Þegar goðin sökkva - 1. hluti [Fyrirvari: Farið er frjálslega með sagnfræðilegar staðreyndir. Reyndar mætti segja að ég níðist algerlega á öllu sem heitir sagnfræðilegar staðreyndir.]

Sævar sneri baki í sjóinn og horfði upp í heiðina. Hann hugsaði heim, um æskuna og heittelskaðan bróður. Innan skamms kæmi hann frá Ameríku á ný og þá yrðu fagnaðarfundir. Engan mann á jarðríki dáði hann jafn mikið og yngri bróðir sinn. Hann hafði á sjálfsdáðum rifið sig frá baslinu og barist til mennta. Nú var hann orðinn doktor í læknisfræðum og tæki við embætti í Reykjavík í framhaldinu. Engan skort var á læknum á þessum stríðsárum. Það var bróður hans líkt að helga líf sitt að hjálpa samlöndum sínum. Hann ynni göfugt starf, þess var Sævar handviss.

Hann teygði sig í kókflösku, opnaði hana með beltissylgjunni og saup af áfergju.

„Það er aldeilis að þú ert þyrstur, hoho,“ sagði Sveinn og strauk af sér svitann.
Hann var ber að ofan og það glampaði á bringu hans í sólskininu.
„Passaðu þig bara að verða ekki bumbult og detta niður,“ bætti Sveinn við og hló enn frekar digurbarkalega.
Þeir voru að leggja þakið á Samkomuhúsinu. Allir voru þeir sjómenn og reru frá sjávarplássinu Sandgerði, en auk þess (og kannski fyrst og fremst) voru þeir knattspyrnumenn og léku með hinu nýstofnaða félagi Reyni. Piltarnir voru dugnaðarforkar en hér vönduðu þeir sérlega til verksins, enda yrði húsið prýði og hjarta hins unga byggðarlags.
„Má kannski bjóða þér sopa,“ bauð Sævar.
„Haha, mikið var, ég hélt að þú myndir aldrei spyrja. En nei takk samt, sama og þegið. Sjávargolan er minn svaladrykkur. Þótt hún sé hlý í dag,“ sagði Sveinn og kímdi.

„Ertu að norðan Sveinn,“spurði Sævar. Skyndilega hafði hann veitt athygli dálitlum hreim sem minnti hann á Eyjafjörðinn. Þeir Sveinn höfðu lengi spilað saman á miðjunni og setið fram eftir við drykkju en aldrei hafði hann grennslast fyrir um bakgrunn hans frekar en hinna.
„Nú því spyrðu? Ertu kannski helvítis bölvaður norðanskratti sjálfur kallinn minn?“ sagði Sveinn sjálfum sér líkur.
„Ójújú,“ svaraði Sævar, „Ég ólst upp í Kálfshamarsvík á Ströndum.“
„Hahehe, gat verið!“ Gólaði hann. „Þá ertu sjálfkrafa orðinn svarinn andstæðingur minn, allir Dalvíkingar vita að ekkert nema dusilmenni og sníkjudýr koma frá Ströndum,“sagði hann í gamansömum tón.
„Það er ekki satt Sveinn, og það veistu. Strandamenn hafa alið af sér hinu ágætustu syni og þar er nærtækast dæmi af honum Nonna bróður.“
„Nonni bróður, Nonni bróður, þú samkjaftar ekki um þennan blessaða utangemling bróður þinn,“ segir hann með uppgerðarhneykslun í rómnum. „Hann Nonni bróðir þinn er blóðsuga á heiðvirðu verkafólki og dæmigert eintak af Strandamanni,“ segir hann að gamni sínu þótt það hafi aldrei farið fram hjá neinum að hann Svenni Kjartans væri sósíalisti.
Allir vissu þeir þó að hinn þjóðþekkti bróðir hans, Jón Sæmundsson dr. med. var engin liðleskja og virtu hann og því sárnaði Sævari ekki vitund.


Í dag er hann stundum kallaður Tengdasonur Íslands en það hefur ekki alltaf verið svo. Þegar þeir Nonni voru að alast upp kölluðu þeir ekki allt ömmu sína. Lífið á brún Norður Íshafsins hefur aldrei verið neinn hægðarleikur.
Faðir þeirra hafði verið bóndasonur af Vestfjörðum sem hafði eygt von að geta losnað úr vinnumannsstöðu sinni og gift sig móður þeirra með því að sækja björg í sjó úr þurrabúð. Hann hafði nurlað nægu og keypt lítinn skika í þorpinu í Kálfshamarsvík með eilitlu jarðnæði og bágbornum húskosti og stefnt móður þeirra þangað með þá.
Þegar hann hugðist hins vegar fara á vit þeirra vildi ekki betur en svo að snjóflóð hremmdi hann til sín og skilaði aldrei aftur.

Það er í raun ótrúlegt að þeir og ekkjan móðir þeirra skyldi ekki hafa lent beint á sveitinni. En svo vildi til að margt vina föður hans höfðu einmitt sest að í grenndinni og sáu auman á þeim. Þannig tóku nábýlingar þeirra sig saman og gaukuðu að þeim hinu og þessu í gegnum árin svo litlu föðurlausu fjölskyldunni tókst aldrei almennilega að svelta. Kotið var skuldlaust og móðir þeirra fékk guðisélof ekki skrifað hjá Kaupmanninum svo það kom aldrei í bakið á þeim. Það olli því þó að þeir bræðurnir vöndust því snemma að lifa hálfpartin á náttúrunni, sérstaklega á sumrin. Þeir urðu ótrúlega hændir að hver öðrum enda forðuðust flest hin börn þessa mjóslegnu fátæklinga með villta glampann í augunum, þótt fæst þeirra væri neinar dekurrófur sjálf.

Sem unglingar höfðu þeir svo farið suður á Snæfellsnes á svokallaðri læknajörð rétt hjá Arnarstapa. Þar voru þeir látnir ganga fjörur og safna rekaviði. Í heyönnum gistu þeir á bænum hjá hreppslækninum og voru látnir ganga í verk. Það var þar sem Guðmundur Arngrímsson góðbóndi og læknir kom auga á gáfur Jóns. Báðir vorum við vellæsir og skrifandi en Jón var alltaf hændari að bókum en Sævar. Hann skyldi það ekki enda fátt annað sem skildi í milli hjá þeim, nema kannski þetta eina óminnisár sem Sævar hafði dregið andann einn í æsku.
Stundum sátu þeir á kvöldin, Jón og læknirinn, og ræddu málin fram á nótt. Aldrei náði Sævar að fylgja þeim orðaskiptum eftir svo einhverju munaði.
Loks bar svo að, að Guðmundur gerði þeim bræðrum kostatilboð. Þeir gætu fengið hörkuvinnu við nýju vikurvinnsluna í Snæfelli sem borgaði vel út í hönd og settu þá í stöðu sem fæstir jafnaldrar okkar voru í, að eignast verulegan pening.
Þess auki fékk Jón aukatilboð, hann mátti hljóta kennslu um veturinn og fá tækifæri á gagnfræðiprófi næsta vor og þau hjónin skyldu veita honum dvalarstað og fæði. En þá yrði hann ofan af launavinnunni. Hann þyrfti að velja.

Sævari fannst þetta óðsmanns æði og einsýnt að launavinnan hlyti að freista. Fólk yrði gagnfræðingar fimm árum yngri en Jón væri núna og hann hlyti að gera sér grein fyrir því að hann hefði misst af lestinni.
Jón tók þó náminu fegins hendi og Sævar studdi litla bróðir sinni innilega eftir að hafa dreymt fallegan draum um mikilfenglega framtíð.

Í kreppunni misstu margir hjá Vikrinum vinnuna og Sævar fór á sjó. Þá var Jón að klára Almenna Menntaskóla í Reykjavík. Orð fór af gáfum hans í bænum og hann dúxaði sitt lokaár. Heldri menn bæjarins kepptust við að styrkja hann til náms í Kaupmannahöfn.
Jón hafði ekki einungis þáð styrk hins volduga kaupmanns og tilvonandi forsætisráðherra, K, heldur þáði hann jafnframt í leiðinni ástir dóttur hans. Eins og venjulega elti lánið Jón og ráðahagur þeirra var samþykktur þegar hann fékk hæstu einkunn frá Kaupmannahafnarháskóla. Þau skötuhjúin höfðu undanfarin 6 ár verið í við Læknaháskóla New York fylkis vegna doktorsnáms Jóns sem hafði gengið fádæma vel.

Þessi saga manns til mennta var virkilega fáheyrð í þá daga og varð mörgum framfarasinnuðum dagblöðum innblástur. Þau sáu í Jóni Íslands útvörð framtíðarinnar og kölluðu hann Tengdason Íslands eftir að Tengdafaðir hans var settur Forsætisráðherra.

Sævar settist að í Sandgerði. Hann byggði sér timburhúsið sem hafði séð í hillingum síðan þeir bræðurnir norpuðu í moldakofanum forðum og bauð móður þeirra að búa hjá sér. Hann hafði lært knattspyrnu og eignast fullt af kunningjum en ókvæntur var hann enn. Hann var stoltur af bróður sínum og það vissu allir.