Einn með bókinni. Mér finnst ég vera nálægt atburðarásinni, nálægt skákmanninum, sem komst svo langt. En ég er það ekki, ég er langt frá, eins langt frá og ég get mögulega komist, ég er ekki á sama landi, ekki á sömu plánetu, ekki í sama sólkerfi og ekki einu sinni í sama heimi. Þeir inni og ég fyrir utan, áhorfandi, og þeir persónur löngu skrifaðrar atburðarásar. Kaffibollinn veitir mér takmarkaðan vinskap, fimmtíu kallinn þegar maður þarf allar fimmþúsund krónurnar. Ófullnægjandi vinur. Mér finnst ég vera fjarlægur öllu, ekki komast nær. Líf mitt er eins og kvikmynd á pásu, ekkert gerist.

Ég legg bókina frá mér og ákveð að opna hana aldrei aftur. Ég hata hana, fyrirlít hana. Ég spyr sjálfan mig af hverju ég var að lesa hana, og kemst ekki að niðurstöðu. Það var ekki vottur af skemmtun í henni. Mér finnst ég vera eins og persónurnar sem ég las um, persóna löngu skrifaðrar atburðarásar. Óhugsandi leiðnlegarar atburðarásar samt sem áður. Nema þetta séu tímaskilin, hvort sagan fari að tinda. En hvað er það sem ég geri? Ég leggst á bakið og leyfi huganum að fljóta. Hvað gæti mögulega gerst fyrir mig? Blossar ástin milli mín og sessunautsins í kvöldskólanum? Varla, við höfum varla talað saman. Hún hefur aldrei yrt á mig að fyrra bragði, vill ábyggilega ekki heyra mig mæla stöku orði. Svo þoli ég hana ekki, en ég er orðinn leiður á einsemdinni, svo ég sætti mig við hvað sem er. Hugurinn flýtur áfram og nemur staðar. Efnafræðitilraunin gæti hafa staðist. Stendur þó á tæpu. Mjög tæpu. Það er næstum ómögulegt. Hann heldur áfram að fljóta, flýtur lengi án þess að stoppa. Ég er tómur. Blankó. Ekkert gæti mögulega hent mig, ekki frekar en stóra steininn sem hefur staðið í blokkargarðinum í rúm átta ár. Ég tel mig þó heppinn, að vera ekki steininn, hans æviskeið mun aldrei enda. Hann verður alltaf fastur. Um aldur og eilífð. Og rúmlega það.

Treglega held ég áfram að fljóta. Ég fæ uppljómun. Sérstaka uppljómun. Þetta þarf ekki endilega að vera jákvætt. Skilin þurfa ekki að vera bætandi. Á morgun gæti ég þess vegna orðið fyrir bíl. Kramist undir valtara. Nei! Heimurinn gæti farist. Ég er í djúpri bók. Ég er hjálpartæki túlkunnar sjónar hins sinnulausa á veraldaralok. Þess sem á ekkert, og er sama um allt. Hvað þætti honum um heimsendi? Endi alls? Já, hvað þætti mér um heimsendi? Ég velti þessu fyrir mér í dágóðan tíma. Ég yrði sjálfsagt feginn, ef ég á að deyja á annað borð verður það ekki mikilfenglegra en með heimsendi. Ef ég hugsa út í það yrði það minn draumadauðdagi, út frá verlaldlegum aðstæðum mínum nú, allsleysinu og einverunni. Hefði ég fengið önnur spil væri óskin sjálfsagt önnur. Þó væri mér ekki sama um veraldarlok, ég frysi, ég félli í dá. Hjartað hætti sjálfsagt að pumpa, og ég fengi ekki að upplifa heimsendinn. Né að kveðja mína nánustu.

Ég er viss um að þetta sé málið. Heimsendir verður á morgun og því verður ekki breytt. Hvernig vil ég deyja? Í hvaða fötum? Á hvaða tónlist á ég að hlusta? Ég gæti hlustað á Jim Morrison á sýrutrippi, ruglandi um lokakaflann, endalokin. Nei, það væri klisja. Bright Eyes, First day of my life. þá yrði lesandinn að rýna dýpra. Hvað meinti ég með þessu? Af hverju þetta lag? Markaði heimsendirinn nýtt upphaf hjá mér, en ekki endi eins og hjá flestum? Illu er best af lokið sagði einhver, en ég segi, það góða framfyrir allt, ég vil það strax, afhendi mér eitthvað eitthvað gott, svona einu sinni, leyfið mér að deyja sem fyrst. Þetta yrði ekki píningur, heldur alsæla. Eiturlyfjakenndur dauði. Ég ætla að láta loftsteininn lenda á mér. Nei, hvað er ég að hugsa? Ég vil sjá endalokin. Ég vil sjá svipinn á almúganum, sjá hvort einhver sé eins og ég, hvort einhver stilli upp brosi. Ég vil sjá byggingar hrynja og skýin þéttast, krakka gráta og menn hlaupa. Ég gæti fengið mér sæti á stéttinni og spilað á gítar og spilað falska hljóma. Þannig yrði ég svalur. Ég tylli mér mjúklega á jörðina, glamra fagra tóna á og raula með texta um endalokin. Eða upphafið, eins og Bright Eyes. Ég sé svipinn á viðskiptakónginum sem flýr úr limmónum sínum, móðurinni sem elskar barnið sitt og dópistanum sem grætur gleðitárum meðan hann horfir á steininn. Hann sest hjá mér, horfir í augun á mér og syngur með. Eins og í söngvamynd, hann kann lagið, einhverra hluta vegna. Fólk hópast til mín, skríður úr holræusunum, allir þeir vansælu, og syngja með mér. Fréttastofan tæki okkur upp. Fuglarnir mynda hring í kringum okkur, og raula með. Við sjáum lofsteinin lenda í hafinu í fjarlægðinni og gusa upp vatninu. Við horfum á vatnið sameinast og stefna í átt að borginni, og brosin okkar breikka, gleðitárum fjölgar og söngurinn hækkar. Við syngjum af tilfinningu og gleði, við sjáum vatnið nema staðar fyrir ofan okkur og hellast yfir okkur. Við fljótum um í vatninu en mynstrið helst, og við höldum áfram að syngja. Við syngjum áfram fram í rauðan dauðann, þar til lungu okkar fyllast af vatni og yfirbuga okkur. Við förum að dofna, og finnum svo þessa skrítnu tilfnningu, einsemdina aftur, en bara í örskamma stund, því okkur fer að líða vel, alsælan umlykur okkur, og við hittumst aftur. Á nýjum stað. Við syngjum Bright Eyes saman, en nú í bókstaflegri merkingu. Við höfumst endurfæðst. Í lífinu í dauðanum.