Kaffið

Ég stóð upp og fann hvernig löngun mín varð meiri og meiri. Kaffi, ég fann en þá bragðið af seinasta bolla og nú langaði mig í ábót. Það er fátt skemmtilegra en að fá sér ábót. Mér leið eins og sjómanni sem var nýkominn af sjó og langaði mikið að hitta konuna sína. Konan mín, kaffið mitt.
Ég steig eitt skref, í átt að afgreiðsluborðinu, og ég fann strax hvernig kaffið nálgaðist. Skrítin þessi tenging sem ég og kaffið höfum, þetta er svolítið eins og í star wars en ég er samt en þá að vinna í því að láta kaffið fljúga til mín. Þessi tenging var samt til staðar, ég fann fyrir kaffinu og kaffið fann fyrir mér.
Ég steig annað skref og nú sá ég kaffið. Það var kaffi í könnunni, þetta svarta fallega kaffi. Það er fáar tilfinningar betri en að sjá flott kaffi, að sjá hversu tært það er, að sjá hversu mjúkt það er, að sjá hversu einfalt það er og að sjá hversu fallegt það er. Ég sá strax að þetta kaffi var gott.
Nú var ég orðin spenntur svo ég dreif mig að taka annað skref og þá heyrði ég í kaffinu, já ég heyrði í því. Þetta var partur af þessari tengingu sem ég og Kaffið höfðum. Ég heyrði í því busla og ég vissi að það þýddi: “ komdu og drekktu mig” og það ætlaði ég svo sannarlega að gera. Að heyra slíkt hljóð, mjúklega renna inn um eyrun var betra en öll heimsins tónlist. Öll sú snilld sem lá í þessu kaffi, tæknilegri en Mozart og flóknari en Oscar Peterson. Já ég heyrði þessa fögru hljóma sem kaffið gaf frá sér.
Ég tók annað skref og nú var ég farinn að nálgast afgreiðsluborðið. Lyktin af kaffinu bauð mér upp í dans og ég gat ekki annað en dansað. Þetta var lykt sem ég vildi finna, þessi djúpa lykt. Aftur kom samband mitt við kaffið mikið inn í sögu þar sem ég fann hvernig kaffið leitaði aðeins til mín. Allt kaffið í kaffihúsinu leitaði til mín en það gat auðvitað ekki bara flogið til mín svo það sendi alltaf aðal sendiherrann sinn: lyktina. Öll lykt inn á kaffihúsinu leitaði til mín. Ekki arða af lykt fór til einhvers annars því hvert einasta kaffisnitti vissi að ég vildi kaffi, ég vildi kaffi meira en nokkur annar þarna inni.
Allt í einu áttaði ég mig á því að ég var komin upp við afgreiðsluborðið og þá var kominn tími til að panta. Engar áhyggjur, ég vissi alveg hvað ég vildi. Varirnar á mér skulfu svo ég gat varla talað.
Ég áttaði mig fljótt á því eftir að ég byrjaði að drekka kaffi að ég varð að virða kaffið, annars sýndi það ekki sitt raunverulega bragð. En ef ég átti að virða kaffið þá varð ég einnig að virða ráðherra kaffisins og í þessu tilviki var það afgreiðslumaðurinn. Nú var komið af því, ég varð að tala mjúkt við hann en samt að sýna það að ég var ákveðinn í því að fá mitt kaffi.
Ég opnaði munninn og orðin runnu út. Þarna vissi ég að ég myndi fá gott kaffi, ég talaði eins og Picasso málaði, eins og Aristóteles hugsaði og eins og Honeyboy blúsaði. Afgreiðslumaðurinn vissi að ég vildi kaffi. Hann byrjaði að hella í bolla. Bollin leit út fyrir að vera úr silki. Bollin gleypti kaffið eins og hann væri að stela því frá mér en mér var sama því bráðum yrði það mitt, maðurinn kláraði að hella og seinustu droparnir féllu eins og perlur í netið hjá perlutínslumanni, svo hægt og svo mjúkt.
Hann lét kaffið upp á afgreiðsluborðið og setti svo skeið við hlið bollans. Hann spurði mig hvort ég vildi mjólk en ég sagði nei við því. Ég vildi hafa kaffið mitt svart, svartara en áttunda kúlan í pool, svartara en Wesley Snipes og svartara en verstu hugsanlegu svarthol. Mjólk og sykur voru verstu mengunarvörur fyrir mér. Það lá við að ég færi út með skilti að mótmæla. Ég passaði mig að reiðast ekki við afgreiðslumanninn þótt hann hafi boðið mér mjólk því ég þurfti en að virða hann.
Ég greip hægt og rólega utan um kaffibollann, ég passaði mig að halda ekki of fast, ég vildi ekki valda kaffinu neinum óþægindum. Ég tók bollan mjúklega upp, nú varð ég að vanda mig og passa mig að missa það alls ekki. Þetta kaffi var heilagra en krossinn sem Jesús var negldur á. Ég sá sætið mitt, ég nálgaðist hægt og hægt. Eftir nokkur skref og smá líkamshreyfingar var ég sestur. Ég hélt en þá á kaffinu, ég þorði varla að sleppa því. Borðið gæti verið valt en ég tók áhættuna og lagði bollan eins rólega og ég gat niður á borðið. Ekkert gerðist, hann bara stóð þarna og horfði á mig, þessi fullkomni kaffibolli. Kaffið vildi komast inn í mig. Það vildi renna um minn mjúka líkama. Ég gerði mig tilbúinn og lyfti bollanum.hann var þyngri en ég hélt. Varirnar á mér skulfu eins og verstu jarðskjálftar og ég slefaði eins og flóðbylgjan sem kemur eftir á.
Ég fékk mér sopa… þetta var ágætt kaffi.
Ég heiti ekki gummi (og ekki heldur Guðmundur)…