Fyrir nokkrum árum var uppi lítil stúlka, ætla má að hún hafi verið í kringum sjö ára. Hún bjó í litlu þorpi og henni leið vel með það, hún gat ekki hugsað sér að búa á stórum stað, sérstaklega því hún var mikið ein, þekkti engan og hafði heldur engan áhuga á að kynnast krökkum á hennar aldri eða fólki yfirleitt.

Fjölskylda stúlkunar var vel auðug og skorti fátt, nema eitt, þau skorti skilning og þroska. Það var sama hvað litla stúkan gerði, hvort hún þagði eða hverjar skoðanir hennar voru, hún var alltaf talin hálf skrítin og fólkið hennar reyndi ekki að skilja hana og því ákvað hún að segja sem minnst og láta sem minnst á sér bera og var því mest úti við.

Stúlkan var vön að labba einn hring í kringum litla þorpið á hverjum degi í sólskininu. Henni fanst það gaman: Hún gat þá hugsað um hvað sem er og gert hvað sem er því það var öllum sama hvað hún gerði eða sagði, ,,hún var hvort sem er skrítin’’ hugsaði hún.

Það var gamall maður sem bjó í þorpinu sem hún hafði ekki vitað um þangað til að hún sá hann sitja fyrir utan útidyrnar hjá sér dag nokkurn þegar hún var að labba hringinn. Þau veittu hvort öðru athygli og það lá við að þau stoppuðu til að glápa á hvort annað. Af eintómri forvitni leit hún alltaf til hússins á hverjum degi til að gá að manninum og alltaf sat maðurinn í sama stól á sama stað og svona gekk þetta í marga mánuði en aldei töluðust þau við en töldu sig samt skilja hvort annað. Það kom að því að sólin hvarf bak við skýin og allt varð dimmt. Gamli maðurinn varð að lesa það í blöðunum að litla stúlkan væri dáin og það runnu tár niður kinnar hans því hann var búin að missa sinn eina vin, þótt aldursmunurinn væri þetta mikill skildu þau samt hvort annað og það þurfti engin orð….enda eru ósögð orð oft betri en þau sögðu í sumum tilfellum.


Saga sem ég samdi þegar ég 14 ára held ég. Ákvað að setja hana hérna inn bara svona ef einhver sæi eitthvað við hana:)