Hún lá í hnipri á köldu steingólfinu. Umvafin myrkri. Hún þurrkaði volgt sæðið af lærum sér. Henni var ískalt, þráði að fá einhverjar dulur til að vefja utan um sig.
En flík? Nei, það væri trúlega til of mikils mælst. Hurðin lokaðist með ískri, áður en henni gafst tóm til að spyrja Djöfulinn, sem gekk út, fullnægður og glaður í bragði.
Hún snökti, reyndi að ylja ísköldum kroppnum með löngum handarstrokum. Horfði á heyhrúguna í horninu. Staulaðist þangað, og sökkti sér í gamalt og illa lyktandi heyjið. Hún fengi trúlega útbrot af þessu bölvaða heyi. Það væri samt ágætt, kannski myndi Djöfullinn loksins láta hana í friði. Hún var öll marin og blá eftir síðustu útreið hans.
Hún lokaði augunum og hvarf inn í fortíðina.

Fyrir svo óralöngu, er að því virtist, hafði hún verið hamingjusöm. Dóttir aðalsmanns í Vestur – Noregi. Hafði átt gleðiríka æsku með mörgum systkinum, og þegar hún óx úr grasi, varð hún mjög fríð og hvers manns hugljúfi. Einn daginn kom þýskur hertogi í heimsókn til föður hennar. Þá var hún sextán vetra. Hann dvaldist hjá þeim í örfáa daga, og heillaðist gjörsamlega af ljósu lokkunum hennar, gráu augunum, kviku hreyfingunum og manngæskunni sem geislaði af henni.. Hún var hinsvegar hrædd við hann, og forðaðist hann eftir bestu getu. Henni var létt, þegar hann hélt heim á leið. Faðir hennar tók hana á eintal, sagði henni að þýski hertoginn hefði beðið um hönd hennar, og að hann hefði svarað játandi. Nokkrum vikum seinna kom hertoginn aftur, með öllu sínu fylgdarliði og tók hana, ásamt öllum hennar heimanmundi, til Þýskalands. Þar voru þau gefin saman í hjónaband. Fyrstu daga hjónabandsins grét hún fjölskyldu sína, og vildi fá að fara aftur heim til Noregs. Hertoginn reiddist, og kallaði hana aumingja sem væri ekki þess verðug að hljóta þann heiður að giftast svo háttsettum manni. Hann kastaði henni niður í morkna dýflissu á jarðhæð óðals síns, og þar mátti hún dúsa. Hann kom reglulega niður, til að svala kynlífsþorsta sínum, og niðurlægja hana á allan mögulegan hátt.

Það brakaði í hurðinni. Hún hrökk upp úr minningunum og kastaði sér út í horn.
Þetta mátti ekki vera hann aftur. Hurðin opnaðist, og skuggi Djöfulsins fyllti út í gættina. Það glampaði á hníf við beltið hans. Hún fylltist vonleysi og uppgjafar hræðslu. Hann talaði til hennar í kaldranalegum tóni.

“Nú er þessu lokið. Þú ert ekki nothæf lengur, tíkin þín. Líttu bara á þig, þú ert lúsug, horuð og lotin. Með bauga undir augunum, og ég gæti brotið þig í tvennt með einu handtaki. Norska beinagrind!”

Hún hrækti á hann. Vissi að nú gæti hún ekkert gert, en hún ætlaði ekki að yfirgefa þennan heim, liggjandi á hnjánum að grátbiðja um miskunn.
Hann reiddi hnífinn til höggs, og hún hrópaði upp yfir sig. Hnífurinn sökk í brjóst hennar, og blóðið flæddi. Það seinasta sem hún sá var tryllingsglampi í augum hertogans. Fangaverði hennar og misnotara. Djöflinum.

Hún féll niður eftir björtum göngum. Andi hennar sveif í loftinu. Hún heyrði raddir systkina sinna. Móður sinnar. Hún fann gamalkunna lykt og fyrr en varði birtust heimahagarnir fyrir hugskotssjónum hennar.
Hún var loksins búin að fá frið.



Þessa sögu skrifaði ég eftir draumi sem mig dreymdi eina nóttina. Vinsamlegast athugið, að hún er skrifuð á 15 mínútum, að morgni til..
Ég þurfti bara að koma þessum draumi í orð á meðan ég sá hann ennþá fyrir mér. Ef að einhver er klár í draumaráðningum má hann endilega koma með skoðun ;-)