Einn lítill regndropi fann sér leið í gegnum harðlokuð augnlokin og hann gretti sig, opnaði augun og pírði þau. Í fyrstu sá hann varla neitt en svo birtust húsþök og veggir út um allt í gegnum móðuna. Allt í kring voru illa málaðar blokkir með bárujárnsþökum sem þöktu þessar blokkir eins og permanent á rauðhærðri mellu. Himininn var sígarettuöskugrár og ætlaði næstum því að hrynja yfir jörðina. Hann stóð upp. Shit sagði hann upphátt. Hvar var hann eiginlega? Og hvað gerðist eiginlega í gær, hmm hann fór í eitthvað partý, fór í blokk sem sprakk upp og bjargaði ketti… eh, nei það var Lethal Veapon. Hann hló og þagði svo skyndilega yfir bergmálinu frá sér.

Hann setti hendur í vasa, eða hélt hann hefði gert það þegar köld vindhviða blés á bert skinn. Fokk! datt úr honum þegar hann leit niður og sá að hann var allsber. Hann leit lengi með galopinn munninn á það sem hann sá af sjálfum sér. Hvar voru fjandans fötin? Hvað… Hann leit upp og saug inn slefið sem var komið hálfa leið niður hökuna. Hvað var að gerast? Varð hann svona ógeðslega drukkinn? Hann man eftir byrjuninni. Þeir fóru þrír vinirnir niðrí bæ og inná Glaumbar og drukku heil ósköp. Svo fóru þeir beint á Skuggabarinn og djömmuðu þar. Síðan var eitthvað í gangi í sambandi við partý eða eitthvað vestur í bæ, hann var orðin agalega drukkinn þarna. Minningarbrotin náðu ekki lengra. Restin var móða, grá og stór móða eins og himininn fyrir ofan hann sem virtist ægilega rigningarlegur.

Hann gekk varfærnislegum skrefum eftir þakinu (ískalt) og að þakbrúninni. Fjórar blokkir umluktu stóran garð með nokkrum trjám, nýslegnu grasi, róluvelli og löngum göngustíg sem hlykkjaðist um allt eins og grár ljótur steypuormur. Fyrir utan þessar blokkir voru fleiri blokkir og í fjarska afgangurinn af Reykjavík. Allavega vissi hann hvar hann var, Breiðholti. Lítill krakki í grænum pollagalla og með stóra húfu hjólaði hægt eftir orminum og talaði við sjálfan sig og bílinn sem hann dró á eftir sér. Önnur vindhviða blés upp blokkina og sendi hroll um allan líkamann. Hann steig varlega afturábak og leit rannsakandi á blokkina á móti. Sá hann einhver? Var einhver búinn að hringja á lögguna? Var einhver út í glugga að stara á hann? Hann fékk allt í einu yfirgnæfandi þörf til að fela sig, en það var enginn felustaður þarna uppá þaki. Bara kalt bárujárnið og stórt sjónvarpsloftnet við enda þess. Hann hafði ekki einu sinni fatadruslur til að skýla nektinni. Hvað í helvíti gerðist til að koma honum hingað? Hann lokaði augunum og reyndi að einbeita sér, finna einhver minningabrot frá nóttinni sem leið.

Hann opnaði augun aftur þegar jafnvægið virtist fjúka út í veður og vind í köldum vindinum. Hann varð að komast niður einhvernveginn og í skjól, og síma, og sígarettu. Úff, honum langaði svo heitt í sígarettu núna. Í fjarska heyrðist sírenuvæl, voru þeir að koma hingað? Hann hlustaði grafkyrr og beið þar til hljóðið fjarlægðist. Jæja, þar fór það, sagði hann upphátt, sem betur fer kannski Hann gekk að hinum hluta blokkarinnar og leit niður, engin hreyfing. Hvað var klukkan eiginlega? Hann leit ósjálfrátt á úrið sitt sem var ekki lengur á sínum stað. Verst að það var engin sól, að minnsta kosti hefði hann þá getað giskað eitthvað á tímann. Jæja, hann varð komast niður einhvernveginn, en hvar átti hann að príla niður? Hann gekk varnfærnislega meðfram þakbrúninni aftur og leit á svalirnar fyrir neðan eftir stað til að geta klifrað á, fann ekkert. En svo var það þetta loftnet. Hann gekk að því, stoppaði hálfa leið og datt nærri því þegar hann steig á útstæðan nagla. Sársaukinn sem rauk upp frá tá og upp í heila var eins og sprengja í hausnum á honum. Hann beygði sig niður, lyfti fætinum og missti við það jafnvægið og datt . Nýr sársauki yfirgnæfði allt þegar hann fann nístandi kuldann frá bárujárninu bíta í nakta húðina. Hann gretti sig og reyndi eins og hann gat að öskra ekki. Djöfull var þetta kalt!! Hann einbeitti sér eins og hann gat og rembdist við að standa upp. Helvítis naglahelvíti, datt út úr honum þegar hann leit hatursaugum á naglann sem stóð boginn upp úr járninu. Hann gekk titrandi áfram

Loftnetið var fest við eitt hornið á þakinu, utan á vegginn. Frábært hugsaði hann með sér. Vona að það sé nógu sterkt. Hann leit niður þegar hann kom að enda þaksins. Svalirnar voru rétt við stöngina sjálfa þannig að hann gæti teygt sig að handriðinu með því að feta sig smá eftir loftnetsstönginni, þeas ef hann væri laus við lofthræðslu. Hann leit í kringum sig. Hann gæti alveg kallað á hjálp, og hefði getað gert það fyrir löngu, en hvað átti hann að segja þegar hjálpin bærist?? Hann gæti ekki afborið það að koma svo fram í næsta fréttatíma. Ungur maður finnst nakinn uppi á þaki fjölbýlishúss. Aðspurður sagðist hann ekki hafa hugmynd um hvers vegna hann endaði þarna. Allir sem þekktu hann fyrir myndu ekki láta hann í friði það sem eftir væri. Foreldrar hans myndu skammast sín…Nei og nei takk. Hann gat bjargað sér sjálfur. Ekki séns á því að hann öskraði á hjálp eins og helvítis smástelpa. Hann leit aftur niður, lofthræðslan varð bara að víkja.

Hann stóð hreyfingarlaus drykklanga stund sem virtist heil eilífð. Jæja, áfram með þig, sagði hann lágt við sjálfan sig. Hann horfði aðeins lengur. Hann varð drífa í þessu áður en honum yrði of kalt til að geta hreyft sig. Himininn virtist hafa dökknað og svört ský héldu sig við sjóndeildarhring og hótuðu að koma nær með frostkalda rigninguna. Hrollur fór eftir líkama hans og hann hristi útlimina í vonlausri tilraun til að halda á sér hita. Hann tók um loftnetsstöngina með hægri hendi og beygði sig niður. Niðri í portinu var enginn, en einhverstaðar frá bergmáluðu köll og hlátur frá krökkum. Vonandi kæmu þeir ekki hingað. Hann leit á loftnetsstöngina og togaði fast í hana til að prófa. Hún var ekkert sérlega traust, en það eina sem hann gat notað. Svolítið ryðguð en alveg nógu breið til að halda í . Núna var einhver karl í íbúðinni sinni sjálfsagt að bölva truflunum í sjónvarpinu. Djö, helv leikurinn!! Hann togaði aftur í stöngina rétt til að bögga þennan ímyndaða pirraða kall og glotti.

Smástund leið í viðbót er hann herti sjálfan sig upp, spiderman var flottasta ofurhetjan hans þegar hann var lítill. Klifrandi um allt, sveiflandi sér um alla borg, reitti af sé brandara. Súperkúl gæji. Spiderman var bara svalastur. Það hlyti að vera í meira lagi furðulegt að sjá einhvern nakinn vitleysing upp á þaki á blokk, faðmandi sjónvarpsloftnet. Sem betur fer virtist hverfið vera sofandi, það var líka sunnudagur, eða amk það hélt hann. Hann byrjaði að feta sig varlega niður eftir stönginni, fæturnir fyrst, svo greip hann dauðhaldi í loftnetið er hann reyndi að ná einhverri fótfestu, sem var erfitt því hann sá varla neitt niður fyrir sig. Eins gott að missa ekki takið, annars búmm, átta hæðir niður í grjótharða steypu. Hann bölvaði sjálfum sér fyrir að hugsa svona. Allt í einu heyrðist í einhverjum niðrí porti, Litli krakkinn var mættur aftur með bílinn sinn í eftirdragi. Nú talaði hann ekki við sjálfan sig heldur bjó til hljóðin í bílnum sínum. Hjólið var líka á bak og burt. Lágt brrrrr heyrðist nokkrar sekúndur þangað til hann trítlaði að næstu kjallarahurð og brölti inn með bílinn. Skellurinn í hurðinni þegar hún lokaðist bergmálaði óþægilega í kring og gerði umhverfið galtómt og kuldalegt. Allt í einu virtist vindurinn kaldari. Hann stoppaði klifrið og leyfði líkamanum að titra aðeins. Honum leið eins og blautum þvott í roki, hvernig sem sú tilfinning gat verið. Rugludallur, sagði hann við sig í huganum. Allt í einu fékk hann útvarpsauglýsingu í hugann. Áskrift að stöð færir þér heilan heim af…. Hann hélt áfram klifrinu. Djöfull var kalt.

Allt í einu heyrðist brestur, hann leit snöggt upp, sá ekkert hreyfast. Hann leit niður, guð minn góður umlaði hann og leit aftur upp. Var helvítis stöngin að losna? Óteljandi hugsanir komu upp í huga hans, djammið í gær, hann hefði átt að segja nei við vini sína, drekka minna. Hvernig ætli foreldrar hans muni bregðast við því ef hann dræpist? Hvað gerði Murtaugh og Riggs svo þegar þeir björguðu kettinum í Lethal Weapon? Af hverju gat hann ekki sprangað eins og spiderman? Hann faðmaði lofnetsstöngina í þetta skipti eins og hann væri að reyna að komast inn í vegginn. Heit íbúð bara rétt hinum megin við þennan vegg. Hann horfði lengi á þennan gula vegg, svo til hliðar meðfram blokkinni, ekki niður, alls ekki niður. Heil eilífð í viðbót virtist líða áður en hann fékk vöðvana í líkamanum til að svara, og hreyfði sig varlega neðar. Aðeins smá í viðbót og hann næði að teygja sig í handriðið á svölunum. Úr fjarlægð virtist hann örugglega ekki hreyfast rassgat en honum fannst hann klifra nógu hratt, ef þetta gat kallast klifur. Hann reyndi að halda líkamanum eins nálægt veggnum og stönginni og hann gat þrátt fyrir að hann tæki reglulega andköf undan kuldanum sem snerti hann í hvert skipti. Hann ropaði, aah, vodki, sagði hann við sjálfan sig í huganum, rétt áður en hann heyrði annan brest. Hann leit og sá loftnetsfestingarnar smella frá veggnum. Allt í einu fann hann vegginn hreyfast burt. Hann leit niður, jörðin var ekkert nærri en síðast, of langt í burtu. Stöngin var byrjuð að bogna hratt með lágu ískri undan þunganum og ryðflögum ringdi yfir hann eins og snjó. Hann reyndi strax í örvæntingu að teygja sig að svalahandriðinu, aðeins lengra,, aðeins lengra, ef fingurnir væru aðeins lengri. Ef hann næði að klifra aðeins neðar. Ef hann væri bara einhverstaðar annarsstaðar en einmitt þarna, eins og til dæmis heima í sófanum að horfa á formúluna. Hann leit í kringum sig og sá ekkert nema blokkirnar kring sem sváfu enn eins og þunnir steypurisar.

Að minnsta kosti var ekki byrjað að rigna hugsaði hann með sér, þegar stöngin brotnaði snögglega með brakandi málmhljóði. Nú dey ég sagði hann upphátt og herti takið á loftnetinu eins og hann gæti haldið því á sínum stað ef hann héldi nógu fast. Veggurinn fjarlægðist enn meir og rifnaði harkalega úr greipum hans. Heimurinn hringsnérist fyrir augum hans og allt í einu jókst vindurinn, gluggarnir á blokkinni þutu framhjá, jörðin nálgaðist og stækkaði með ógnarhraða áður en meðvitund hans hvarf út í svart tóm með einum stórum skelli og óendanlegum sársauka.

(Í íbúð á fimmtu hæð) Mamma? Ég sá súperman, hann var allsber mamma, mamma?
Æji Guðjón, ekki svona vitleysu, slökktu á sjónvarpinu áður en þú færð kassalaga augu af þessu rugli.
—–