Þar sem við göngum um gleðinnar dal sé ég að leiðsögumaðurinn hefur yfirgefið okkur enn einu sinni. Illt er í efni. Þá er ekkert að gera nema ganga niður hlíðina og að húsi því sem ég sé standa upp úr jörðinni við austurhlið hliðsins, hvaða hliðs læt ég ósagt enda er það alltof dónalegt fyrir jarðlegar verur eins og ykkur, lesendur góðir.


Er ég banka á það sem húsráðandi vill örugglega kalla hurð, en ég kalla sorglega tilraun til að negla saman spýtur, heyri ég skothljóð úr hinum mikla bakgarði sem ég hafði ekki tekið eftir fyrr. Þessi mikli bakgarður virtist ganga undir nafninu Mikli Bakgarður, því hann ansaði allavega þegar ég kallaði á hann með því nafni. Mikli Bakgarður sagði mér að húsráðandi hefði nýlega skotið leiðsöguöndina, sem var eina von mín burt héðan úr þessum dal nú er leiðsögumaðurinn var horfinn. En Mikli Bakgarður sagði mér einnig að ég gæti endurlífgað leiðsöguöndina með mjög einfaldri aðferð. Ég ætti að klífa hæsta tindinn og næla mér þar í hið svokallaða “Endurlífgunarleiðsöguandarblóm” og gefa öndinni smakk. En bara smakk. Ekki meira en smakk, því annars myndi hún verða smakk-óð og gefa fólki utan undir við hvert tækifæri og ekki verða mér að neinu gagni. Því hélt ég af stað, eftir að hafa nælt mér í nesti og nýja skó hjá húsráðanda, án hans vitundar.


Gekk ég þá af stað loks, eftir mikla töf hjá heimasætunni, og gekk hratt til að komast að blóminu fyrir myrkur. Af einhverjum undarlegum ástæðum virtist gangan ganga nokkuð greiðlega fyrir sig, en inn í það gæti spilað að ég hafði fengið hjá konu húsráðanda lánaða sveðju, svo ég komst auðveldlega í gegnum þessi miklu tré sem risu uppúr jörðinni. Eftir nokkurra tíma göngu var ég kominn upp að hæðinni fyrir ofan bæinn, þar sem hæsti tindurinn virtist vera. Ekkert blóm fannst þar, svo sveðjan benti mér vinsamlegast á að ég hefði hingað til gengið í hringi og benti mér á hæsta tindinn, í nokkra km fjarlægð. Eftir að hafa kastað sveðjunni í nærliggjandi læk hélt ég aftur af stað, alveg að verða nestislaus og búinn að gjöreyðileggja nýju skóna með því að leika mér að skera i þá með sveðjunni, bölvaðri.


Eftir nokkurra tíma ferð án þess að nokkuð gerðist nema að eilítið tramp heyrðist, kom ég að brú einni. Er ég gerði mig líklegan til að ganga yfir hana hoppaði dvergur einn undan brúnni og hótaði mér barsmíðum ef ég rétti honum ekki Sóma-langlokuna mína. Svo undrandi varð ég að ég rétti samlokuna ósjálfrátt út og hoppaði þá dvergsi og beit í samlokuna mína og eilítið í puttana mína í leiðinni. Reyndi ég að losna við hann, en hann hékk eins og móður*beep* á mér. Prófaði ég þá að klípa fast í hægra eyrað og virkaði það það vel að ég skutlaðist beint upp á toppinn. Og þarna var það fyrir framan mig, blómið, leið mín burt héðan.


Býstu kannski við að eitthvað komi fyrir, fugl fljúgi niður og taki það, að það fjúki í burtu, að ég verð af blóminu? Nei, ekkert svoleiðis gerðist, höfundinum til mikillar gremju.


Renndi ég mér niður og komst á nokkrum mínútum aftur til húsráðanda, sem var því miður ekki heima, en heimasætan vísaði mér leiðina í herbergið sitt, eh, ég meina vísaði mér leiðina í hinn Mikla Bakgarð, þar sem öndin lá steindauð. Eftir að hafa boðið henni smakk, sem hún þáði þrátt fyrir að vera steindauð, lifnaði hún við og byrjaði að kvakka þessu út úr sér. Þar sem ég skildi hana ekki náði ég í konu húsráðanda í herbergið sitt og talaði hún við öndina og eftir stutt spjall sneri hún sér að mér og sagði:


“Game Over. You won.”


Og ég tók af mér hjálminn og hleypti næsta að.