Vanlíðan. Tilfinning sem allir kannast of vel við, ekki satt? Allir hafa fundið fyrir vanlíðan og engum finnst það gaman.

Ég er að upplifa svona vanlíðan núna. Mig langar alveg voðavoðavoðamikið í soldið, en ég má ekki fá það. Ég reyni allar leiðir til að ná takmarki mínu, en ekkert virðist virka. Ég fæ þetta samt lánað stundum, í smástund… Svo er þessu kippt frá mér aftur. Svo nálgast þetta.. En hverfur svo aftur. Þetta hangir yfir mér og lætur mig ekki í friði. Mér er sama. Ég vil ekki að það láti mig í friði. Ég vil að það hangi yfir mér. Þó ég vildi allra allra allra helst fá það, þá er betra að horfa á það og fá stundum smáinnsýn í það fremur en að glata því alveg. Hver veit, kannske næ ég einhverntímann að teygja mig aðeins lengra og ná þessu fyrir sjálfan mig? Til að eiga einn.

Svona er að vera sjálfselskur.

Þetta hefur ekki alltaf verið svona. Einu sinni var þetta mitt. Einu sinni hafði ég þetta og þá leið mér oftar betur. Stundum rakst þetta á mig og eitthvað þannig, en það batnaði fljótlega aftur alltaf. Ég var svo voðavoðavoðaánægður með lífið þegar ég svo var með þetta hjá mér að einhver óþægindi nokkrum sinnum skiptu ekki máli fyrir mig, vellíðanin eftirá bætti upp fyrir þau óþægindi og mikið meir.

Síðan missti ég þetta. Þá varð ég voðavoðavoðaleiður. Ég hélt ég hefði misst þetta að eilífu, svo ég ákvað að reyna að taka upp eitthvað rusl af götunni til að hafa í staðinn. Rétt áður en ég tók ruslið upp fauk það í burt, og ég skildi þá að ég átti ekki að vera að leika mér að rusli á lífsleiðinni. Ég átti að finna þetta aftur, þetta góða, þetta frábæra, átti að reyna að ná því aftur og halda því hjá mér, leika mér fallega við það og fara vel með það.

Ég svipaðist um, og sá þetta loks hangandi nærri mér. Ég reyndi að nálgast það rólega, það gekk ágætlega. Síðan allt í einu náði ég taki á því í smástund, en missti það óðara aftur. Ég reyndi aftur að nálgast, þetta var við það að takast, ég náði taki og hélt á í þónokkra stund. Síðan kom að því. Ruslið sem hafði fokið frá mér forðum daga, fauk að mér og sópaði því í burtu frá mér. Ég hljóp á eftir, en var svolítið mikið á eftir… Skyndilega datt ég um eitthvað. Bikar, blóðbikar. Ég rispaðist. Og það fauk enn lengra frá mér… En var samt svo nálægt einhvernveginn.

Núna er ég hérna. Það er svo nálægt mér, en á sama tíma er það svo fjarri mér. Alltaf þegar ég fer að nálgast þetta, kemur ruslið og feykir því í burtu, eða blóðbikarinn kemur til mín og rispar mig og fælir það í burtu. Á meðan ruslið og blóðbikarinn eru hérna, mun ég aldrei geta náð þessu. Þessvegna er mitt takmark að losna við ruslið og blóðbikarinn sem fyrst. Svo sjálfselskan geti tekið völdin og ég geti eytt tíma með því aftur og vonandi liðið betur. En á meðan það hræðist ruslið og blóðbikarinn, verð ég að sætta mig við að hafa þetta óþægilega nálægt en samt svo þægilega nálægt.

Með nógu góðri umhirðu mun ruslið hverfa, og ef ég fer nógu vel með mig hættir blóðbikarinn að ráðast að mér. Svo þessvegna hef ég ákveðið að taka til hendinni og vinna í því einsog ég get að losna við ruslið og bikarinn.

Svo ég geti verið með því og það geti verið óhrætt á meðan og notið lífsins með mér.

Þvílík sjálfselska í mér.