mig vantar hjálp við að enda þetta

Lúkas og Perluaugu

-ókláruð smásaga um engla, djöfla og síðast en ekki síst um ástina-



tileinkað konunni sem blés í
mig lífi janúarmánuðinn forðum
og englunum sem munu vísa veg
hennar aftur í mína arma


1.
Hann var einkennilegt barn. Afstaða stjarnanna var með skrýtnara móti þegar hann fæddist og um leið og hann opnaði augun sáu viðstaddir að í þessum dreng bjó mikið myrkur og jafnframt voru ýmsar vættir á sveimi kringum hann; þó deilt væri um hvort þetta væru góðar vættir eða illar. Ekki er gott að segja hvort að hann var fallegt barn. Honum fylgdi ávalt einkennileg ásjóna sem bæði heillaði fólk og fældi frá. Þrátt fyrir að vera með sakleysi barnsins í andliti var hann alltaf með starandi djúp augu – sumum þótti þau grimm en aðrir, sem höfðu kynnst margbreytileika sálarinnar, sögðu að þau bæru vott um mann sem sá lengra og annað en aðri sáu.
Hann var föðurlaus og móðir hans skírði hann Lúkas. Faðir hans var að vísu á lífi en einkennileg örlög gerðu það að verkum að þrátt fyrir að hjarta hans slægi og blóðið í honum rynni var sál hans dauð. Hann hafði eitt sinn í ölæði skorað á sjálfan djöfulinn á hólm og sett sál sína að veði. Hólmgangan félst í því að þeir kváðust á. Faðir Lúkasar var enginn kvæðamaður en kölski byggði á reynslu sinni í kveðskap og prettumog fékk lánaða hendingu Kolbeins jöklaskálds. Fyrripartur hans var: Sérðu hérna legg legg – í honum speglast tungl tungl. Faðir Lúkasar gat ekki botnað þetta enda engin orð í tungu vorri sem ríma við tungl. Þegar Djöfullinn fór að skoða gripinn sem hann vann með kveðskapnum, það er að segja sál föður Lúkasar, sá hann að hún var einskis nýt og vita gagnslaus með öllu. Gerðist hann þá ágengur og fékk föður Lúkasar til að samþykkja að hann fengi sál frumburðar hans í staðinn. Frumburðurinn var Lúkas og þetta gerðist að móðir hans forspurðri eins og oft vill verða. Eftir þetta ráfaði faðirinn um þorpið og forðaðist auglit þeirra manna sem fram hjá honum gengum. Hann fann þó ekki til skammar því tilfinningarnar höfðu yfirgefið hann og sest að í betri mönnum með hlýrra hjartalag.
Sú staðreynd að hinn ungi Lúkas var ekki meistari yfir sinni eigin sál gerði hann daprann. Hann vissi þetta ekki þegar hann fæddist en þegar aldur færðist yfir piltinn og hugsun hans drap sveindóm æskunnar sá hann að hann var ekki eins og aðrir. Í höfði hans bjuggu hugsanir sem ekki herja á annað fólk og allra síst unga pilta. Hann sá dreka með sjö höfuð fljúga er hann lokaði augunum og sá jóreyk fjögurra reiðmanna dómsdags og sitt hvað fleira sem betra er að vera án.
Hugsanir þessar ágerðust með árunum. Sífelld dundi hríðabylur hugsuna um endir alls, hina óendanlegu sorg og einmanaleikann. Svartasta myrkur tók bólfestu í hjarta hans. Á hverjum morgni er hann vaknaði fann hann hvernig árar og djöflar læstu klóm sínum á sál hans og pintu. Hann gat ekki lifað og skildi ekki hvaða ókunnu öfl voru þarna að verki. Því ekki var hann illur, nei hann var einungis sárþjáður ungur drengur sem vissi ekki sitt rjúkandi ráð.
Og einn morgunin var sársaukinn svo mikill að hann fékk ekki við ráðið. Hann engdist til í rúminu og æpti öskri óðs mans á hjálp. Móðir hans kom hlaupandi og tók utan um hann. Hann róaðist.
“Hvers vegna grúfir þetta myrkur yfir mér móðir?” spurði Lúkas móðir sína.
Hún horfði á hann og sagði honum frá veðmáli föður hans. Hann spurði hana með tárin í augunum hvort að hann væri þá glataður um alla tíð. Móðir hans þagði í drykklanga stund og svaraði síðan:
Það hefur gerst að menn hafa kafað í dýpstu og myrkustu höfum og ekki séð neina leið upp að yfirborðinu því myrkrið hefur rænt þá alla tilfinningu fyrir áttum. En það hefur líka komið fyrir menn sem svo hefur verið statt fyrir að þeir hafa séð glitra fyrir perlum á hafsbotni, þá hafa þeir séð hvað snýr upp og hvað snýr niður. Þessum mönnum hefur verið bjargað.

2.
Lúkas óx úr grasi. Smám saman náði hann að brynja sig fyrir árunum sem sátu fyrir honum og gerðu líf hans svo sársaukafullt. Hann gerði það með því að byggja kringum sig múr sem enginn dauðlegur maður gat komist inn fyrir. Að vísu gátu djöflarnir hæglega komist inn fyrir hann en múrinn gerði það að verkum að þeir komust ekki út. Þetta voru hans djöflar og þá skyldi hann draga einn og óstuddur.
Fyrir utan múrinn fór hann smám saman að smíða nýjann mann. Það var maður sem lúkas kaus að sýna umheiminum. Það var skemmtilegur maður þótt hann ætti líka sína dökku hliðar. En þetta var maður sem átti engan sársauka – reyndar var þetta enginn maður. Þetta var ímyndaður maður, leikpersóna, sem Lúkas lék fyrir umheiminn til að forðast að sýna öðrum sár sín eftir djöflana. Með þessu læknaði hann ekki sársauka sinn. Hann hélt honum í skefjum en særði hann ekki út.
Svo kom að því að Lúkas yfirgaf þorpið og hélt til stórborgarinnar. Þar leið honum vel og gleymdi að maðurinn sem sýndi umheiminum var afsprengi múrs en ekki af holdi af blóði. En honum leið vel.
Þegar hann flutti fyrst til borgarinnar var allt svo ferskt og nýtt. Húsin ilmuðu eins og nýprentað fréttablað, fullt af æsandi sögum um ótrúlega atburði sem hentu einungis þá sem voru á réttum stöðum. Og hann var á rétta staðnum. Stúlkurnar brostu til hans þegar þær gengu framhjá honum. Mennirnir hlógu að sögunum hans og dáðust af orðunum sem meitluðu gegnum næturnar líkt og hreistur af síld sem syndir umlukinn nót. Hann var á réttum stað.
Sólin kom ávallt snemma upp og heilsaði honum þegar hann sat með kaffibollann út á stétt og velti því fyrir sér hversu heppinn hann var að búa í þessari borg, en ekki einhverri annarri. Hann vorkenndi þeim sem fara í gegnum líf sitt veðurbarnir af þeirri vissu af þeirra hlutverk hafði verið skrifað af forlögunum með aðrar borgir og aðra staði í huga. Þeir voru fórnarlömb lélegra leikstjóra – en það var hann ekki. Hann var á réttum stað.
En allir hlutir streyma að áfangastað og hans saga var allra annarra lík. Einn morgunn vaknaði hann og sólin heilsaði honum ekki. Kaffið varð volgt og vísdómur hinna bitru manna tók sér bólfesti í honum. Hann fór að hugsa. Ef til vill var einhverstaðar til eitthvað meira og betra. Ef til vill voru til betri borgir – með fallegra fólki sem hlær á einlægari hátt og brosir breiðari en jafnframt dularfyllri brosum. Djöflarnir höfðu snúið aftur. Nú kvöldu þeir hann ekki með sársauka, nei, þeir lugu að honum að það væri einhver annar staðar sem betra væri að vera á. Og með hverjum deginum sem leið ágerðist þessi hugsun. Hún tók sér bólfestu í líkama hans eins og krabbamein. Hann varð að veikum manni. Hjarta hans hafði dregið til sín þá dimmu daga sem gefa af sér ljóð og sorgmædda söngva. Svefninn og brosmildu stúlkurnar yfirgáfu hann og hann sá að sú gleði sem hann hafði upplifað var aðeins blekking. En þá gerðist líka undrið.

3.
Lúkas var staddur á skemmtistaðnum sem fólkið hló eitt sinn af sögunum hans og dáðist af gáfum hans. Hann var einn. Augu hans skimuðu yfir staðinn og staðnæmdust svo á þeirri fegurstu sjón sem hann hafði nokkurn tíma litið. Það var stúlka. Og það var engin venjuleg stúlka en samt var hún venjuleg. Hún var falleg – en það var ekki það sem Lúkas tók eftir. Nei, hann tók eftir birtunni sem umlukti hana. Hann sá augu hennar, sem voru þau fallegustu og björtustu sem hann hafði nokkurn tíma hafði séð. Og augun hennar sáu hann. Orð móður Lúkasar ómuðu í huga hans: Það hefur gerst að menn hafa kafað í dýpstu og myrkustu höfum og ekki séð neina leið upp að yfirborðinu því myrkrið hefur rænt þá alla tilfinningu fyrir áttum. En það hefur líka komið fyrir menn sem svo hefur verið statt fyrir að þeir hafa séð glitra fyrir perlum á hafsbotni, þá hafa þeir séð hvað snýr upp og hvað snýr niður. Þessum mönnum hefur verið bjargað. Hann gekk að henni og sagði. “Þú ert sjálf dýrðin í ásynd hlutanna.” Hann tók um hönd hennar og leiddi hana í burtu og hvíslaði að henni:
Þú hefur sýnt að ég er tíndur í hafi myrkursins en augu þín hafa líka sýnt mér leiðina upp á við. Hvernig ég mun komast upp að yfirborðinu. Þú hlýtur að heita Perluaugu.
Stúlkan greip fast um höndina á Lúkasi og sagði við hann:
Ég heiti Perluaugu og ég geymi vísbendingar um hvert leið þín mun liggja.
Hann fann hvernig hjartað tók að slá örar og fann guðdómlega ró færast yfir herðar hans. Honum leið vel.

4.
Kynni Lúkasar og Perluaugu opnaði nýjar víddir fyrir honum. Hann sagði henni allar þær sögur sem hann hafði að segja. Ekki þær sögur sem hann hafði sagt fólkinu fyrir utan múrinn. Nei, Lúkas hafði gleymt múrnum og öllum þeim byggingarframkvæmdum sem hann hafi staðið í kringum sitt sálartetur. Hann sagði henni sögur af sjálfum sér og talaði um hvaða mann ber að geyma. Perluaugu kveikti svo mikið líf í honum að hann gleymdi öllum heimsins sársauka, einmanaleika og hugarórum hins óstyrka.
Dagarnir flugu. Ekkert markvert gerðist nema lífið sjálft. Ef eitthvað fólk hefur nokkurntíma hefur verið ástfangið þá voru það þau. Fólk sem sá þau hugsaði með sér hversu fallegt þetta par var. Lúkas og Perluaugu nutu alls það sem öllum hefur nokkurn tíma dreymt um.
En blikur voru á lofti eins og oft vill verða.
Frá því er sagt að gamalli sögu að mesta og gagnlegasta blekking djöfulsins hefur verið sú að kenna láta mannfólkið trúa því að hann sé ekki til. Að mörgu leyti gilti það sama um Lúkas eftir að hann kynntist Perluaugu. Í alsælu vegna tilveru hennar gleymdi hann þeim djöflum sem hann dró og þeir nýttu grandvaraleysi hans.
Eftir að þekkt Perluaugu í dágóðan tíma fór að bera á þeim hugsunum sem ollu honum svo miklu hugarangri forðum. Hver er ég? Af hverju er ég hér? Væri ekki betra að vera annar staðar? Af hverju er ég ekki kominn lengra en ég er? Allar þessar spurningar fóru að kverlja hann og afvegaleiða. Þær drógu athygli hans frá því sem mestu skiptir; það er að segja staðnum og stundinni sem hann var staddur á. Og ekki síst drógu þær athygli hans frá ást sinni á Perluaugu.
Hún gat ekkert gert. Hún stóð og horfði á. Töfrar ástar hennar hrifu ekki á Lúkas því hann gaf henni ekki gaum. Hann hugsaði ekki um það sem skipti mestu máli – hann hugsaði ekki nútíðina. Heldur aðeins framtíð og fortíð.
Smám saman fór Perluaugu að fjarlægast hann. Ekki vegna þess að hún elskaði hann ekki. Nei vegna þess að hugsanir hans ýttu öllu því sem var við hlið hans frá.
Og loks vaknaði Lúkas upp við vondann draum. Hann hafði sært djöflana fram aftur og einnig misst ástina sína og þar með tapað áttum enn á ný.

5.
En þá kynntist hann englunum. Hann hafði ráfað dögum saman um borgina eftir að hann missti Perluaugu frá sér og vissi ekki sitt rjúkandi ráð. Oftar en ekki endaði hann göngur sínar í hverfinu þar sem englarnir bjuggu.
Þetta voru ekki englar í skínandi hvítum klæðum sem sveifluðu logandi sverðum og þeir virtust eiga lítið sameiginlegt með hinum fjórum reiðmönnum dómsdags. Þetta voru litlir menn í brúnum jakkafötum sem sögðu lítið og ekki gat hann séð að þeir hugsuðu því meira. Þeir vöknuðu árdegis og gengu til sinna verka, flestir voru hafnarverkamenn en sumir tóku til hendinni annar staðar. En hvar þeir unnu skiptir ef til vill ekki máli. Þegar degi tók að halla fóru þeir til sinna heimila og nærðust. Það sem eftir lifði kvölds sátu þeir á eldhúskollum fyrir utan hús sín og reyktu vindlinga.
Lúkas hafði reynt að spyrja þá hvers vegna englar kusu að lifa lífi sínu á þennann hátt. Hvers vegna beittu þeir ekki guðdómlegu eðli sínu til annarra og umfram allt merkari verka? Hvers vegna hugguðu þeir ekki hina mörgu sáru og þær milljónir sem eiga bágt? Stóð þeim virkilega á sama um hina hungruðu, heimsku og fáfróðu? En englarnir svöruðu aldrei.
Lúkas hélt áfram að spurja þá um hina ýmsu hluti en fékk aldrei nein svör frá þeim. Hann var farinn að halda að þeim stæði á sama um allt og stundum velti hann því fyrir sér hvort þetta væru nokkuð englar yfir höfuð. Samt fanst Lúkasi gott að vera kringum þá. Hvort sem þetta voru englar eða ekki stafaði gott af þeim. Þess vegna sat við hlið þeirra á kvöldin og hlustaði á þögnina með þeim.
Eitt kvöld er Lúkas var við hlið þeirra vatt einn af þeim að honum og sagði:
- þú hefur þungar byrðir Lúkas.
Lúkas horfði á hann og játaði. Engillinn hélt áfram:
- þú heldur að þú sért kvalinn af djöflum vegna synda föðursins. En það er ekki rétt. Það eina sem þú ert þjakaður af er myrkur. Myrkrið hefur villt þér sýn. Þú sérð ekki að djöflarnir sem kvelja þig eru í raun englar sem eru að hjálpa þér. um leið og þú lætur birtuna af Perluaugu lýsa þér leið munt þú ekki framar sjá afmyndaða ára læsa klóm sínum í þig. Þú muntsjá engla í skíandi klæðum taka um hönd þína og leiða þig áfram. Þú hefur fest í hinu vonda myrkri. Það er myrkur þunglyndis og einmanaleika. En það er líka til gott myrkur. Það er myrkur sem stjörnurnar skína í og ljóðin verða til. Þetta verður þú að sjá Lúkas minn.
Lúkasi brá við þessi orð og spurði:
- Er ég þá búinn að klúðra þessu öllu saman. Er ég fastur í hinu vonda myrkri og mun ég ávallt vera án ástarinnar og stúlkunar sem getur vísar mér veginn.
Engillinn svarði:
- Enginn er glataður að eilífðu. Perluaugu getur ekki fundið þig fyrr en þú ert búinn að finna þig. Það er ekki hægt að finna týndan mann.
Lúkas fylltist ótta:
- Þarf ég þá leggja á mig ómældar ferðir til að hafa upp á sjálfum mér.
- Nei, svaraði engillinn. Þú ert nú þegar búin að því. Þú et búinn að átta þig á því að það sem þú þarft er við hlið þér. Þeir sem ferðast tínast. Þeir sem hafa augun opin tínast ekki. Nú hefur þú loksins opnað augun. Og þess vegna er hægt að finna þig. Þú gleymdir aðeins sársaukanum á tímabili en nú hefur þú uppgötvað rót hans og þar með upprætt hann. Það er ekki til neitt sem heitir sársauki en menn hafa mismunandi skýrt sjónarhorn á lífið. Þeir sem sjá ekki það sem er fyrir framan þá fá hamingjuna aldrei höndlaða og ástin kemur aðeins til þeirra sem hafa opnað hjarta sitt. Þeir sem bæla niður tilfinningar vegna ótta mun aldrei komast á leiðarenda. Það eina sem getur vísað mönnum veginn í þessum heimi er hið opna hjarta og ástin. En farðu núna Lúkas þú hefur fengið þau svör allan tímann bjuggu innra með þér.
Og Lúkas gekk burt.

6.