Tómur strætóvagninn veitir mér frið. Föstudagssólin lemur mig í andlitið og undir tónlistinni er allt sýnt hægt. Bílarnir slá í takt og fólkið sem gengur um gangstéttir bæjarins er jafn óraunverulegt og ég sjálfur.

Út um gluggann ég sé furðulegu konuna taka upp hundaskítinn og setja hann í poka. Ég sé hundinn hennar glotta, stoltur af því sem hann pumpaði út. Ég sé gamla manninn sem stendur á gatnamótunum en þorir ekki yfir. Hann er búinn að standa þarna örruglega í 3 ár, hann er enn að bíða eftir að einhver kurteisi pilturinn fylgi honum yfir. Ég sé unga kurteisa piltinn sem gengur hratt framhjá gamla manninum í jakkafötum og með svört sólgleraugu. Hann býður þeim gamla góðan dag en gengur strax í burtu aðeins til að brjóta hjarta gamla mannsins niður í þúsund parta.

Ég sé fallegu stelpuna sem speglast í sólgleraugum unga piltsins er hún gengur framhjá honum. Ég sé hvernig hún lítur á alla í heiminum sem aula og kjána. Ég sé hvernig hún telur sig vera betri en allir. Ég sé hvernig hún hrasar um hundaskítinn. Ég sé hvernig furðulega konan skammast sín er hún sér að hún gleymdi einum stórum kúki. Ég sé hvernig hundurinn hennar glottar meira en nokkru sinni fyrr, eins og hann viti að unga fallega stelpan sé illskan uppmáluð og hafi átt þetta skilið. Voff án hljóðs. Það eru á svona augnablikum sem mér finnst tíminn stoppa í stað og líða hjá eins og heil mannsævi.

Ég er aðeins kominn 30 ár inn í ævina þegar ég er truflaður. Strætóinn fyllist af leikskólakrökkum sem voru greinilega að koma úr sundi. Litlar smástelpur troða sér og kremja mig upp að glugganum. Klór lyktin er raunveruleg en hrópin í litlu krökkunum eru bara hreyfingar, ég heyri ekkert í þeim. Bright Eyes öskrar á mig og í heila mínum hann kallar aftur og aftur; You Will. You?Will. You? Will. You?Will. You Will. You?Will. You? Will. You?Will?

Ég er svo klesstur upp við rúðuna að ég horfi næstum inn í lítla flugu sem hefur sest sakleysilega á rúðuna hjá mér. Ég anda hratt. Flugan lætur sig hverfa, henni leist ekkert á mig. Ég lít á krakkana, sumir krakkarnir benda á mig og hlæja, eins og ég sé tákn fyrir fáranleika heimsins. Ég skammast mín, hvernig getur maður svarað litlu barni? Lítil börn skilja ekki meiningu þess að særa einhvern með orðum.

Allir litlu krakkarnir eru brosandi, þau brosa öll með augunum. Ég trúði því einu sinni að augu gætu ekki brosað, litlu krakkarnir hafa afsannað kenningu mína. Augu þeirra segja hæ og halló eða þú ert skrýtinn og fyndinn og svo brosa þau breitt. Einn brosir ekki, augu hans sýna öðruvísi svipbrigði, hann er sorgmæddur. Hann á ekki heima hér, hann á ekki heima meðal þessara krakka. Ég veit það, ég sé það og heyri það. Hann er myrkrið í þessu mikla ljósi. Hann er ég, fyrir svona 12 árum.


…Ég skrifaði þessa sögu eftir að hafa upplifað svipaða strætóferð svo það má segja að sagan sé byggð á sannsögulegum atburðum…