Væri það ekki yndislegt ef við hefðum engar tilfinningar. Ef við værum ekki mikið meira en steinar í fjöruborði.
Allar mannlegar tilfinningar og meðvitund væru á við rúllubagga úti á túni.

En hvers virði væri það þá að standa sem steinn og geta ekki í einsemd sinni fundið ljúfan andvarann strjúkast við kinn sína?

Ég andvarpa þungan þar sem ég stend uppi á stærsta hólnum og lít einu sinni enn yfir þennan fallega stað.
Ósjálfrátt leiði ég hugann að þeim. Vinunum.

Sé þá fyrir mér, glaðbeitta, sorgmædda.
Samheldna, að eilífu ?

Ég veit að ég get ómögulega skilið þá.
þeir hafa verið saman frá blautu barnsbeini, en ég er aðeins boðflenna sem bankaði upp á, án fyrirvara, á seinustu árum æskunnar.
Þegar ég fann Hann.

Æskan er spegilmynd þess liðna.
Þó ég hafi aldrei lifað á ykkar tíma í ykkar litla sjávarþorpi norður í landi sem senn siglir inn í öldur breytinganna, finnst mér sem ég sé að upplifa allt það er þið upplifðuð á ykkar unglingsárum, einungis með því að horfa á unglinga samtímans að leik.

Það er sárt. Það er sárt að geta ekki verið hluti af þeim minningum sem þú deildir með mér, en ljúfsárt þó.
Auðvitað get ég skapað mér nýjar minningar, en það verður aldrei neitt eins eftir að þú hvarfst sjónum okkar.

Þeim var við illan leik steypt út í lífið, en hvað mig varðar hef ég fengist við svo margt að óvíst er ég verði einhverntímann örugg með minn stað hér á jörðu.

Og þess vegna hef ég þróað með mér þann bölvaða hæfileika að leggja undir eins á flótta um leið og eitthvað bjátar á.
Brennt barn forðast eldinn og sérstaklega þegar brunasárin eru orðin fleiri en eitt.

En sjaldan fellur eplið langt frá eikinni.
Það að standa frammi fyrir og takast á við mín glappaskot virðist vera mér um megn.
Ég skelf á beinunum við tilhugsunina eina saman.

Ég hníg niður og felli tár með kreppta hnefa.
Hrossagaukurinn hlær að mér á þessu bjarta og fagra sumarkvöldi, en ég læt mig það engu skipta.

Ég er aumingi.

—–

Það má vel vera að í augum sumra séu þetta svolítið ruglingsleg skrif. En þið verðið samt að lesa aðeins á milli línanna.

Ég skrifa þetta upp úr tvennum pælingum sem ég hripaði niður núna í sumar, með þó nokkru millibili.
Mig langaði samt að koma þessu frá mér á einhvern hátt og fannst þetta vera besta leiðin :)

Endilega látiði í ljós ykkar gagnrýni og álit, en haldiði öllu skítkasti fyrir ykkur ef að ekki er góður rökstuðningur fyrir hendi.

Með bestu kveðju og fyrirfram þökk,

Cata