Um sjöleitið finnur maður matarlyktina liðast upp stigaganginn og þröngva sér inn um skilningarvitin. Húsmóðir á einhverri hæðinni fyrir neðan lætur kássu malla og sýður kartöflur. Ég fæ mér 1944 rétt. Fyrir sjálfstæða íslendinga. Í huganum sest ég til borðs með fjölskyldunni og snæði með þeim.
Að lokinni máltíð leggst ég upp í beddann minn og bíð. Bráðlega laumast þeir inn um skráargatið og upp í gegnum gólfið, tónarnir, einn af öðrum. Fyrst dauflega, síðan hærra og af æ meiri ákafa. Heimasætunni fer sífellt fram á píanóinu. Upphaflega hlustaði ég gaumgæfilega á hana tipla upp tónstigana óörugg og feiminn. Undanfarið hafa tónverkin orðið mun voldugri. Ég geri ráð fyrir að litla stelpan sem ég sá í garðinum fyrir nokkrum árum sé að verða að konu. Maður trúir því varla að þetta sé sama manneskjan sem spilar. En ég hef fylgt henni alla leið og ég þekki stílinn sem hún hefur þróað með sér. Svo vel þekki ég orðið ryþmann hjá stúlkunni að þrátt fyrir að þekkja hana ekki í sjón er ég handviss að ef ég yrði einhvern tímann á vegi hennar yrði ég strax var við taktinn. Þó það væri ekki nema frá göngulaginu. Hjartslættinum.

Piparsveinalífið er lítið gaman. Frá því ég yfirgaf skaut móður minnar fyrir rétt rúmum fjórum áratugum hef ég verið kvenmannslaus og lítið nálægt kvenmannsskautum komið. Ég man ekki hvað ég hef búið hér lengi. Lengi. Kytran mín er tíu fermetra geymsla undir súð í Vesturbæjarblokk. Einmitt við þær aðstæður sem þú hélst að fyrirfyndust ekki hjá okkar auðugu þjóð. Mín laun leyfa vart meira, enda þarf ég ekkert betra. Ég ætla ekki að fara nánar úti hvernig það kom til að ég dagaði hér uppi, það gerðist bara og það þýðir lítið að ergja sig á því. Ég er löngu hættur að sjá eftir neinu. Það kemur aðeins stöku sinni fyrir að ég sjái fyrir mér öðruvísi líf. Kannski ekki betra líf, bara ekki jafn einmanalegt.

Ég fer í vinnuna áður en aðrir eru farnir á fætur og er kominn heim rétt eftir hádegi þegar aðrir eru enn að sinna sínum störfum. Fáir leggja leið sína hér upp í geymslu svo ég verði var við. Stundum heyrir maður í skrefum og skruðningum í lyklum en svo verður allt hljótt á ný. Eitt sinn komu þeir tveir saman og ég heyrði þá spjalla saman í gegnum þunna hurðina. Mér heyrðust þeir vera að ná í plötur út einni geymslunni. Þetta er mér sérstaklega eftirminnilegt því að eftir smá spjall þá þagnar annar þeirra og hvíslar einhverjum andartaki seinna. Ég stóð upp þétt við hurðina og reyndi að mana mig í það að fara fram og heilsa þeim. Þá spurði hinn stundarhátt eitthvað í þá veru hvort hann vissi ekki eins og allir aðrir í blokkinni að það byggi gamall karlfauskur inni í einhverju herberginu sem aldrei sæist í. Samstundis guggnaði ég. “Hálfviti, “ man ég að ég hugsaði með mér, “ ég stend hér í örfárra skrefa fjarlægð í burtu frá þér og heyri allt.”

Ég forðast í lengstu lög að velta fyrir mér sjálfsmynd minni og vill aðeins varðveita hana eins og hún eitt sinn var, eins og minnisvarða. Án þess að átta mig á því þá hef ég einmitt á þann hátt verið að móta hana. Hún hefur smásaman verið að þurrkast út. Ég er ósýnilegur. Orð mannsins minntu mig óþyrmilega á að ég er ekki ósýnilegur. Í augum sumra er ég bara karlfauskur.
Seinna um kvöldið.heyri ég úr íbúðinni fyrir neðan að lokinni píanóæfingu að gamlar djassslagara eru settir á fóninn og mér varð ljóst að mennirnir tveir væru ljóslifandi komnir húsföðurinn og eldri sonurinn. Þetta þýddi að fólkið þar á bæ vissi af mér. Það bæði gladdi mig og gerði mig sorgmæddan í senn. Í þeirra augum var ég vísast til bara eins og hver annar veggur í blokkinni. Það er betra að vera veggur en ekki neitt. Þó er ég handviss um eitt, að heimilisfólk skyldi ekki til hlítar orðatiltækið að veggir hefðu eyru.

Eitt sinn um miðja nótt heyrði ég mér til mikillar undrunar í afskaplega daufu píanóspili að neðan. Ég gat ekki ímyndað mér að margir væru vakandi á þessum tíma og sá fyrir mér að unglingsstúlkan á heimilinu hefði legið andvaka eins og ég og læðst fram og byrjað að spila á píanói til að slökkva á eirðarleysinu sem ég þekkti frá þessum árum. Lagavalið hefði vart getað verið meira viðeigandi. Ljúflega lék stelpan Tunglskinssónötuna enda var tunglið fullt og afar stórt þá nóttina. Ég sá í gegnum gluggaholuna mína hvernig það óð í skýjunum. Það var nær lesbjart í kytrunni minni. Ég skyldi þá að píanóið hlyti að standa upp við þessa flennustóru stofuglugga sem eru í þessum íbúðum. Hún var að horfa á það sama og ég. Skyndilega greip mig smá tunglsýki eða ef til vill var það aðeins fífldirfska í skjóli nætur sem blossaði upp í mér. Aldrei þessu vant þá opnaði ég hurðina varlega, læddist fram á gang og fikraði mig hljóðlega niður.Sónatan varð sí skýrari eftir því sem neðar dró. Á öðrum stigapalli var mér skapi næst að setjast einfaldlega á hækjur mér og láta nægja. Forvitnin rak mig áfram. Tónlistin barst úr íbúðinni sem var beint undir herberginu mínu. Ég starði á hurðina. Þetta var ekkert sérstök hurð. Alveg ómerkt. Bara eins og allar hinar hurðarnar í húsinu. Eitthvað var um skó fyrir utan dyrnar en þeir sögðu mér ekki neitt í náttmyrkrinu. Þrátt fyrir að vera bara ósköp venjuleg fjöldaframleidd timburhurð þá var hún á sama tíma undursamleg tónlistarvél og hlið yfir í annan veruleika.
Ég snerti hana létt með fingurgómunum og strauk henni. Neðar og neðar. Ég lagði kinnina upp að brjóstkassa hennar og hlustaði á hjartsláttinn. Ég veit ekki hvað ég stóð lengi á hleri, meira man ég ekki af þessari nótt. Þetta var samt ekki draumur.

Þegar ég fer í vinnuna á morgnanna velti ég því stundum fyrir mér hvaða bíl á bílastæðinu gæti verið þeirra. Ef ég hafði tíma fór ég jafnvel og kíkti á gluggana á bílunum til að geta dregið rökréttari ályktanir. Einn bíll fannst mér líklegastur. Það var silfraður steisjón-bíll. Þetta var greinilegur fjölskyldubíll. Í skottinu voru úlpur á börn og unglinga og iðulega var mikið drasl aftur í. Bestu sannanirnar fannst mér þó vera tvær. Í fyrsta lagi sá ég einu sinni glitta í nokkra geisladiska í framsætinu. Ég sá að þetta voru m.a. Bítlarnir og hljómsveit sem hét Pottþétt. Jafnframt sá ég geisladisk með frægum djassara og var það sönnunin. Betra hefði þó verið ef þarna hefðu verið geisladiskar með klassískri píanótónlist en ég ímyndaði mér að kannski hefði stúlkan ekkert um tónlistarvalið að segja. Þó hafði ég fengið staðfestingu fyrir því að meðal eigenda bílsins var tónlistarfólk því ég hafði eitt sinn séð þar fiðlu. Að vísu hafði ég aldrei heyrt spilað á fiðlu í blokkinni en sá fyrir mér að þarna hefði verið á ferð einhver vinkona píanóstelpunnar úr tónlistarskólanum, því eins og er alþekkt er þá sækjast sér um líkir. Fyrir mér var fiðlan veigamikil sönnun. Ólíklegt var að ég ætti einhvern tímann eftir að sjá píanó í silfraða steisjón-bílnum en þá var fiðla næstum jafn gott.

Eftirmiðdagur í apríl. Ég var að hlusta á útvarpið þegar ég heyri skyndilega heimilsfangið mitt. Það var verið að flytja kveðju og óska Einari Þór Áskellsyni og fjölskyldu (sem bjó í sömu blokk og ég) til hamingju með fermingu drengsins. Ég lækkaði í viðtækinu og hlustaði af öllum lífs og sálar kröftum. Jújú, það fór ekkert á milli mála, umgangurinn á hæðinni fyrir neðan var greinilegur. Ég vissi að Einar þessi hlyti að vera yngsti sonurinn á heimilinu og pabbinn, sá sem hafði haft frammi hin tillitslausu orð í geymslunni löngu áður, hét þá Áskell. Þetta fólk var allt orðið sífellt raunverulegra í mínum augum um leið og ég hafði nöfn til að tengja það við. Ég man ekki hvernig ég komst að þeirri niðurstöðu en ég vissi allt í einu að mamman á heimilinu, sú handlagna húsmóðir, héti Þórunn Einarsdóttir og þá lá beinast við að dóttirin músíkalska héti Steinunn Áskellsdóttir. Ég leit á klukkuna og skyldi að veislan var í þann mund að byrja. Ég heyrði dyrabjöllunni hringt í sífellu, skvaldur og af og til hlátrarsköll að neðan. Ég sá mér fyrir hugskotssjónum að hér væri kominn Einar afi og Steinunn amma og þarna væri Silja, skrítna frænkan og Dísa og Rúnar, vinahjón Áskells og Þórunnar.
Án þess að vita almennilega hvað ég hafði í hyggju byrjaði ég að klæða mig upp. Þegar ég var kominn í gömlu snjáðu jakkafötin leit ég í spegilinn og virti mig fyrir mér. Það var langt síðan ég fór í þessa múdderingu. Nú yrði ég að láta til skarar skríða. Það var eins og það væri risa stór gapandi hola í brjóstinu á mér. Ég greip þéttingsfast í hurðarhúnin en höndin á mér varð á því augnabliki gersamlega máttlaus. Handleggurinn á mér titraði. Þarna hafði ég alltaf gefist upp. Lengra hafði ég aldrei komist. Hræðslan var svo yfirþyrmandi að mér fannst sem ég rambaði á hengiflugi. Eitt augnablik gleymdi ég öllu. Þegar rænan sótti mig á nýjan leik stóð ég handan þröskuldsins. Fyrir mér var þetta meiriháttar sigur. Ég skildi varla hversu auðvelt þetta hafði verið. Ég hafði aldrei verið fegnari. Í sigurvímu held ég fumlaust niður á hæðina fyrir neðan. Mér leið eins og ég væri í tilhlaupi fyrir langstökk. Ég hikaði aldrei. Gaf mér ekki tíma til að hugsa. Ég óð bara niður hvert þrepið á fætur öðru og réðst síðan með hnefanum á hurðina og bankaði eins og ég ætti lífið að leysa.
Lengi bankaði ég án svars. Eftir drjúga stund heyrði ég loks að yrt var á mig. Ég sneri mér við og sá hvar miðaldra kona stóð í dyrargættinni á íbúðinni á móti og hallóaði mig.
Sæl, hvíslaði ég á móti.
Það er aldeilis að þú bankar, sagði hún.
Ég svaraði engu.
Það þýðir ekkert að banka, það mun engin svara, sagði konan.
Smástund þagði ég.
Fermingin… ég rækti mig. Fermingin hans Einars, er hún ekki í dag, stundi ég loks út úr mér.
Hún hugsaði sig um og brosti svo.
Varstu á leiðinni í ferminguna hans? sagði hún hlýlega og þóttist nú skilja allt.
Nei, sagði hún, þau Áskell og Sigrúnu leigðu sal undir veisluna.

Já, þá taldi ég mig skilja hvernig á öllu stóð.

En þá bætti hún við: auk þess búa þau ekki á þessum stigagangi heldur í stigaganginum við hliðin á. Þú ert á villigötum vinurinn, hver hleypti þér eiginlega inn.
Ég áttaði mig á mistökum mínum.
Fólkið í þessari íbúð hleypti mér inn, sagði ég og benti á íbúðina þar sem fjölskyldan mín bjó, en þó engin Einar og enginn Áskell.
Konan horfði á mig og hnykklaði brýrnar.
Nei, nú hlýtur þér eitthvað að skjátlast, sagði hún. Þarna hefur engin búið í fjöldamörg ár.


(Fyrstu drög að smásögu)