Hvað er ég? Er ég eitthvað? Ég er eining, ég er hér. Ég er einstakur, það er enginn eins og ég. Lífið snýst um að búa til sjálfið, að skapa persónu þína, að byggja upp spennandi og frumlega persónu. Dópisti eða bankastjóri, skiptir ekki máli, þú ert einstakur á þinn hátt. Yfirmannstaða, tveir bílar, einbýlishús og sundlaug koma þessu máli ekki við. Þannig hlutir eru fölsk hamingja.

Eftir svona pælingar, sem fara í marga hringi og fara ekkert endar maður aftur á sama stað. Maður endar aftur á sömu spurningu; hvað er ég? Gangandi lífvera. Ég er gangandi vél, sem segir fyndna hluti og gefur fólki five. Vél sem mætir í jólaboð og fer á kaffihús. Töff gangandi vél. Þegar heimurinn er að enda þá munu þeir sem stjórna heiminum kannski hringja í fólk og tilkynna því fólki að það verði sent á aðra plánetu. Aðeins útvaldir, heimsleiðtogar, tónlistarmenn, rithöfundar og annað merkilegt fólk.

En ég? Hvað verður um mig? Ég dey, já ég mun deyja eins og restin af heiminum, ég dey kvalafullum dauða. Stend út á götu ásamt morðingjum, nauðgurum, dópistum og húsmæðrum, horfi á loftstein koma í áttina til mín. Lít til hliðar, junkie-inn að skjóta sig upp af heroíni í seinasta sinn, húsverðir á PCP, þeir deyja ánægðir, ég er ekki sáttur. Nauðgarar og morðingjar fara með syndir sínar til helvítis (?) - þeir eru fegnir, þurfa ekki að bera þessa byrði á sér lengur en ég vil ekki fara.

Ég stend ásamt þessu fólki…á þessari götu, reyni að forðast að lítast í augu við þessa auminga, horfast í augu við þetta skemmda fólk. Vil heldur ekki líta beint framan í loftsteininn, reyni að finna einhverja fallega ímynd sem getur orðið mín síðasta. Falleg lítil stúlka að leika sér með dúkku. Brosir. Horfi samt alltaf eitthvað annað. Í leit að raunveruleika.

Þegar ég dey þá mun mín síðasta minning, það seinasta sem ég sé vera andlit á fjöldamorðingja. Raunveruleiki, því þetta fólk er til því það er til og við eigum öll okkar syndir. Um leið og lofsteinninn snertir mig og sekúndu áður en ég missi meðvitund mun ég gera mér grein fyrir því að ég dey sáttur, því á þessari götu með þessu fólki á ég heima. Ég er best geymdur þar.

Þar að segja ef heimurinn mun einhverntímann enda. Eftir sit ég bara og hugsa um þessa hluti og mér líður næstum því eins og þetta séu dagdraumar, eitthvað sem ég vil að gerist. Sit og hugsa og fer með ljóð.

Ekkert að finna nema eymdina
helvítis eymdina sem miðar á mann með byssu
ég hleyp af stað, burt frá veruleikanum
hvar endar maður annars staðar en á sama stað?

Miljónir munu fylgjast með
einmanna sálir í leit að hamingju
síðar mun ekkert verða
nema líkin sem við skiljum eftir.