Hér er semsagt öll smásagan Blettir, í heild sinni. Þetta er semsagt smásaga sem ég skrifaði í þremur hlutum á nokkra daga tímabili fyrir einhverjum mánuðum síðar en “gaf bara út” á heimasíðunni minni. Ákvað að skella þessu saman í einn hluta hér fyrir ykkur. Njótið.

PS: varúð! það er ekkert point í þessari sögu, ekkert ris að viti né neitt álíka. Þetta er samansafn af hugsunum, tilfinningum og álíka þannig að þið skuluð ekki lesa þetta ef þið eruð að bíða eftir óvæntum endi og álíka. Þessi smásaga er til þess að fá lesandann til að hugsa: “hvað í fjandanum er hann eiginlega að meina?”, og ekki bara lesandann, einnig sá sem skrifar söguna… semsagt ég…




Augu Hans lokuðust hægt og bítandi, meðan sjónvarpið fyllti kytruna hans af snjó og lét rafeindirnar leika við eyrun Hans. Aðeins heyrnalausir og dauðir gætu upplifað álíka kyrrð og þá í einstaka tilvikum. Hátt, djúpt, lengst inn í óravíddum hugans en þó á einhvernhátt út um allt, heyrist drumbusláttur, taktfastur, en eykur hraðann og kraftinn hægt og bítandi. Hann sekkur, Hann smýgur ofan í sófann, lengst niður í óravíddir sálarinnar. drunur, hávaði, þrýstingur, og svo síðast algjör þögn.

Sjónvarpið lætur jólasnjóinn falla niður um allt herbergið, allt orðið hvítt. Hann getur ekki hreyft sig, en sjónvarpið getur það. “En sú kaldhæðni, en sú bévítans kaldhæðni.”. Þögnin deyr út, snjórinn magnast og tíminn líður. “Það er rétt hjá sjónvarpinu, en sú kaldhæðni.” hugsar Hann. Eftir dálitlar samræður stendur Hann upp, stendur upp, og horfir í augun á sjálfum sér. hlær, er Hann liggur hjálparvana í stólnum. Nú er kominn tími á ferðalag…

Eitt lítið stökk, og Hann er kominn á loft. Efasemdirnar þagna um leið. Flýgur burt frá sjálfum sér, snjónum og öllum lífsins skuldbindingum. “er ekki yndislegt að taka sér hlé frá sjálfum sér?” öskrar sjónvarpið á eftir Honum en Hann er floginn burt, heyrir ekki lengur í snjónum, heyrir ekki lengur í líkamanum.

“hvernig getur fólk séð sannleikann ef það túlkar umheiminn í gegnum líkamann, Hvernig getur fólk séð framtíðina ef það horfir á hana í gegnum nútímann… nei sko, gestur, hvað heitir þú?”. Hann horfði á Hana, sagði ekki neitt enda voru engar varir til að hreyfa, engin raddbönd til að misnota. “Já, svo þú heitir það. Ég þarf samt ekki að kynna mig, því þú veist nú þegar hvaða nafn ég ber”. Það var rétt hjá Henni, Hann vissi það nú þegar. “Lífið? Enginn getur lifað lífinu, við erum öll of upptekin við lífið sjálft”.

Orðin sem flugu um engið, jafnt og þetta fríða andlit, hurfu. Ekkert eftir nema grasið sem náði Honum upp fyrir axlir. Hann leit upp. Himininn var hvítur, meira en hvítur, jafnvel algjörlega auður. Minnti Hann eiginlega á raunveruleikann á einhvern hátt. En himininn vakti ekki hrifningu Hans lengur, Hann vildi miklu frekar leita niður á við. Hann sekkur. “Kaldhæðnislegt, Við eyðum allri ævinni í að teygja okkur í átt að sólinni, en á endanum gröfum við okkur niður í raka og drungalega moldina eins og ekkert væri sjálfsagðra”. Hann slökkti á sjónvarpinu…

“Hefur þú ekkert að segja? Viltu ekki dæma mig?”. Hún hefur ellt Hann niður, niður í hundblauta moldina, en sú dræsa, hvað heldur hún eiginlega að hún sé. “Fyrirgefðu, en ég get ekki talað. Skildi munninn eftir, þú skilur…” sagði Hann. Hún kinkaði kolli en opnaði engu síður munninn. Út um munninn flæðir þessi dökki vökvi, svífur réttara sagt. Hann sér hvernig vökvinn umlykur líkama Hans og hreinsar Hann, hreinsar lífið Hans af öllum efasemdum. Þau gráta, gráta saman þessum dökka vökva. Er ekki gaman þegar allt endar vel? þegar allt á sér engan endir réttara sagt. Þegar maður einfaldlega vaknar ekki af draumnum, heldur bara áfram að sofa, lifa í draumnum án allra efasemda og annara neikvæðra tilfinninga.

Hann vill ekki vakna…

Sjónvarpið á samt eftir að vekja hann með kaldhæðnisfyrirlestrum einhvern tímann fljótlega en það er best að njóta draumanna á meðan enginn endir er fyrirsjáanlegur…
Jóhannes Gunnar Þorsteinsson