“Hvað fær ungan mann til að gera eitthvað svona?” hugsaði lögreglumaðurinn með sér er hann stóð yfir volgu líki unga mannsins.
Miðað við hvað það voru margir inní bankanum var óvenju hljótt. Fólk tiplaði niðurlútið á tánum án þess að segja orð og allir nema þessi eini lögreglumaður sem stóð við líkið forðuðust að horfa á unga manninn sem lá með stórt op á bringunni eftir haglabyssuskotið. Tættir efnisbútar í bland við blóð og beinflísar voru föst á veggnum þar sem hann hafði staðið þegar skotið reið af. Haglabyssan hafði þotið nokkra metra vegna þess hann hafði ekki haft gott grip þegar hann tók í gikkinn.
Fyrir utan flöktu ljósin af þeim aragrúa af lögreglu og sjúkrabílum sem kölluð höfðu verið til. Tæknideildin var að renna í hlað. Það tók smá tíma fyrir þá að komast að vegna þess margmennis sem kominn var saman til að fylgjast með. Þónokkrir blaðamenn, ljósmyndarar og fólk frá sjónvarpinu voru einnig þar.
Það var frekar kyrrt veður úti fyrir utan rigningar úðan sem vætti áhorfendurna sem virtust alveg sama. Fjórir lögreglumenn voru fengnir til að halda öllum þeim sem áttu ekki beint erindi í burtu.
Starfsmenn bankans og þeir ólukkusömu viðskiptavinir sem höfðu verið inni þegar ungi maðurinn strunsaði inn sátu í stórum lögreglubílum með angistarsvip þar sem þau biðu eftir að einhver kæmi og tæki af þeim skýrslu, margir voru enn með tárin í augunum.
Aðeins nokkrum mínútum eftir að skotið reið af var fréttað um atburðinn í útvarpi. “Umsátrið yfir unga manninum sem hélt tíu manns föngum lauk klukkan 15:37 þegar árasamaðurinn svipti sig lífi.”


***

“Hvað fær ungan mann til að gera eitthvað svona?”

Hræðilegur atburður átti sér stað 15.06.2003 í Búnaðarbankanum í Hafnafirði þegar Ísleifur Jónsson réðst vopnaður haglabyssu inní bankann sem endaði með því að árásamaðurinn svipti sig lífi. Í klukkustund stóð þjóðin á öndinni þegar saklausum borgurum var haldið föngum er lögreglan umkringdi staðinn.
Hálfur mánuður er nú liðinn en atburðurinn er fólki enn ofarlega í huga. Ósjaldan kemur fólk saman, hvort sem það er á heimilum eða á vinnustöðum og reynir að botna það sem flestum virðist óskiljanlegt. Undirritaður hefur undanfarna daga rætt við þrjár manneskjur tengdar hinum látna í þeim tilgangi að reyna að varpa ljósi á manninn sem framdi þetta voðaverk og að botna fyrir fullt og allt hvað það var sem fékk hann til að fremja verknaðinn. Rætt var við móður hins látna, sambýliskonu hans og lögreglumanninn sem var í sambandi við Ísleif meðan umsátrinu stóð.

Ég hitti móður Ísleifs í íbúð hennar í Breiðholtinu snemma laugardagsmorgun. Við sátum úti á svölum í blíðskaparveðri. Það var auðsjáanlegt og auðskilið að konunni þótti ekki auðvelt að ræða um þetta og get ég ekki annað en dáðst að hugrekki hennar að ræða eins opinskátt um þetta og hún gerði.
Geturðu sagt okkur aðeins frá því hvernig Ísleifur var sem barn?
Hann var bara venjulegt barn held ég. Fólki fannst hann afskaplega fallegur og geðugur drengur. Hann hafði visst lag á því að heilla fólk og var hann alltaf vinsæll þótt hann hafi kannski ekki áttað sig á því sjálfur. Ég hafði alltaf trú á honum, alltaf.
Varð Ísleifur einhvern tíman fyrir barðinu á einelti?
Það held ég ekki. Ég veit að hann var mikill einfari sem barn og unglingur og fólk hefur aldrei almennilega skilið fólk sem er svona. Það gæti verið það eina, að fólk samþykkti ekki þessa hegðun hans að vilja vera einn.
Hvernig tilfinningu hefurðu fyrir unglingsárum Ísleifs?
Erfiðir tímar. Við vorum vinir og ræddum oft saman. Eftir að pabbi hans fór frá okkur þegar hann var 9 ára átti hann alltaf erfitt með að eiga sambönd við fólk. Hann átti alltaf vini en eftir tíma missti hann alltaf áhugann og fór að gera eitthvað annað. Hann átti aldrei kærustu, ekki fyrr en hann kynntist Maríu. Hann átti samt alltaf áhugamál, tölvan, útiveran og að lesa. Ég man varla eftir honum öðruvísi en með bók undi hendinni.
Nú hafa margir velt því fyrir sér hvort hann hafi átt við fíkniefnavanda að stríða, hefur þú eitthvað um það að segja?
Ég veit það ekki, en læknarnir sem rannsökuðu hann sögðu að engin efni hefðu fundist í líkama hans.
Hvernig finnst þér lögreglan hafa staðið sig við rannsókn málsins?
Þeir hafa allir verið góðir og skilningsríkir. Þetta eru góðir menn sem unnu góða vinnu við hörmulega aðstæður.
Hversvegna heldur þú að Ísleifur hafi gert þetta?
Ég get aldrei verið viss, en líklegast til hafa það verið peningarnir. Þar sem hann hætti snemma í skóla fékk hann aldrei vinnu sem borgaði vel og ætli að hann hafi nokkurn tíman sætt sig almennilega við það. Oft átti hann erfitt með að láta enda ná saman og fékk því lán sem ég skrifaði uppá. Hann skuldaði mikið og átti ekki neitt. Þrátt fyrir að hann hafi látist vera fjörugur og ánægður gruna ég að innst inni hafi alltaf verið ófullnægður og ósáttur. Líklegast hefur honum liðið sem hann hafi grafið sér það djúpa holu að hann sá enga leið upp. En ég get aldrei verið viss. Ég veit bara að hann var góður, og að ef aðstæður hefðu verið aðrar hefði hann dafnað og orðið að miklum manni.

Nokkrum dögum síðar hitti ég fyrrum sambýliskonu Ísleifs, Maríu. Það var að nálgast miðjan dag þegar ég gekk inn á kaffi Mocca og hana sitja þar daufeygða og dapra.
Geturðu sagt okkur frá sambandi ykkar Ísleifs?
Það var fínt en við áttum okkar lægðir og hægðir eins og eðlilegt er. Við vorum ánægð saman og búin að vera það í þessi 2 ár.
Talaði hann einhvern tíman um að hann ætlaði að gera þetta?
Nei aldrei. Ég hafði ekki hugmynd um þetta.
Hvernig var hegðun hans rétt fyrir atvikið?
Um tíma var hann búinn að vera þungur. Ég veit að peningaáhyggjur voru búnar að þrúga hann um nokkurn tíma. Hann þungur og fjarrænn en á sama tíma tókst honum inn á milli að sína mér ást og umhyggju. Hann vildi ekki tala mikið, sérstaklega ekki um sjálfan sig og leið best þegar við vorum bara tvö saman.
Hversvegna heldur þú að hann hafi gert þetta?
Peningar. En það er samt svo fjarstæðukennt því að hann hafði svo sterka réttlætiskennd og vildi alltaf öllum vel. Ég held að hann hafi þjáðst óskaplega mikið, sérstaklega þegar hann hélt fólkinu föngnu inní bankanum, fólk þarna úti má ekki líta á hann sem skrímsli því að hann var það ekki. Hann var blankur ungur maður með háleita drauma sem þráði það eitt að geta aflað nóg til þess að við og mamma hans hefðum það sæmilegt. Hann var svo stoltur, þótt hann hafi ekki sagt það sjálfur veit ég að hann skammaðist sín fyrir að eiga aldrei pening. Það er svo ömurlegt að hann hafi þurft að hætta í skóla en mamma hans gat ekki séð um hann svo að hann fór að vinna og auðvitað fær ómenntaður maður engar stórtekjur, við vorum alltaf í mínus á hverjum mánuði. Hann var bara þunglyndur stoltur maður sem vildi ekki fara í gjaldþrot, svo hann leitaði örþrifaráða. Allir sem þekkja hann vita að hann var góður drengur.

Næst lá leiðin á lögreglustöðina að hitta manninn sem seinastur allra ræddi við Ísleif. Þórólfur Jónsson hefur í mörg ár unnið við lögreglustörf og segir hann að þetta mál hafi verið sitt erfiðasta hingað til.
Nú varst þú seinastur allra að ræða við drenginn, hvernig var hljóðið í honum?
Það var þungt yfir drengnum sem eðlilegt er. Hann talaði mikið um hvað hann sá eftir öllu og hvað honum fannst hann vitlaus að hafa leitað þessara ráða. Þegar ég reyndi að biðja hann að gefast upp þvertók hann fyrir það, sagðist ekki vilja verða eins og pabbi sinn, einhver stofnanamatur.
Ræddi hann um hversvegna hann gerði þetta?
Nei, ég reynda að ræða það við hann. Spurði hann hvað vakti fyrir honum en æsti sig þá bara.
Hefur þú einhverjar hugmyndir um hversvegna hann gerði þetta?
Ég vill ekkert tjá mig um það.
Eitthvað meira sem þú vilt segja um málið?
Já, eftir að hafa unnið í lögreglunni í 15 ár tel ég mig nokkuð laginn við að þekkja fólk og get ég sagt með vissu að þessi ungi drengur er ekki eins og margir þeir sem ég þarf að fást við. Hann sýndi raunverulega iðrun og þykir mér óskaplega leiðinlegt að svona hafi farið fyrir honum.
Finnst þér þú hafa á einhvern hátt brugðist þar sem málinu endaði svona?
Það meiddust engir saklausir borgarar og það er alltaf það mikilvægasta í svona málum.

Þegar ungur maður sviptir sig lífi eftir að hafa reynt bankarán er eðlilegt að maður fari að hugsa. Maður fer jafnvel að velta því fyrir sér hverjum það er að kenna að hann leitaði þessara ráða. Er það faðirinn sem yfirgaf son sinn fyrir frama í dómssölum og stofnunum? Er það láglaunakerfið sem er þannig gert að þeir ógæfusömu hafa það verr og verr? Var það bankakerfið sem eignast fólk vegna skulda? Voru það einhverjir geðsjúkdómar sem enginn var búinn að taka eftir? Nú leyfi ég hverjum og einum að giska á það sem þeir halda að sé rétt því að sannleikurinn lést með Ísleyfi 15. júní 2003.


***

Er ég virkilega að fara að gera þetta? Getur hugsast að sú þráhyggja sem hefur hrjáð mig svo lengi eigi mig nú?
Ísleifur hafði átt svefnlausa nótt. Hann lá uppi í rúmi þar til María sofnaði en þá laumaði hann sér fram og kveikti á sjónvarpinu. Samt var hann ekkert að pæla hvað var í því, honum fannst róandi að hafa smá klið meðan hann hugsaði.
Hann tók sér penna í hönd og skrifaði.

Það koma tímar
þar sem ég vakna og skil ekki neitt.
Ég sest upp í rúmi mínu,
lít í kringum
og veit ekki hvar ég er.
Horfi í spegil
og þekki ekki þann
sem lítur til baka.
Ég reyna að muna
en minnið er farið.

Ég lít inní hjarta mitt
og horfi á gjörðir mínar
og skil ekki hversvegna
ég geri það sem ég geri.
Já oft hef ég vaknað
og ekki skilið neitt
en þó, þegar hulan sveipist frá
skil ég og veit,
en það gleymist oft fljótt.
Of fljótt,
svo að ekkert gerist,
nema að ég vakna aftur
og aftur
ráðþrota og ringlaður
með nagandi samviskubit.

Ég hef logið, svikið og lifað í blekkingu.
Ég er bý til heim
þar sem allt er auðveldara,
þar sem ég fel gjörðir mínar með lygum
vegna þess sjálfsfyrirlitningin er svo mikil.
Ég hugsa og geri hluti sem ég skil ekki,
án þess að hugsa um hvaða afleiðingar
gjörðir mínar geta haft á aðra.
Ég er rottan sem nagar og nagar
í tilfinningalíf annarra
þar til það molnar og hrynur.
Ég geri hluti sem ég vill ekki gera
og skil ekki hvers vegna ég geri þá.
Ég skil ekki hvers vegna rökhugsun brást.
Ég skil ekkert,
nema að ég get ekki lifað svona lengur…