Djúpt ofaní jörðinni, þar sem sólin aldrei skín, bjó lítil fræfjölskylda. Pabbi fræ, mamma fræ og litla fræ.

Einu sinni þegar litla fræ var farið hátta, og mamma fræ var að ljúka við að bjóða því góða nótt, þá spurði það mömmu sína:

,,Mamma, hvað er fyrir ofan moldina?’’

,,Það er svo margt gullið mitt.’’
Svaraði mamma fræ.

,,Eins og hvað?’’
Spurði litla fræ þá og settist upp í rúmið.

,,Litla fræ þú átt að vera farið að sofa, klukkan er orðin svo margt, hún er langt gengin fram yfir háttatíma fyrir svona lítið fræ eins og þig.”
sagði mamma fræ og andvarpaði. Settist svo niður á stól við hliðina á rúmi litla fræs, brosti, og sagði:
,,Fyrir ofan moldina, þar er birtan. Þar skín sólin og þaðan kemur rigningin. Þar býr líka fólkið og þar eru fjöllin, skýin og vindurinn.’’

,,Hvernig lítur sólin út mamma?’’
Spurði litla fræ.

,,Sólin er gul gullið mitt, hún er hringlótt er uppi á himninum bláa.”
Sagði mamma fræ. Tók sér málhvíld og sagði síðan:

,,Einn daginn förum við þangað, ég, þú og pabbi fræ. Þegar það er orðið nógu hlýtt í veðri og snjórinn og frostið er farið og sumarið komið þegar fuglarnir byrja syngja. Þá munt þú sjá hvernig sólin lítur út.’’
Svo kyssti mamma fræ litla fræ góða nótt og breiddi ofan á það sængina.

Þessa nótt dreymdi litla fræi sólina. Mikið hlakkaði því til að sjá sólina, himininn og að heyra í vindinum hvísla og sjá fólkið labba á götunni og hlusta á fuglana syngja þeirra fegurstu söngva.

Næstu daga gat litla fræ ekki hætt að hugsa um hvernig allt litu út fyrir ofan moldina svo það ákvað að stelast til þess að fara þangað, bara í smá stund.
En eina nóttina, þegar mamma fræ og pabbi fræ voru farin að sofa þá laumaðist litla fræ á fætur og gekk hljóðlega út í moldina en ákvað að vera komin aftur í rúmið sitt áður en mamma fræ og pabbi fræ myndu aftur vakna.
Litla fræ stefndi upp, upp í gegnum moldina og upp á yfirborðið.

,,Mamma það er lítið blóm í garðinum!”
Æpti lítil stelpa í litlu húsi við Bergþórugötu.
,,Og ég hélt að blómin kæmu bara á vorin mamma. Sjáðu mamma, sjáðu. Það er bara lítið barn. Lítið barn eins og ég mamma."

,,Settu það í vatn ástin mín og lofaðu því að standa út í glugga svo það sjái sólina og fái að stækka meira. Það hefur verið eitthvað forvitið þetta blóm. Hefur ekki getað beðið til vors, þetta litla grey.”
Sagði móðir litlu stúlkunnar á bergþórugötu.

Litla fræ svalaði forvitni sinni, það fékk að sjá sólina. En það fékk aldrei aftur að sjá mömmu fræ og pabba fræ og það fékk heldur aldrei að fara aftur heim. Eftir á að hyggja þá fannst því sólin ekki það merkileg.

-hlinur.