Sandra vaknaði einn morguninn með sólskinið beint í andlitið. Glugginn var opinn og það var blíðalogn úti. Hver opnaði eiginlega gluggann? Hún leit ringluð í kringum sig og sá að sjónvarpið hennar var horfið en videoið brotið í spað. Myndirnar héngu skakkar á veggjunum, hundurinn hennar lá eins og meðvitundarlaus á gólfinu (hundur sem átti að kallast varðhundur) og páfagaukarnir báðir horfnir úr búrinu. Það voru innbrotsþjófar í herberginu hennar í nótt!!!!!
Hún athugaði hvort hundurinn væri nokkuð dauður þarna á gólfinu en þá hafði honum bara verið gefið svefnlyf í hundanammið sem þjófarnir eða þjófurinn hafði gefið honum.
Sandra hljóp inn til mömmu sinnar og pabba. Þau voru sofandi og greinilega ekki heldur vitni að neinu, því eitthvað var líka búið að taka út úr þeirra herbergi. Þau stukku ringluð á fætur og Andri, faðir Söndru hringdi rakleiðis á lögregluna.
Lögreglan sá engin önnur ummerki en þau að allt var horfið. Engin fingraför (þeir hafa auðvitað notað hanska), engin fótspor, sjónvarpið var heilt og óbrotið fyrir utan herbergisgluggann, ekkert vopn fannst sem átti að hafa verið notað á brotna videoið. Þetta var alveg undarlegt. Hvaða innbrotsþjófar skilja svo sjónvarp sem þeir ræna, eftir fyrir utan gluggann?
Þau ákváðu að halda sér vakandi næstu nótt (þykjast vera sofandi eða sofa til skiptis). Sandra var sú síðasta sem fylgdist með. Hundurinn var steinsofandi en án svefnlyfja, páfagaukarnir voru ekki búnir að skila sér heim…enda ekki vanir að fljúga út um gluggann. Allt í einu heyrir Sandra eitthvert þrusk. Glugginn hennar opnast hægt bakvið gluggatjöldin. Hún þykist vera sofandi en skelfur úr hræðslu og nóttin en ekki eins hlý og dagurinn því það vantar sólskinið. Það brakar í glugganum. Hún felur sig undir sænginni en sér í gegnum smárifu. Hvað er nú þetta? Það skein skært og fallegt ljós innum gluggann. Þarna koma tveir litlir skínandi álfar á stærð við dverga. Þeir byrja á því að gera við videoið. Annar þeirra kallar hinn Tínó. Hann skammar hann fyrir að hafa misst lampann á vídeoið í gær. Þá svarar hinn hinum með nafninu Bínó og segir að það hafi verið alveg óvart. Þeir flytja sjónvarpið út um gluggann og fyrir framan herbergi Söndru. Þeir hafa lagað vídeóið og tengja það nú við sjónvarpið úti og byrja að horfa á ævintýramyndir sem Sandra á á spólum. Þeir löguðu skökku myndirnar á veggjunum og settu páfagaukana inní búrið.
Þetta fannst Söndru alveg furðulegt. Hundurinn Vaskur vaknaði ekki einu sinni!
Sandra læðist að glugganum ofurvarlega og sér að þeir eru að horfa á teiknimynd um páfagaukana Gogga og Togga, sem er uppáhaldsteiknimynd Söndru. Allt í einu lítur einn af þeim við og honum bregður mikið er hann sér Söndru. Tínó hleypur í burtu en Bínó er ekkert hræddur við hana. “Komdu Tínó, hún er bara saklaust barn. ”Hvað eruð þið að gera með sjónvarpið mitt og vídeóið hérna úti?“ sagði Sandra.
Bínó:”Við vildum ekki vekja þig. Sjálfir eigum við ekkert sjónvarp og vídeó í hellinum okkar. Við sáum bæinn ykkar úr mikilli fjarlægð og ákváðum að skoða hann. Við erum tækniálfar og kunnum á öll tæki sem við komum nálægt og okkur langaði að fikta í þessum furðulegu tækjum sem þú átt…og sem þú kallar “sjónnapp” og “vídjó” er það ekki rétt borið fram hjá mér?“

Tínó:”Já, svo braut ég óvart vídjóið með lampanum þínum.“
Sandra:”Hvað voruð þið að gera með páfagaukana mína? Af hverju gáfuð þið hundinum mínum svefnlyf?“

Bínó:”Sko…við sáum utan á hulstrinu á spólunni að þessir fuglar voru bæði á myndinni og hérna lifandi inni hjá þér svo við vorum forvitnir og vildum fara heim með þá og rannsaka þá þegar við vorum búnir að horfa á spóluna. Við erum tækniálfar og finnst gaman að mennta okkur enn frekar. Nú komum við með gaukana til þín aftur því við erum búnir að fræðast um þá.“

Sandra:”Af hverju eruð þið hérna aftur að horfa á sömu spóluna?“

Tínó:”Okkur finnst hún svo skemmtileg. Áttu fleiri spólur um þessa páfagauka?“

Sandra:”Nei, þetta er eina spólan með þeim. En ég á spólu um Lalla löggu…hann er duglegur í að handsama innbrotsþjófa eins og ykkur!“

Bínó:”Æ, gerðu það ekki vera reið. Við erum bara litlir forvitnir álfar og við skulum aldrei gera þetta aftur. Við lofum því. Viltu sleppa okkur í þetta skipti og segja ekki foreldrum þínum frá þessu?“

Sandra:”Ókei, ég skal sleppa ykkur með áminningu: Brjótist aldrei inn aftur þá verðið þið aldrei frjálsir aftur og komist aldrei heim, í hellinn ykkar…því þið dúsið í fangelsi.

(Söndru var farið að líka svolítið vel við þessa litlu álfa og hugsaði hvaða skemmtilega ævintýri þetta var sem hún var að lenda í…svona gerðist venjulega bara í barnabókunum, að hitta alvöruálfa heima hjá sér)

Sandra lofaði þeim að horfa reglulega með sér á video þegar foreldrar hennar voru ekki heima og þau urðu bestu vinir til eilífðar.