Inngangur:
Ég hata hvað maður hefur marga slæma eiginleika. Ég hef marga, þú hefur marga, við höfum öll slæma eiginleika. Ég þoli ekki hvað ég er mikill dópisti. Er alltaf að reyna hætta þessu og fokk minn góður, get það ekki. Alveg kominn með nóg af kókinu. Nefið mitt er hvítt af kóki, hendurnar mínar eru fullar af sprautuförum og minna helst á járnbrautarslys og hugur minn er tómur af áralangri neyslu. Boðar ekki gott. Lífið mitt verður að sögu, eiturlyfin sem ég hef tekið um ævina verða að orðum. Ég hverf aftur í tímann.


Ég hef lengi líkt lífinu við bíómynd þar sem þú ert í aðalhlutverki í þinni eigin kvikmynd. Mín bíómynd fjallar um ungan dreng, sem alinn upp var í góðu umhverfi þar sem vel var hugsað um hann. Hann fékk alla þá ást sem hann þurfti. Ungi drengurinn skildi aldrei neitt, til að byrja með, en loks þegar hann komst í gegnum unglingsárin skildi hann heiminn, lífið, dauðann og manneskjuna. Hann setti í fimmta gír og bombaði út á þjóðveg eitt, rétta veginn þar sem flestir keyra um - en óhöppin gerast og í þetta skiptið átti ungi drengurinn alla sök á óhappinu. Hann velti bílnum útaf veginum og sofnaði hálfpartinn í marga daga, marga mánuði og mörg ár. Þegar ungi drengurinn var orðinn ekki svo ungur lengur, bombaði hann út á þjóðveg 2, hættulega og ranga veginn þar sem fólk er í felum og gengur meðfram veggjum. Honum var sama því honum var sama um allt og aðeins þá missir ungi drengurinn allt vit á því sem skynsamlegt og rétt er. Sjálfshatur og biturleiki út í lífið var nokkurskonar hliðarvegur inná þjóðveg tvö en allt sem hann fór í gegnum á þeim vegi hvarf um leið og hann settist upp í bílinn á þjóðvegi tvö og bombaði að stað, kærulaus og allslaus. Hann var jafn týndur og draugarnir sem eru á meðal oss. Ungi drengurinn sem núna var orðinn fullorðin maður hafði engu að tapa.

Ég stóð á flugvellinum í Köben án þess að hafa neinn pening eða bara eitthvað yfirhöfuð. Eina sem ég hafði var flugmiði tilbaka og þá skipun bíða eftir að Morten kæmi með dópið, í svartri leðurtösku. Ég skimaði eftir honum, manni sem mér var sagt að liti út eins og Jimi Hendrix. Ég passaði mig á dóphundunum. Ég fann lyktina af þeim úr fjarlægð. Ég vonaði innilega að það væri ekki það sama upp á teningnum hjá hundunum. Ég fékk sting í magann þegar ég sá mann í einkennisbúningi og hund nálgast úr fjarlægð - þekkti þennan sting sem ég fékk svo vel, svo oft fengið hann, svo oft, svo oft. Ég gjörsamlega fraus, fraus á staðnum og horfði á meðan þeir gengu framhjá mér. Fokk. Ég sneri mér við og fyrir framan mig stóð maður - svartklæddur, með dökkt úfið hár, sígarettu í munni og sólgleraugu. Morten. Það er satt sem þeir sögðu, hann leit alveg eins út og Jimi Hendrix. Það var þarna, á þessum stað, er ég stóð einn út í Köben eins og fífl, eins og dópisti og horfði í andlitið á öðrum dópista, sem ég hugsaði:

Hvað í fokkanum er ég að gera hérna? Hvað er ég að gera?

…Á því augnabliki er ég vaknaði aftur til lífsins leið mér eins og ég væri heima hjá mér, eins og ég væri loksins kominn heim. Veggirnir í herberginu voru svo kunnuglegir og ég mér fannst eins og þetta væri ekki í fyrsta skiptið sem ég væri í þessu rúmi. Andlit úr fortíðinni horfðu á mig og brostu, klöppuðu saman höndunum og föðmuðust, eins og ég væri jólagjöfin sem þeim hefði alltaf langað svo í. Menn í hvítum sloppum voru líka á allt í kringum mig en það eina sem ég gat sagt var “Hvar er Morten?”