Fallegasta gríma í heiminum.
Hvítur grunnur. Svartar línur. Rauðar kinnar. Vinalegt bros að eilífu útskorið.
Bak við grímuna eru tvö blá sindrandi augu sem stara á spegilmyndina. Þekkja hana svo vel, þekkja brosið svo vel. Hann man samt ekki eftir húðinni, eftir frekknum eða fæðingarblettum. Hann man ekki eftir spékoppum eða hláturhrukkum. Hann man bara eftir fallegu grímunni. Fallegustu grímu í heiminum.

Hann er tilbúinn fyrir dansleikinn. Hann er alltaf tilbúinn. Af öllum þá er hann hæfastur. Kann að hneigja sig. Kann að brosa. Hann kann öll sporin, hvern einasta tón sem spilaður er. Fallegasta gríman í hóp af fallegum grímum.

Hann yfirgefur spegilmyndina. Gleymir bláu augunum sem störðu til baka framan í hann.

Tónlistin mætir honum, hann setur sig strax í taktinn. Hurðin opnast og salurinn blasir við. Þarna eru þau öll. Fallegustu kjólarnir, sindrandi gimsteinar, pússaðir skór og straujaðir jakkar.

Og grímurnar

Allar grímurnar í öllum regnbogans litum, öllum heimsins formum. Brosandi, hlæjandi, jafnvel grátandi. Stjarfar í tilfinningunni.
Hann gengur niður stigann, lítur í kringum sig. Fyrsta gríman, rauðar fallegar línur, græn augu. Hann hneigir sig og tekur létt um hönd hennar og þau dansa, dansa öll réttu sporin, dansa í fullkomnum takt. Áður en hann veit af er lagið búið. Hún hneigir sig, hann hneigir sig. Hann heldur áfram að leita, nýjar hendur, nýjar grímur. Lag eftir lag.
Eins og synfónía af fullkomnum hreyfingum snýst salurinn í takt. Öll réttu sporin.

Síðasti valsinn.

Fæturnir þreyttir og augun þurr. Síðasta gríman. Græn eins og gimsteinn, eins og hjarta frumskógar. Bak við stara tvö blá augu til baka í önnur blá augu, stara í gegnum þau.
Hann réttir fram höndina og hún grípur um hana, fast, ákaft. Lagið hefast á ný. Hann reynir að finna réttu sporin en hún er ekki að dansa sama dans. Hún dansar hraðar, taktlausar. Hraðar og hraðar og heimurinn snýst. Augu læst við augu. Hraðar og Hraðar

Stopp.

Allt stansar. Andadrátturinn hraður. Án þess að hugsa rífur hann af sér grímuna. Hún rífur af sér grímuna. Hann hélt hann gæti aldrei séð neitt svona fallegt, vill aldrei loka augunum aftur. Hún teygir sig upp. Varir snerta varir í fyrsta skipti. Hann leifir sér að loka augunum. Njóta hlýjunar. Andartakið sem aldrei endaði. Átti aldrei að enda.

Síðan fraus heimurinn. Andlitið kólnaði en hlýjan í vörunum varð að brennandi sársauka. Það var sem skinnið væri að rifna frá andlitinu. Hann rífur sig í burtu, hann varð, þreyfaði eftir grímunni í gólfinu, grípur hana og smeygir yfir andlitið.
Hann opnar augun. Bláu augun mæta honum, tárin renna niður vangann og snerta varirnar. Hann óskar þess heitast að gríman springi af honum, brotni í þúsund mola svo hann gæti aldrei sett hana saman aftur. En hún situr sem fastast, köld og hörð.

Síðasta tárið rennur niður kinnina. Hún teygir sig hægt niður og nær í grímuna, gimsteinagrænu grímuna og smeygir henni hægt yfir andlitið, varirnar. Augun mætast í síðast skiptið en hann getur ekki haldið þeim opnum. Hún bakkar í burtu, lengra og lengra inn í skuggann þangað til hann er einn. Einn í salnum.

Og hann vildi aldrei dansa aftur.

Síðasti grímudansleikurinn.