Bamm, BAMM, BAMM!

- Anton? Karl hóf upplesninguna.
- Já.
- Bjarni? … Bjarni?
- Björn? Björn geispaði.
- Jááá.

Fyrir utan stofuna drundi í byggingu nýja skólans. Þegar hann hafði lokið við að lesa upp stökk Karl að töflunni og skrifaði í fimmta skiptið úr hvaða blaðsíðum prófið á mánudaginn yrði. Karl var einn af þessum kennurum sem skammaði aldrei nemendur sína og gerði alltaf sitt besta til þess að uppfylla óskir þeirra. Hann talaði frekar lágt að eðlisfari sem var kannski ástæðan fyrir því að enginn hlustaði á hann lengur en í þrjár kennslustundir. Eftir það voru allir farnir inn í sinn eigin hugarheim eða sokknir ofan í samræður við sessunaut sinn.

- Krakkar, eru svo ekki allir með þetta á hreinu? Hann leit hikandi yfir bekkinn.

Samþykki heyrðist muldrað frá nemendahópnum og Karl hófst handa við að koma glærusjóinu í gang á skjávarpanum. Hann lokaði netvafranum á tölvunni sem innihélt mætingarskránna í Innunni, upplýsingakerfi framhaldsskólanna, opnaði glærusjóið og hóf kennsluna. Nokkrum sekúndum eftir að hann var byrjaður að tala um trúarbrögð á Indlandi opnaðist hurðin á kennslustofunni og Bjarni gekk inn, reyndar aðeins fyrr en hans var venjulega von í fyrsta tíma á mánudegi.
- Bjarni er mættur, greip hann frammí fyrir Karli sem var rétt kominn á skrið í hindúismanum.
- Ah, já, sagði hann hikandi, Ég merki bara við þig þá. Hann stökk að tölvunni og greip til við að loka bæði glugganum með glærusjóinu og möppunni sem innihélt glærusjóið, opnaði mætingarkerfið í flýti og ætlaði að breyta fjarvistinni hans Bjarna í mætingu. Komst hann þá að því að hann hafði verið forsjáll og ekki gefið Bjarna fjarvist þegar hann hafði lesið upp áður enda vissi undirmeðvitund hans að Bjarna væri von þegar liði á tímann. Ánægður með þetta lokaði hann mætingarkerfinu og dembdi sér beint í að skrá sig út af tölvunni. Þegar hann var búinn að ýta á ‘Log off’ takkann virtist hann þó átta sig og sagði bæði afsakandi og undrandi við bekkinn, sem fylgdist með öllu á myndvarpanum,
- Nei, hvað er ég að gera? Ég ætlaði víst að opna glærurnar… Hann roðnaði hljóðlega en enginn tók eftir því.

BAMM! Rödd Karls brast. Hann hætti kennslunni í augnablik til þess að ná taki á sjálfum sér og hélt svo áfram. Enn var hamrað fyrir utan gluggann. Það var mesta furða að ætlast væri til að nemendur gætu lært í þessum hávaða, hvað þá fengið svefnfrið. Dagbjartur virtist þó ekki vera viðkvæmur fyrir því og hraut hljóðlega í horninu.

- Nú, hindúismi gerir ráð fyrir mjög stífri stéttarskiptingu… Karl var aftur kominn á flug í glærunum. Þetta gekk alltaf betur þegar hann gat einbeitt sér að félagsfræðinni og látið sem stofan væri ekki full af unglingum sem voru ekki að hlusta á hann. Það var þó alltaf einn og einn sem hlustaði, eins og hún Katrín sem sat núna fremst og fylgdist með af athygli. Bara ef allir nemendur væru eins og hún.

Helga dró upp iPoddinn og laumaði heyrnartólunum á sig á meðan Karl teiknaði stéttarskiptinguna sem hindúismi gerði ráð fyrir upp á töfluna með svona píramída þar sem lægsta stéttin var neðst og stærst og sú hæsta efst og minnst. Hún kom hárinu fyrir þannig að það huldi heyrnartólin og týndi sér í heimi rokksins.

Áfram malaði Karl um kosti og galla stéttarskiptingunnar. Allur kvíði og stress var horfinn á meðan hann þaut áfram í glærunum. Gunnar var farinn að ókyrrast, lamdi blýantinum í borðið í takt við það að hann stappaði fætinum í gólfið. Karl hægði á kennslunni, þorði samt ekki að segja neitt af ótta við Gunnar hlustaði ekki á hann. Loks dró hann samt djúpt andann og hætti hljóðframleiðslunni, eins og hann hefði tekið afdrifaríka ákvörðun. Næst þegar athygli Karls var aftur að fullu á hugtakinu nirvana og allir aðrir voru að horfa eitthvert annað laumaði hann hendinni ofan í töskuna sína sem lá á borðinu og sótti hringlaga plastdós með brúnu innihaldi. Hann faldi dósina undir borðinu á meðan hann skrúfaði lokið hægt og rólega af, með augun á Karli allan tímann. Svo stakk hann einhverskonar löngu og mjóu apparati sem líktist sprautu sem á vantaði nálina ofan í dósina og fyllti það rólega á meðan Karl hélt áfram að útskýra tengsl sálarinnar og stéttarskiptingunnar. Svo laumaði hann dósinni aftur ofan í töskuna og beið færis, um leið og allir voru að horfa eitthvað annað beygði hann sig snöggt niður og tæmdi innihald apparatsins upp í hægri nösina. Hann var rólegur það sem eftir var kennslustundarinnar.

Vélsög fór í gang inni í draugalegri beinagrind viðbyggingarinnar.

Nú virtist nemendum sem Karl hefði fengið fyrirlestrarfíkn sinni fullnægt, enda ekki með raddstyrk til þess að keppa við vélsögina. Hann tók upp blaðabunka um leið og hann leit viðbygginguna hornauga út um gluggann og dreifði til nemenda viðtali við miðaldra hindúa af millistétt sem taldi að undanhald stéttarskiptingarinnar væri af hinu slæma.

- Það væri svo fínt ef þið læsuð þetta núna og leystuð verkefnið aftan á fyrir næsta tíma, sagði hann. Röddin bar keim af óttablandinni ákveðni, eins hann væri að reyna þótt hann vissi að það þýddi ekkert, það myndi enginn hlusta á hann hvort sem er.

Bjallan hringdi um leið og Karl sleppti orðinu. Dagbjartur vaknaði af blundinum og elti samnemendur sína sem þyrptust út úr stofunni eins og hjarðdýr sem breyttust svo í rándýr þegar í matarröðina kom. Karl varp öndinni léttar og lét sig síga niður í kennarastólinn. Hann hafði komst í gegnum enn eina kennslustundina.