Þegar goðin sökkva - 2. hluti [Fyrirvari: Farið er frjálslega með sagnfræðilegar staðreyndir. Reyndar mætti segja að ég níðist algerlega á öllu sem heitir sagnfræðilegar staðreyndir.]

Evrópa er sú álfa heimsins sem Ísland tilheyrir. Um þessar mundir logaði hún og iðaði af átökum. Í vari vestan Atlantshafsins mókti Ameríka í hægindum sínum og Jón Sæmundsson frá Íslandi lærði læknisfræði. Lengst í austrinu, austar en hið vestræna auga eygir áttu sér stað miklar tilfærslur fólks. Þjóðflutningar. Milljónir og fleiri milljónir manna flosnuðu frá hýbýlum sínum og gengu í takt þvers og kruss fjalla á milli eftir því í hvernig skapi heimsherrunum hafði þóknast að vakna í þann morguninn. Meirihlutinn sogaðist á endunum í stríðsbálið. Þar brunnu þeir flestir.
Í faðmi móður Rússlandi búa margar þjóðir misskyldar. Í norðanverðu Kína, við landamæri Kóreu er borgin Vladivostok, Herra Austursins, útvörður hins mikla veldis sem nú var í höndum bolsévíkinga.
Alex var ekki kínverji og því ekki ættaður úr borginni upphaflega. Samt hafði áar hans búið þarna svo lengi sem menn mundu. Það var þó ekki sérlega langt. Glöggir menn könnuðust eftilvill við gyðingaleg einkenni í andlitssvipnum og þá var ekki mjög langsótt að álíta að hann hafði komið með Síberíugyðingunum á sínum tíma þegar menn héldu enn að væri góðmálmar í fjöllunum. Hvaðan Síberíugyðingarnir komu nennir engin að velta sér upp úr.
Þetta rótleysi skipti þó Alex engu máli því í Vladivostok átti hann heima og þar þekkti hann hvern hól og þúfu. Hann hafði alist upp á bryggjusporðnum og hvergi annarsstaðar fannst honum hann vera öruggur.
Hann hafði því síður en svo gaman af því þegar Japanir tóku sig til og örkuðu yfir Japanshaf og hertóku Herra Austursins. Rauði herinn var upptekinn á öðrum vígstöðum og því þýddi lítið fyrir menn annað en að stökkva upp í næsta hrákadall og koma sér þaðan. Alex hafði lítið stigið í land síðan þá.
Í dag var hann háseti á bresku olíuflutningaskipi. Það flutti olíu frá Ameríku til Bandamanna í Evrópu. Friðarhöfðingjarnir í Washington og London höfðu trú á hinnu stuttu sjóleið norður eftir til ísstranda Rússlands (Hinum megin á hnettinum miðað við það Rússland sem Alex hafði alist upp í og elskað). Það varð þó að teljast óheppni að einmitt á svipuðum slóðum höfðu þjóðverjar ákveðið að eyða sínu púðri og skipastól (að ógleymdum kafbátunum) af sem mestri ákefð.
Þrátt fyrir að vera á einum af galeiðum bretadrottningar var Alex þó ekki enn beinlínis farin að drekka te í öll mál enda engir bretar á skipinu. Engin breskur karlmaður var með næga sjálfsvígshvöt til þess að láta munstra sig á þessalags fleyg og grátbað frekar um að skríða ofan í grafirnar á vígstöðunum eins og feður þeirra höfðu gert við svo góðar undirtektir.
Áhöfnin voru því mest megni rússneskir heimilisleysingjar eins og Alex eða Bandarískir óþokkapilta, en þar var af nóg að taka. Kafteininn var indverskur og hann drakk te.
Alex var kominn með óbeit á sjónum, stríðum og öllum stöðum sem ekki hétu Vladivostok. Þegar hann lét menn vita af þessu hló fólk og spurði hvort hann gæti þá ekki allt eins fleygt sér útbyrðis fyrst hann var kominn með ógeð af öllu því skemmtilega í lífinu.
Það var raunar möguleiki sem Alex hafði margoft íhugað. Mannvonska heimsins virtist hvort sem er engin takmörk sett.
Kvenmann hafði hann ekki séð nema í hendingu svo árum skipti. Hann saknaði þeirra sosum ekkert sérstaklega. Farmenn á borð við hann höfðu lítið við eitthvert kvensnifti að gera bundið um fótlegginn. Þá líkaði honum betur við strákana. Af og til rötuðu ungir piltar upp á dekk hjá honum og hann lynti oft vel við þá. Stundum gat liðið vikur milli þess sem fengu að fara í land en þrátt fyrir blátt bann kafteinsins þá slökkti það ekki þarfir þeirra. Lengi getur maður verið sjálfum sér nógur en annars reddaðist þetta. Maður er manns gaman.


Sævar var í óðaönn að negla þakplöturnar við þverbitanna en skimaði af og til yfir Garðsjó á Faxaflóa. Hann var greinilega utan við sig. Hann reisti sig við og kallaði til hinna strákanna og spurði hvort þeir yrðu varir við skipakomur suður með Stafnesi.

„Nei,“ sagði Kolbeinn, markvörður af líf og sál. „Það er engin skipalest í augsýn. Þú veist að þú þarft ekkert að búast við því að sjá glitta í Goðafoss fyrr en fyrst upp úr eftirmiðdeginum.“
Sævar þagði. Hann vissi þetta, en vissi þó líka að það kom oft fyrir að skip væru vel á undan áætlun ef vel viðraði. Þó hafði verið líklegra undanfarið að þau drægust aðeins. Sjórinn suður með Íslandi var varhugaverður og skipalestirnar urðu stundum að standast harðar orrahríðir. Það var heldur ekki óalgengt að skaði yrði…
Ónotatilfinning fór um Sævar. Hann mátti ekki til þess hugsa. Heitt og innilega bað hann til guðs að Goðafoss væri heill á húfi og að þýðversku kafbátarnir hefðu valið að granda einhverju öðru skipi í dag.
Maður á að fara varlega með það að óska sér því stuttu seinna hummar Stjáni sem sat við vinnu á vesturvængnum og segist sýnast sjá skip rétt norður af Eldey. Strákarnir lögðu frá sér verkfærin og pírðu augun.
„Þetta er stakt skip, svo ekki er þetta Goðafoss,“ sagði Gylfi. Hann var stýrimaður á litlum vélbát og þekkti sundin eins og handabakið á sér. Hann áði við eitt andartak og grandskoðaði skipið og öll mörk. Menn eins og hann hafa þróað með sér næsta yfirnáttúrulegt rúmskyn sem gerði honum kleift að staðsetja sig og önnur skip næstum eins og hnit í hnitakerfi með því einu að bera saman hin ýmsu mörk.
„Þetta lítur út fyrir að vera stórt skip, staðsett vestur af Básendum og stefnir hraðbyri hingað. Annars er eitthvað undarlegt við ganginn á því. Það virðist rása eilítið,“ sagði Gylfi.
„Við erum dálítið ofar núna en venjulega Gylfi minn, getur verið að skipið sé aðeins sunnar, bróðir,“ spyr Markús, en hann var háseti á sama bát og Gylfi.
„Heyrðu, já. Það er rétt hjá þér Markús. Ég er ekki vanur að vera svona hátt uppi. Líklega er það sunnar. Og þó. Ég þekki Gunnlöðusker þarna í grenndinni svo staðsetning er líklegast rétt en skipið er jafnvel enn stærra en mér fannst. Mun stærra, “ sagði Gylfi.
Sævar laut höfði í vonbrigðum því hann var að vonast til að þetta væri skipalest Goðafossar með bróðir hans innanborðs á heimleið. En forvitni félaga hans á þessari undarlegu skipakomu var kviknuð svo þeir héldu uppteknum hætti og störðu.
„Það rýkur úr því!“ hrópar Sveinn allt í einu. Það var rétt hjá honum. Ef menn horfðu vandlega mátti greinilega sjá svarta reykjarslæðu liðast úr skrokk þess.
„Þetta er vafalaust einhver fraktarinn sem hefur lent í þjóðverjanum. Ég held að það sé loku fyrir það skotið að þetta sé eitthvert hinna íslensku fiskiskipa. Hann virðist koma af rúmsjó,“ segir Gylfi og kveikir sér í vindlingi.
Þetta sjónarspil var hin mesta skemmtun og Gummi Sigtryggs hafði tekið sig til og stokkið eftir sjónauka. Hann einblíndi nú í gegnum hann.
„Strákar, þetta er breskt olíuskip. Og það skíðlogar!“ sagði hann án þess að færa sjónaukann frá augunum.
Muldur heyrðist úr hópnum. Sveinn hafði áhyggjur af því að það væri fullt af olíu, því þeir annesjamenn mættu nú ekki við því að flóinn fylltist af olíu. Allir áttu þeir allt sitt undir geftum sjávar og vildu helst að sem minnst af olíuskipum krydduðu sjávarfangið.
„Hafðu nú ekki áhyggjur af því kallinn,“ sagði Gylfi. „Ef skipið væri sneisafullt af olíu hefði það sprungið í minnstu bita fyrir löngu. Ég yrði ekki hissa þótt hefði verið að koma austan frá Rússlandi sem leið liggur suður með landinu til Ameríku að sækja meiri olíu. Það er því hálftómt og mun sökkva hægt og bítandi. Sjónum er enginn vandi að melta þvílíka smámuni.“
„Þetta er sko engir smámunir,“ sagði Gummi. „Skipið er gríðarstórt.“
„Já, “ sagði Markús, „Ég hef aldrei séð svona stórt skip jafn ofarlega í landgrunninum.“
„Það rekur stjórnlaust,“ segir Gylfi. „Með ónýtt stýri og hálflaskaða vél. Kannski nær áhöfnin að lenda nógu vel til þess að komast heilir í land.“
Í þann mun heyrast drunur að utan. Sprenging hafði orðið í olíuskipinu. Nú mátti sjá eldhaf alla leið til Sandgerðis. Skrokkurinn virtist vera að rifna í sundur.
„Æ, þú virðist hafa haft rangt fyrir þér Gylfi minn,“ sagði Sveinn. „ Þarna fóru eldsneytisbirgðirnar.“
„Svenni, segðu þetta ekki. Hver maður sér að þetta var engin gassprenging,“ sagði Gylfi. „Að vísu hef ég ekki séð þá svona nálæga fyrr, en þetta var greinilega skeyti frá kafbáti.“
Í þann mund fóru flauturnar í Rockville að flauta úr heiðinni. Loftárásarviðvörunin. Tvær amerískar kafbátaflugvélar hófu sig á loft ofan af Miðnesheiði og þutu yfir knattspyrnuliðið Reyni, þar sem þeir sátu þarna í makindum sínum. Engum datt í hug að leita skjóls. Árásirnar myndu speglast á haffletinum því þar áttu þær heima. Sandgerðingum grunaði meira að segja að þjóðverjarnir vissu ekki að það byggi fólk við ströndina. Þeir gátu því fylgst með sallarólegir af fremsta bekk.
Sævar var mjög ánægður. Það gladdi hann mjög að sjórinn yrði hreinsaður af öllum óvinakafbátum áður en skipalest bróður hans færi fram hjá. Það veitti honum öryggistilfinningu.
„Ég sé fleiri skip við sjóndeildarhringinn og þýskar flugvélar vestur hjá Keili. Þær eru þó á leiðinni burt,“ sagði Gummi og mundaði kíkirinn. „Og kannski hefur orðið mannbjörg á olíudallinum. Ég er ekki frá því að þetta séu flekar, þessar skellur sem ég greini lengst í fjarska. Þetta getur ekki verið neitt annað.“
„Við ættum að fá að hleypa út Þorsteini og bjarga þessum aumingjasálum,“ sagði Markús.
Flestir voru þeir meðlimir í björgunarsveitinni Sigurvon. Mikill samhugur var á meðal sjómannanna að vera í björgunarsveit og hjálpast við að verða að liði ef skipaskaði varð. Í þeim tilgangi hafði björgunarbáturinn Þorsteinn verið fenginn. Hann var áttæringur sem hafði verið bætt við vél.
En Þorsteinn hafði fáum bjargað undanfarið. Eftir að átökin fóru að færast nær landi urðu skaðar svo algengir og aðstæður varhugarverðar að menn héldu að sér höndum nema um væri að ræða beinlínis íslenskan fiskibát, og þá helst úr fjórðungnum. Þannig veita aðstæður vænstum mönnum harða skel.
Enda fékk tillaga Markúsar lítin meðbyr. Menn ypptu öxlum og létu sér fátt um finnast. Markús ítrekaði þá spurninguna.
„Láttu ekki svona kallinn minn,“ svaraði Sævar. „ Það er enginn á leiðinni að vaða út í sjó núna á meðan hann er morandi í þýskum kafbátum. Bíðum og sjáum til.“
Þar við sat.
„Heyrið mig nú!“ sagði Sveinn skyndilega. „Höfum við ekki verk að vinna, eru menn bara komnir í frí í dag. Þið vitið að þetta samkomuhús mun ekki byggja sig sjálft.“
Annars hugar sneru menn sér að fyrri störfum.

1 hluti