(ÉG HATA UPPSETNINGUNA Í ÞESSU RUGLI!)

Hux

Lafmóður og sveittur kemst ég upp stigann. Ég ætla að hætta að reykja. Ef þetta sjúkrahús myndi ganga af mér dauðum þá skal ég hlæja manna mest upp í himnaríki.
Ég vona að það sé rúllustigi upp til himnaríkis. Ég hef ekki úthaldið allar tröppurnar upp. Ég held að helvíti sé stútfullt af reykingarmönnum, einfaldlega því þeir gátu ómögulega þolað allar tröppurnar til himna og létu sig falla til heljar.
Er það kalhæðni að krabbameinsdeildin sé uppi á efstu hæð spítalans, því þú ert nánast kominn hálfa leið til himna loksins þegar stiginn endar.

Mamma mín er með lungnakrabba, búin að berjast við þann djöful í átta mánuði. Ég viðurkenndi reykingarnar mínar sama dag og hún sagði mér frá krabbanum. Er ég svona næmur á kaldhæðni eða er hún alltaf svona augljós í kingum okkur. Talandi um kaldhæðni, þegar ég var 14ára gamall, þá dó einn af mínum betri vinum. Hann var úti á landi og hrasaði í klettum, hrapaði 10 metra og lenti með höfuðið á stórum steini, steindrapst samstundis og viti menn, hann hét Hafsteinn, kallaður Steini. Ég viðurkenni það að hafa hlegið af þessu nokkrum mánuðum síðar. Það þótti fólki ekki eins skemmtilegt og mér.

Loksins finn ég herbergið sem hvítklæddu, dularfullu læknaverurnar geyma hana mömmu í. Hún lítur ekkert vel út, reyndar lítur hún hræðilega út. Þessi baráttukona hafði barist svo hratt að hárið hennar hvarf. Síða, liðaða hárið var horfið og loksins sá ég hvað hún var með lítið höfuð. Strax fæ ég samviskubit yfir því að hafa kallað hana heimska í gegnum tíðina. Ekki gat manneskjan rúmað mikinn heila í þessari agnarsmáu hauskúpu. Hún hafði þó plantað viljanum ágætlega vel þarna inn í og kannski matarmennskunni.
Hvað á ég að borða þegar hún deyr?

Ég heilsa mömmu og hafði ákveðið að eyða smá tíma með henni svona síðustu skrefin. Hún er með hárkollu sem hún skellir á kollinn. Þetta er ekki mamma lengur. Hún er með veikburða andlit útigangsmanns og hár forseta. Ég fæ gæsahúð við að fylgjast með henni strögglast svona áfram.
Mamma spyr hvort ég sé ekki svangur og ég geri þau mistök að segja jú. Hún byrjar að brölta um í rúminu og nær í poka. Maturinn minn er hálfbráðnað ópal. Takk, mamma.

Fuglahjörð flýgur yfir, heyrist mér en kemst að því mér til mikillar skelfingar að þetta er ekki fuglahjörð, þetta er allt önnur dýrahjörð, saumaklúbburinn. Það eina sem ég skammast mín fyrir að vita að sé til.
Besta vinkona mömmu, Guðrún Halla er þarna komin með fríðum flokki miðaldra snobbaðra kvenna. Ég sé eftir því að hafa komið. Önnur vinkona mömmu, Elín, spyr mömmu hvort hún hafi verið í klippingu. Mér langar að berja hana á staðnum.
Slepptu á mér kinninni og hættu að segja að ég sé sætur! Ég er tvítugur og kominn með þétta skeggrót, ég get ekki verð sætur! Guðrún Halla hefur gert þetta við mig síðan ég var þriggja ára gamall, ekkert hefur breyst nema það að núna finn ég peninga lyktina af puttunum hennar, ríka, snobbaða kona. Ég ætla að vona að mamma sé ekki svona við krakkana hennar, úr öllum þremur hjónaböndunum.

Ég kyssi mömmu á kinnina og sé að hún nennir ekki að hafa fuglana inni hjá sér. Ég hleyp út og er svangur. Hvað á ég að borða þegar mamma deyr.

Læknarnir gáfu mömmu eitt til tvö ár eftir ólifað en miðað við hressleika og dugnað held ég að ég fari á undan henni, alla vegana pabbi. Fyrir nokkrum mánuðum fór ég að hugsa um það að eftir nokkra mánuði væri ég einn eftir af okkar fjölskyldu, það var sá hluti ævi minnar sem ég svaf ekkert og hugsaði rosalega mikið um allt og ekkert. Ég meira að segja hugsaði um það að hætta að hugsa en þá komst ég að því hversu sjálfselskur ég er í raun og veru. Hvern djöfulinn á ég að borða þegar mamma deyr!?
Á leiðinni heim hringir síminn minn. Af hverju er ég ennþá með þessa hræðilegu hringingu, hún skerst í eyrun. Ég svara Marinó, besta vini mínum úr Iðnskólanum. Fíflið er búið að læsa sig úti og vill að ég komi að ná í hann og borði með honum hamborgara.
Marinó hefur líklega af öllum lifandi verum og dauðum borðað flesta hamborgara ef kalla mætti þetta hamborgara sem hann fær sér. Hann fær sér allt á hamorgarann líkt og þetta sé pylsa. Ég einn get sagt að átta lög af osti og súrar gúrkur lyktar úldið. Marg oft hef ég sagt við hann að þetta gæti bragast betur ef þetta væri einfaldara, en Marinó er ekki einfaldur maður, eða er ég kannski ekki að hugsa eins og hann?
Ég man þegar ég vann í matvörubúð og maður kom og spurði hvort ég ætti popp maísbaunir, ég athugaði málið og komst að því að ég átti ekki baunirnar, þannig að sami maður tók tilbúið popp í poka. Ég hugsaði lengi um það af hverju maðurinn valdi annað hvort maísinn eða tilbúið popp, flóknu eða sáraeinföldu leiðina, af hverju ekki bara miðjuna? Þá rann það upp fyrir mér, maðurinn átti ekkert örbylgjuofn. Þannig að þessi maður er nákvæmlega eins einfaldur og Marinó með sína hamborgara, ég er bara ekki að hugsa eins og þeir.

Eftir að hafa fengið hamborgarann og eftir að hafa fylgst með Marinó virða fyrir sér borgarafjallið sitt bendi ég honum varlega á það að hann er með heilan kjöthleif fastan í ljótri skeggrót. Hann segir í gríni að hann geymi alltaf smá nesti þarna. Í nokkrar sekúndur fæ ég gríðarlega tilfinningu eins og það skásta sem ég get gert sé að gubba á hann.

Síminn minn hringir og Marinó skipar mér vinsamlegast um að skipta um hringingu því hún skerst í eyrun. Þetta er mamma og hún er að biðja mig um að lána sér pening. Strax líður mér illa en ég veit að þetta er fyrir lyfjunum og ég á engan pening. Ekki datt mér í hug að hún yrði að skaffa lyfjunum sjálf, en annars veit ég ekkert um hennar plögg og pappíra um lækniskostnað. Ég verð að segja mömmu að ég láni henni pening þótt ég hafi minnstu hugmynd allra í heiminum hvernig ég ætla að fara að því. Ég held meira að segja að sjálfur Guð viti ekki alveg hvað ég sé að spá. Ég neyðist til að leiða þetta splunkunýja vesen fram hjá mér þegar Marinó fer að segja mér sögu frá gellunni sem hann reið um helgina. Núna veit ég að ég hef fengið samþykki páfans til að gubba á hann.

Ég hendi Marinó heim til sín og keyri hugsandi heim. Ekki get ég hringt í pabba, hann á ekki rassgat. Ég verð að fá mér sígarettu, ég virðist hugsa betur þannig. Eftir að hafa tekið einn smók af rettunni dettur mér það eina í hug sem gæti gengið upp, ég ræni banka. Ég verð bæði frægur og ríkur á örskömmum tíma, en jafnframt heimskur. Ég sofna.

Daginn eftir vakna ég við helvítis fuglinn sem syngur fyrir utan gluggann minn alla morgna og vekur líklega alla götuna. Þessi fugl er samt líka ástæðan fyrir því að ég veit að enginn í götunni minni á byssu, það er þó fyrir bestu. Lafmóður og sveittur kemst ég upp úr sófanum. Ég ætla að hætta að sofa í fötunum. Dagurinn lítur út fyrir að vera fullkominn, sólin er steikjandi heit og ekki ský að sjá. Ég er ennþá staðráðinn í því að ræna bankann og hef aldrei verið jafn ákveðinn um hlut nema þegar ég pantaði flug til Amsterdam á einu fylliríinu. Ég ætla ekkert að skipuleggja þetta því ég er viss um að ég klúðri þessu frekar ef ákveði hluti og neyðist til þess að fara eftir ákveðinni rútínu. Ég ætla bara að hoppa inn og taka peninginn. Málið er að mig vantar vopn, því fólkið er ekki hrætt við ræningjann heldur þunga málmhlutinn sem hann heldur á. Ég á vatnsbyssu, en er fólk ennþá jafn heimskt og í gamla daga? Er hnífur kannski meira særandi þó svo að hann sé saklausari í útliti? Er hnífur kannski kjörið vopn, ég ætla að taka skraut rýting sem ég á upp á vegg, hann er reyndar jafn meinlaus og hann er bitlaus en hann ætti að virka.

Ég hoppa út með rýtinginn inná frakkanum og lambúshettuna í vasanum. Það fer kaldur kjánahrollur um allan líkamann á mér og hjartað slær á þreföldum hraða. Það gerir mig bara spenntari. Ég hoppa upp í bílinn og bruna af stað. Hendurnar ná engu gripi á stýrinu sökum svita, er ég hálfviti? Ég verð svangur á þessu veseni og stoppa við bílalúgu og kaupi pakka af föggum og einn feitan borgara. Afgreiðsludaman er pottþétt með bringuhár, mikið rosalega er hún sveitt á nefinu. Eru sjoppu hamborgarar það sem ég borða þegar mamma er dáin? Eða skiptir hún mig kannski ekki máli þar sem ég er farinn að borða þá stöðugt nú þegar. Er þetta sjálfselska í mér eða er ég að hugsa rétt? Ég fæ mér þrjú tyggjó og skelli rakspíra-prufu á mig, ég held að fólkinu í bankanum líki betur við mig ef ég lykta vel.

Ég stoppa bílinn minn fyrir framan þekktan banka í bænum, ég hugsa ekkert um hvort ég þori þessu eða ekki, ef löggan gómar mig þá get ég sagt að þetta séu peningar sem fara í það sem peningar eiga að fara í, góða hluti, því ég veit að ég er ekki vondur maður.

Ég þurrka lófana á mér, set hettuna á mig og tek upp rýtinginn, ég hoppa inn í bankann og öskra á peningana. Ég frýs svo, kerfisvilla, kerfisvilla, bilun! Ég er stjarfur en veifa þó rýtingnum um, það stara allir á mig. Mér finnst eins og heilinn grafi upp alla röngu hlutina sem hugsa skal um á þessum punkti. Þarna stendur hrædd gömul kona með kleinuhring í poka, eignast ég barnabarn? Þarna er skólastrákur með þykk svört gleraugu og með hliðartösku, af hverju fór ég aldrei í MH, hann er þó með flotta skeggrót, vá, hvað ég er týpan í MH. Þarna er lítil stelpa, hún er ekki hrædd við mig, er einhver þarna inni hræddur við mig? Er ég kannski bara hræddur við allt fólkið? Af hverju kom ég mér ekki fullur í þetta vesen, ég er skíthræddur og orðinn dasaður af stressi. Var áfengi fyrsti vírusinn, ég verð svo ruglaður í hausnum á því. Hvað ætli þetta fólk haldi um mig. Er ég skíthæll. Var það síðhærð manneskja sem bjó til fyrstu húfuna? Stopp! Hættu að hugsa, hættu!

Tveir einkennisklæddir lögregluþjónar koma inn og handjárna mig. Rosalega voru þeir snöggir, hvað stóð ég annars lengi þarna inni stjarfur? Hvað var ég að hugsa!

Mér er hent inn í fangklefa og fæ svo þær fréttir sem mér datt ekki í hug að kæmu svona fljótt. Mamma dó á meðan ég var að reyna að bjarga henni. Hún dó sofandi á meðan ég sveiflaði rýting um í allar áttir. Ég græt.

Hleri á klefahurðinni er opnaður,
Shit, þá veit ég loksins svarið.