Ég hef alltaf byrjað á sögum, fann einhvern svaka söguþráð og byrjað að skrifa en aldrei lokið við söguna. Hér kemur svo mín fyrsta, fullgerða smásaga.
Endilega leiðréttið málfræði- og stafsetningarvillur :)

Þetta var…öðruvísi dagur. Ég vaknaði um miðja nótt við óvenjulegan draum, meira eins og martröð kannski. Mig hafði dreymt fallegan dag, smá þung ský en annars alveg logn.
Ég var á gangi þegar allt í einu birtist svo skýr mynd af framhlið á bíl alveg upp að mér, ég sá blóð og glerbrot og ég heyrði óskýrar raddir en ég held þær hafi sagt: “er hún dauð?”

Eftir þetta vaknaði ég og fór að velta draumnum fyrir mér. Yfir morgunmatnum hló ég bara að þessu. Þetta er bara draumur, ekkert að því að fá martraðir stöku sinnum.
Á leiðinni í vinnuna horfði ég upp í himininn. Sólin skein og fuglarnir sungu. Vikum saman hafði rignt og það var æðislegt að fá smá sól.
Kettirnir í hverfinu horfðu á eftir mér ganga þessa þriggja mínútna göngu mína í vinnuna. Þeir horfðu rannsakandi á mig, ég brosti bara út að eyrum og fannst þetta yndislegur dagur, hann yrði alveg fullkominn.
Þegar að ég kom í vinnuna um ellefu leitið blasti við mér röð út að dyrum, af viðskiptavinum sem biðu hungraðir eftir að ég og Magnea afgreiddum matinn þeirra.
Á meðan að ég afgreiddi kúnnana fór ég að pæla í orðinu viðskiptavinur. Já, “vinur” er ekki rétta orðið held ég, yfir suma. Sumt fólk er svo pirrað og óákveðið að ég veit ekki hvaðan þetta “vinur” kemur frá.
Þetta orð ætti að vera meira svona eins og: “óviss og óútreiknanleg manneskja sem er ekki sátt við það sem hún fær.”
Sumt fólk hreinlega þylur yfir manni heilu og hálfu fyrirlestrana um það hversu hægt röðin gengur, maturinn of heitur, maturinn of kaldur, maturinn of dýr og margt fleira.
En kúnnarnir skemmdu ekki fyrir mér daginn. Ég hélt áfram að afgreiða fólkið og brosti til þeirra og óskaði þeim góðrar helgar.
Þegar liðið var á röðina, kannski þrír eða fjórir í röð, kom gamall maður. Mér fannst óttaleg frekja að leyfa aumingja manninum að fá ekki meira pláss í röðinni. Fólkið fyrir aftan og framan stóð þétt að honum, lá við að það færi inn í hann.
En maðurinn var ekkert að ergja sig á því. Ég bauð manninum góðan daginn og manneskjan fyrir aftan fór að panta eitthvað. Ég stoppaði hana og lét hana vita af því að maðurinn fyrir framan hana væri á undan. Konan starði hneiksluð á mig og leit svo á konuna fyrir framan manninn. Ég leit á þá konu og hún starði móðguð á mig. Ég horfði bara hissa á hana og spurði manninn hvað hann vildi. Maðurinn brosti bara til mín og bað um vatnsglas. Ég náði í glas og lét vatn renna. Rétti svo manninum glasið og maðurinn þakkaði fyrir. Ég óskaði honum góðrar helgjar um leið og hann gekk í burtu. Konurnar horfðu eitthvað skringilega á mig þegar að ég leit á þær. Magnea hnippti í mig og sagði mér að fara bakvið og hvíla mig aðeins og að hún sæi um röðina. Ég tók þessari pásu fegin og gekk inn um dyrnar. Fékk mér smá vatnsglas og eftir stutta stund kom Magnea frekar reið á svipinn.

-hvað í ósköpunum átti þetta að þýða? Það er ekkert fyndið að þykjast vera að afgreiða einhvern ósýnilegan mann þegar að það eru viðskiptavinir að bíða í röð óþolinmóðir! Þetta var afskaplega barnalegt af þér.

Ég starði bara og vissi ekkert hvað ég átti að gera.

-sástu ekki manninn? Gamall maður með hatt og gulan trefil, í bláum frakka og með gleraugu? Spurði ég.

-svaka fyndið! Sýnist þér ég vera að hlæja? Nei, þú ert orðin veik og ég ætla að senda þig heim!

-Ég er við hesta heilsu, viltu ekki láta svona, þú sást manninn, var það ekki? Mér leist ekkert á blikuna. Hvað var að ske?

Rétt í þessu kom Svanur inn um dyrnar.
-Sælar stúlkur. Hann brosti og virtist vera í mjög góðu skapi eins og vanalega.

-Blessaður. Sagði Magnea.

-Heyrðu já, það er víst einhver gamall maður frammi að biðja um vatnsglas ef önnur hvor ykkar væri til í að afgreiða hann. Hann glotti.

Við fórum báðar fram. Ég leit beint á manninn sem ég hafði afgreitt áðan. Ég leit á Magneu sem virtist ekki koma auga á hann. Hún skimaði í allar áttir. Ég gekk beint að vaskinum og náði í vatnsglas og rétti manninum. Svanur gekk inn og blikkaði manninn.

-Þú sérð hann! Sagði ég ögn hátt og ræskti mig aðeins. Magnea starði á okkur bæði.

-Ég sé engan nema ykkur. Sagði hún.
Gamli maðurinn glotti og gekk í burtu. Svanur brosti til mín. Ég skildi ekkert í þessu. Ég og Svanur sáum hann en ekki Magnea.

-Hvað er að ske? Spyr ég Svan.
Svanur brosti bara og gekk í burtu. Ég elti hann inn, en Magnea fór að afgreiða.

-Svo að þú ert skyggn ha? Svanur starði bara glottandi á mig.
-Hvað meinaru? Eina sem að ég gerði var að afgreiða manninn!
-Manninn? Tjah, þú sérð eitthvað sem ekki allir sjá. Þessi maður var afi minn. Hann glotti.
-Var? Meinaru ekki ER? Spyr ég.
-nei, VAR. Hann brosti, hló aðeins og brosti svo bara.
-Ertu að segja mér að ég, og þú, sjáum fólk sem Magnea sér ekki? Fólk sem er látið? Ég fékk stein í magann. Ég varð snjó hvít í framan og mig fór að svima. Mér brá svo svakalega.

-já, ætli það ekki. Svaraði Svanur og hélt áfram að vinna. Ég stóð þarna í svolitla stund, fékk mér sopa af vatninu og fór svo að hugsa um manninn.
Magnea sagði ekki orð við mig og Svan, bara vann og vann og minntist heldur ekki einu orði á gamla manninn.

Það fór að kvölda. Ég gekk heim á leið. Ég horfði upp til himins, skýin voru þung en samt logn og engin rigning. Ég kannaðist eitthvað við þessa mynd, himinninn var svo kunnuglegur.
Ég leit niður, það var verið að gera við gamla blokk í hverfinu. Ég stoppaði örstutta stund og fann hvernig vindurinn lék um hárið mitt. Mér varð snögglega ískalt og ég fékk skrítna tilfinningu í magann. Ég gekk af stað, ég fann einhverja orku, eða kraft, koma á móti mér. Ég fann enn smá vind sem varð alltaf sterkari og sterkari.
Svartur köttur sat á jörðinni. Hann hvæsti og hljóp svo á stað eins og skrattinn væri á hælum hans. Ég kom að krossgötu og vindurinn og krafturinn urðu svo sterkir að ég komst varla áfram. Ég gekk yfir götuna án þess að líta til beggja hliða. Ég heyrði bíl skransa og leit til hliðar. Stór jeppi blasti við mér og lítil stelpa stökk út á götuna, beint fyrir bílinn. Mér dauð brá og sá ekkert nema blóð frá stúlkunni og glerbrot kringum hana. Allt varð svo rólegt, það var logn og ég fann svo mikla kyrrð inni í mér. Stúlkan var dáin.