýt af henni botninn svo myndarlegasti hnífur verður til. “Fuck off!” kalla ég og hláturinn er horfinn, orðin falla þung að honum og ég horfi tryllingslega á bölvaðan vandræðagemsann. Hann hefur vit á því að hverfa frá og ég held áfram að ganga í hringi, allar göturnar nauðalíkar í myrkrinu, svo ég hef að endingu kynnst flestum púddunum, kynskiptingunum og þjófunum í hverfinu. Sum þeirra veifa orðið til mín er ég geng sama kaflann fram og aftur. Hálftími og furðufuglinn kynskiptingurinn gengur enn um á eftir mér. Hvað honum gengur til fleira en að vilja sjúga mig veit ég ekki á þessari stundu.
Ég er að koma að gatnamótum þegar ég sé þrjá kolasvarta skjótast fyrir hornið. Snarstoppa og byrja að ganga afturábak. Nokkurnveginn á þeim tíma sem ég hefði verið að ganga fyrir horn gatnamótanna stökkva þeir þrír þaðan og tveir frá horni handan götunnar. Þar standa þeir hálf kjánalegir og reyna að átta sig á því hvað hafi farið úrskeiðis. Eflaust undrandi að sjá mig horfa á þá í hálfrar götu fjarlægð. “Are those thiefs” meira segi ég en að spyrja kynskiptinginn. Þeir koma hlaupandi í átt til mín og ég er rokinn af stað, spretti heldur betur úr spori og nem ekki staðar fyrr en ég finn aðalgötu og stekk másandi inn í leigubíl með brotnu flöskuna í hendinni eins og versti geðsjúklingur. Leigubílstjórinn veit ekki sitt rjúkandi ráð, kannast ekkert við hostelið en tekur samt skipunum frá þessum óða manni. Hringavitleysan heldur áfram og við förum um hverfið á meðan ég reyni að ná áttum. Ég segist ekki borga honum sent meir en dollar þar sem það sé hans að þekkja ekki göturnar. Hann þrætir ekki svo ég geri það að greiða honum tvo dollara þegar ég loksins kemst á leiðarenda. Rétti honum peninginn án þess að hann nefni neina upphæð, líklegast hefur hann séð flöskuna og talið allan hetjuskap óþarfan. Ég er nú ekki varkárari en svo þegar ég kem upp á herbergi að ég skil lykilinn eftir í skránni og sofna værum áfengisblundi hafandi hlegið af allri vitleysunni. “Framvegis tek ég taxa eftir myrkur á milli staða” segi ég sjálfum mér ósannfærandi.