Ég reif upp bréfið.
Enn eitt jólakortið.
Enn ein óskin um gleðileg jól.
Ég vissi betur, ég vissi að þessi jól yrðu ekkert betri en önnur.
Mamma drakk alltaf á jólunum, það hjálpaði henni að gleyma.
Við vorum hætt að fara í boðið til ömmu og afa, það hjálpaði þeim að gleyma.
Pabbi gerði að sjálfsögðu ekkert, það var ekki mikið sem hann gat gert, með Atlantshafið á milli okkar.
Ég man eftir jólunum fyrir fjórum árum.
Árið áður en pabbi fór, árið áður en mamma byrjaði að drekka.
Rauði slökkviliðsbíllinn með sírenunni.
Mamma kom inn í herbergið. ,,Ég er hætt að drekka’’
Ég hafði heyrt þetta áður.
Ég gekk útúr herberginu án þess að svara henni, klæddi mig í úlpuna, setti á mig húfuna og opnaði útidyrnar.
Það var ekki snjór eins og fyrir fjórum árum, það var rigning.
Það var eins og veðrið hefði lent í því sama og ég.
Ég leit í kringum mig, kannski í síðasta sinn.
Með rauða slökkviliðsbílinn undir úlpunni hélt ég út í rigninguna og grét, eins og hún.